Jóhann R. Benediktsson
Jóhann R. Benediktsson
Eftir Andra Karl andri@mbl.is „ÞETTA verður erfiður fundur og ég get ekki sagt að ég hlakki til hans,“ sagði Jóhann R.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

„ÞETTA verður erfiður fundur og ég get ekki sagt að ég hlakki til hans,“ sagði Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í gærkvöldi en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um efni starfsmannafundar, sem hann hefur boðað til í dag. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun Jóhann tilkynna afsögn sína á fundinum og fleiri yfirmenn hjá embættinu munu fylgja fordæmi hans.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur tilkynnt ákvörðun sína um að auglýsa stöðu lögreglustjórans á Suðurnesjum lausa til umsóknar frá og með 1. apríl nk. Hann hefur skýrt ákvörðun sína með því, að miklar breytingar hafi orðið á embættinu, sem hét áður sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Jóhann nýtur mikils stuðnings meðal starfsmanna sinna og hefur lögreglufélag Suðurnesja lýst yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun ráðherrans.

Jóhann er fámáll þegar hann er spurður út í starfslok sín, hvenær sem þau verða, en tekur fram að hann hafi meiri áhyggjur af stöðu lögreglunnar í landinu, lögreglumönnunum og embættinu á Suðurnesjum – og nefnir hann þá helst fjárframlög ríkisins. Hann sjálfur sé aðeins aukastærð.