Myndarleg Það er erfitt að ímynda sér Höllu sem afturgöngu, en farði getur gert kraftaverk.
Myndarleg Það er erfitt að ímynda sér Höllu sem afturgöngu, en farði getur gert kraftaverk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is „ÉG leik drauginn, ég er vondi karlinn,“ segir Halla Vilhjálmsdóttir leikkona sem er um þessar mundir við tökur á kvikmyndinni Gost Machine í Belfast á Norður-Írlandi.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

„ÉG leik drauginn, ég er vondi karlinn,“ segir Halla Vilhjálmsdóttir leikkona sem er um þessar mundir við tökur á kvikmyndinni Gost Machine í Belfast á Norður-Írlandi. Um er ræða hrollvekju af stærri gerðinni, og er hún að mestu leyti tekin í gömlu fangelsi í borginni.

„Ég leik konu sem hefur fengið mikla þjálfun í bardagalistum og er svona hryðjuverka-súperheili. Hún á sem sagt að hafa verið tekin til yfirheyrslu í þessu fangelsi fyrir nokkrum árum, en aldrei komið út. Það var vegna þess að hún var mjög hörð af sér, sagði aldrei neitt og var drepin að lokum. Myndin byrjar á því, en svo snýst þetta allt um hefnd hennar. Hún er að hefna sín á hernum. Þannig að þetta er frekar magnað.“

Blóð á veggjunum

Tökur á Ghost Machine hafa staðið yfir í þrjár vikur, en Halla gerir ráð fyrir að enn séu um tvær vikur eftir. Tökurnar fara að mestu leyti fram á næturnar, og því fer Halla ekki að sofa fyrr en um kl. 9 á morgnana.

„Við erum að taka í alvöru fangelsi hérna í Belfast, og ég held sko að það sé reimt í því. Þetta er nefnilega frægt fangelsi af því að það voru svo margir hengdir í því. En það er ekki opið fyrir almenning og maður er með aðgang að svæðum sem maður vill eiginlega ekkert vera með aðgang að, það er til dæmis ennþá blóð á veggjunum, tannaför og svona,“ segir Halla.

Og það er ekki nóg með að aðstæður á tökustað séu erfiðar, því Halla þarf að leggja mikið á sig á hverjum tökudegi.

„Ég er í förðun í fjóra til fimm tíma á dag og verð mjög ógeðsleg. Þannig að ég þarf alltaf að mæta fyrst á svæðið og fara síðust, af því að það liggur við að ég þurfi að liggja í terpentínu til að ná farðanum af,“ segir Halla, en þar að auki er hlutverkið sem hún leikur gríðarlega krefjandi líkamlega séð. „Ég leik öll áhættuatriði sjálf, með farðann, handjárn, keðjur og allan fjandann. Og þegar það var verið að þrífa af mér farðann í morgun [í gærmorgun] kom til dæmis í ljós að ég var með verri marbletti undir gervi-marblettunum,“ segir Halla og bætir því við að hún komist ekki af með að sofa minna en átta eða níu tíma á dag um þessar mundir – svo mikið sé álagið.

Draumahlutverkið

Það er þó bót í máli að aðbúnaður leikara er allur fyrsta flokks, og raunar segir Halla að komið sé fram við hana eins og stjörnu. „Ég er sótt, og mér er skutlað, ég er með einkabílstjóra, þriggja herbergja íbúð út af fyrir mig og hjólhýsi á tökustað. Maður er ekki vanur svona bruðli, það er eiginlega bara eitthvað skrýtið við þetta,“ segir hún og hlær.

Ghost Machine verður frumsýnd á næsta ári, og er líklegt að hún verði sýnd út um allan heim. Aðspurð segir Halla því að hlutverkið geti veitt henni fjölmörg tækifæri á næstunni.

„Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þessu. Þetta hefur líka alltaf verið draumahlutverkið mitt, eitthvað í anda The Bride í Kill Bill , svona sár kona í leit að hefnd...“

Stórskotalið kemur að gerð Ghost Machine

GHOST Machine er bresk kvikmynd sem unnin er í samvinnu við írska kvikmyndasjóðinn og er kostnaður við myndina ekki undir hálfum milljarði íslenskra króna. Leikstjóri myndarinnar heitir Chris Hartwill, en hann hefur meðal annars leikstýrt hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Numb3rs .

Með aðalhlutverkin í myndinni, auk Höllu, fara Rachael Taylor úr Transformers , Sean Faris sem lék aðalhlutverkið í Never Back Down og Luke Ford sem lék meðal annars stórt hlutverk í nýjustu Mummy -myndinni.

Það var Gail Stevens sem fékk Höllu í myndina, en hún er svokallaður „casting director“ við myndina. „Hún var alveg staðráðin í að ráða mig í þessa mynd. Þannig að hún leigði bara næturklúbbinn Fabric í London og fékk tökulið, bara til þess að ég gæti gert „screen test“. Svo spurði hún mig bara hvernig hreyfingar ég vildi að karakterinn minn væri með,“ segir Halla, en Stevens þessi hefur unnið við fjölda stórmynda og fékk meðal annars Ewan McGregor til að taka að sér aðalhlutverkið í Trainspotting og Scarlett Johansson í Match Point .

„Hún fær sko jólakort frá mér,“ segir Halla og hlær.

Þá er ekki annað hægt en að minnast á bardagaþjálfara Höllu sem er ekki af verri endanum, en sá heitir Buster Reeves og starfaði sem „body double“ fyrir Brad Pitt í Troy og Christian Bale í Batman Begins og The Dark Knight . Það þýðir að hann sá um öll áhættuatriði fyrir þá kappa, auk þess sem líkamar þeirra voru stundum klipptir út og hans settur í staðinn.

„Hann er með mig í einkaþjálfun, þannig að maður er bara slefandi í vinnunni. Brad Pitt er ágætur, en vó...“ segir Halla að lokum.