Davíð Oddsson seðlabankastjóri gerði þjóðinni grein fyrir því í síðustu viku hvað ætti að gera í peningamálum og hvaða fáráðar það væru sem gagnrýndu Seðlabankann og aðgerðir bankans.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri gerði þjóðinni grein fyrir því í síðustu viku hvað ætti að gera í peningamálum og hvaða fáráðar það væru sem gagnrýndu Seðlabankann og aðgerðir bankans. Traustir sjálfstæðismenn hlustuðu andakt-ugir á þegar úfinn foringinn birtist á skjánum og lutu höfði í auðmýkt að viðtalinu loknu við Davíð og sögðu, þetta er alveg rétt. Þarna er eini maðurinn sem veit hvað á að gera og mun leiða þjóðina út úr ógöngunum. Davíð hefur raunar fyrir löngu áttað sig á því að það er betra að veifa röngu tré en öngvu, en láðist að kenna eftirmönnum sínum þá mikilvægu reglu. Ég hef aldrei efast um að Davíð Oddsson og vinur hans Kári Stefánsson í Decode eru reginsnillingar á sínu sviði, en hef alltaf verið hræddur um að þeir félagar mundu skilja eftir sig sviðna jörð og strandsiglingu þegar þeir yfirgæfu sinn vettvang.

Í lögum um Seðlabanka Íslands segir í 3. grein að það sé meginmarkmið Seðlabanka Íslands að stuðla að stöðugu verðlagi. Verðbólga mælist þrisvar sinnum meiri en nokkurs staðar annars staðar í okkar heimshluta. Verðlag hefur ekki verið stöðugt frá því að Davíð hóf að starfa sem seðlabankastjóri. Seðlabankinn hefur því ekki staðið við það meginmarkmið sem honum er ætlað að sinna, að tryggja stöðugt verðlag. Í einkageiranum láta framsækin fyrirtæki þá stjórnendur fara sem geta ekki náð fram þeim meginmarkmiðum sem fyrirtækið ætlar sér að ná. Bankastjórn Seðlabankans hefur engar slíkar viðmiðanir og lætur bankastjórnina sitja þó að ljóst sé að hún ráði ekki með neinu móti við þann grundvöll sem á að mestu að réttlæta tilveru Seðlabankans.

Í Bretlandi er verðbólga að nálgast 5 prósent og þar í landi hrópa stjórnmálamenn og fólk í viðskiptalífinu á aðgerðir til að tryggja stöðugleika. Hér á landi mælist verðbólgan á sama tíma 14,5 prósent og forsætisráðherra talar um að vandi okkar sé vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Utanríkisráðherrann bætir um betur og vill senda stóran hluta íslenskra athafnamanna í fjármálalega afvötnun og girða fyrir það að þeir taki áhættu. Vegna ummæla utanríkisráðherra velti ég því fyrir mér hvort nokkurs staðar í veröldinni hefði markaðsþjóðfélag getað náð einhverjum árangri án þess að athafnamenn tækju áhættu. Ég kannast ekki við að neitt slíkt hafi nokkru sinni verið til í veraldarsögunni. Mér finnst líka frekar ólíklegt að stjórnmálamaður sem vill láta taka sig alvarlega og er tekinn alvarlega hafi viðhaft jafn furðulegt orðfæri í markaðssamfélagi fyrr en utanríkisráðherra nú. Ef til vill stafar þetta af því hvað stutt er í sósíalíska fortíð utanríkisráðherra að hún gerir sér ekki nema takmarkaða grein fyrir gangverki og slagverki markaðarins og ef til vill eiga þau Davíð og hún það sameiginlegt.

Seðlabankastjóri og forsætisráðherra neita því að til sé nokkur séríslenskur vandi í efnahagslífinu sem orð sé á gerandi, vandamálin séu fyrst og fremst vegna vandamála á fjármálamörkuðum erlendis. Utanríkisráðherra aftur á móti, helsti valdamaður ríkisstjórnarinnar með forsætisráðherra, segir að vandinn stafi af hraklegri stefnu fyrri ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Það mun vera ríkisstjórnin sem samstarfsmenn hennar nú, þeir Davíð og Geir, voru í forsæti fyrir.

Þegar svo háttar til að helsta áhrifafólk ríkisstjórnarinnar, Geir og Ingibjörg, geta ekki komið sér saman um af hverju efnahagsvandinn stafar, hvað þá að þau gangi í takt, þá er eðlilegt að illa gangi að móta vitræna peningamálastefnu ríkisstjórnarinnar. Á toppnum trónar þó einn sem veit nákvæmlega hvað á að gera og það er seðlabankastjórinn okkar, Davíð Oddsson, sem um langa hríð hefur getað talið þjóðinni trú um að Vatnajökulsþjóðgarðurinn sé aldingarður.

Höfundur er alþingismaður