Kvikmyndaritið Variety hefur greint frá því að Universal-kvikmyndaverið hafi keypt kvikmyndaréttinn að hinni klassísku skáldsögu Hermans Melville frá árinu 1851, Moby Dick.

Kvikmyndaritið Variety hefur greint frá því að Universal-kvikmyndaverið hafi keypt kvikmyndaréttinn að hinni klassísku skáldsögu Hermans Melville frá árinu 1851, Moby Dick. Sagan um Ahab skipstjóra og örvæntingarfulla hefndarför hans gegn hvíta illhvelinu Moby Dick ætti að vera flestum vel kunn en þessi útgáfa sögunnar mun verða nokkuð breytt.

„Okkar sýn er nokkuð frábrugðin þeirri útgáfu af Moby Dick sem afar okkar lásu,“ segir Adam Cooper, en hann hefur ásamt Bill Collage verið fenginn til að skrifa handritið að myndinni. „Þetta er tækifæri til að taka tímalausa klassík og nýta allar þær framfarir sem orðið hafa á sviði tæknibrellna til að segja sögu sem er þegar öllu er á botninn hvolft hasar- og hefndarsaga.“

Á meðal þess sem verður breytt í sögunni er persóna Ahabs skipstjóra en minna verður gert úr þráhyggju hans um að murka lífið úr illhvelinu og þess í stað verður hann sýndur sem traustur leiðtogi áhafnar sinnar.

Nú þegar hefur verið ráðinn leikstjóri til starfa en það mun vera Timur Bekmambetov, sem hefur meðal annars gert myndir á borð við Wanted. viggo@24stundir.is