Héraðsdómur Reykjavíkur er eini dómsstóllinn á landinu sem nýtir sér ekki þjónustu Barnahúss nema í undantekningartilfellum þrátt fyrir að sérfræðingar séu sammála um að aðstaðan í Barnahúsi sé betur til þess fallin en héraðsdómur.
Héraðsdómur Reykjavíkur er eini dómsstóllinn á landinu sem nýtir sér ekki þjónustu Barnahúss nema í undantekningartilfellum þrátt fyrir að sérfræðingar séu sammála um að aðstaðan í Barnahúsi sé betur til þess fallin en héraðsdómur. Samkvæmt barnaverndarlögum er það dómaranna sjálfra að meta hvar skýrslutaka barna skuli fara fram. Barnahús sérhæfir sig í skýrslutöku og meðferð barna sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldi. Hins vegar er öllum dómstólum heimilt að nýta sér aðstöðuna við skýrslutöku barna óháð eðli brota sem er til umfjöllunar. Margir starfsmenn innan barnaverndarnefnda landsins eru á því að allar skýrslutökur barna eigi að fara þar fram þar sem Barnahús hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og er fyrirmynd annarra sambærilegra stofnana erlendis. „Skýrslutaka fyrir dómstólum er mjög íþyngjandi fyrir börn“ segir Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu. Hann bendir á að þegar frumvarp til laga um meðferð sakamála var lagt fyrir Alþingi hafi ríkissaksóknari, Barnahús og Héraðsdómur Reykjavíkur verið sammála um að breyta lögunum á þann veg að skýrslutaka barna yrði á ábyrgð lögreglu en Alþingi hafi ekki fallist á það. Fyrir vikið lúta skýrslutökur barna sömu lögmálum og dómsmál og því er til að mynda verjandi meints geranda viðstaddur skýrslutökuna.