Ómar Ragnarsson
Ómar Ragnarsson
Frá Ómari Ragnarssyni: "JÓNAS Elíasson prófessor ritar bréf í Morgunblaðið sl. sunnudag um grein mína í blaðinu síðastliðinn miðvikudag og spyr hvers vegna þjóðin hafi ekki verið upplýst um fegursta hluta Tungnaár fyrr en Landsvirkjun fór að hreyfa Bjallavirkjunarmálinu."

JÓNAS Elíasson prófessor ritar bréf í Morgunblaðið sl. sunnudag um grein mína í blaðinu síðastliðinn miðvikudag og spyr hvers vegna þjóðin hafi ekki verið upplýst um fegursta hluta Tungnaár fyrr en Landsvirkjun fór að hreyfa Bjallavirkjunarmálinu. Hvað mig snertir er svarið þetta: Ég gerði klukkustundar sjónvarpsþátt um svæðið frá Fljótshlíð til Tungnaárjökuls í ársbyrjun 1998 undir heitinu „Fólk og firnindi“, – „Ó, þú yndislega land“. Eini hluti Tungnaár, sem sýndur var í þessum þætti, er einmitt sá hluti árinnar sem Landsvirkjun hyggst svipta í burtu með Bjallavirkjun. Í opinberum rökstuðningi mínum allt frá 2006 fyrir því að þetta svæði sé merkara en Yellowstone tel ég upp á annan tug fyrirbrigða sem Yellowstone eigi ekkert svar við, og þessi hluti Tungnaár er ævinlega í þeirri upptalningu.

Jónas upplýsir að Elliðavatn sé manngert miðlunarlón frá 1930 en getur þess ekki að þar hafi verið vatn með þessu heiti um aldir. Virkjanafíklar nútímans nota allt að aldar gamlar virkjanir sem fyrirmyndir í rökstuðningi sínum, þar á meðal stækkun Elliðavatns til miðlunar. En aðstæður hafa breyst, – virkjanir Reykvíkinga 1930 snerust um það hvort fátæk og vanþróuð þjóð hefði vatnsafl til rafmagnframleiðslu til almenningsnota eða ekki. Nú snúast virkjanaáform um það hvort framleiða eigi 6-10 sinnum meira rafmagn fyrir útlendinga en við þurfum til eigin nota og valda með því svo stórfelldum náttúruspjöllum að eyðing Rauðhólanna og spjöll fyrri tíma blikna. Jónas segir að baráttan gegn virkjanaáformum fari ekki millimetra út fyrir virkjanasvæði Landsvirkjunar og hún sé lögð í einelti. Hann virðist ekki hafa hugmynd um andóf gegn virkjunum á Ölkelduhálsi, í Grændal, Krýsuvík, Skjálfandafljóti, Jökulsánum í Skagafirði og Kerlingarfjöllum en allar þessar virkjanir eru fyrirhugaðar af öðrum en Landsvirkjun. Jónas segir: „Baráttan gegn álinu minnir á þá tíma þegar hatrammlega var barist gegn togaraútgerðinni.“ Samt hefur náttúruverndarfólk nýlega fallist á fyrirhugaða Búðarhálsvirkjun, þar áður á Vatnsfellsvirkjun og ekki barist gegn virkjunum við Hrauneyjafoss, Sigöldu, Sultartanga, Nesjavelli, Svartsengi og Reykjanes. Allar þessar virkjanir framleiða orku fyrir álver. Þar á undan var byggður um allt land fjöldi virkjana sem of langt yrði upp að telja. Jónas virðist ekki skilja að fleiri en Landsvirkjun eða Vegagerðin geti lagt fé af mörkum til gróðurverndar og uppgræðslu.

Í lok bréfsins segir Jónas um okkur, sem viljum hægja á virkjanahraðlestinni: „Þetta fólk er pólitískir mótmælendur en ekki verndarar helgra véa eins og það gefur sig út fyrir að vera.“ Jónas virðist ekki hafa hugmynd um að Landsvirkjun sé fyrirtæki, sem var stofnað af pólitíkusum og var og er stjórnað af pólitíkusum. Það eru stjórnmálamenn í ríkisstjórn, á Alþingi og í sveitarstjórnum, sem standa fyrir virkjunum og orkusölu til stóriðju. Hvernig hægt er að koma náttúrugersemum til varnar án þess að það snerti pólitíkusa og virkjanapólitík er mér hulin ráðgáta.

ÓMAR RAGNARSSON,

formaður Íslandshreyfingarinnar – lifandi lands.

Frá Ómari Ragnarssyni

Höf.: Ómari Ragnarssyni