Heimir Guðjónsson
Heimir Guðjónsson
KEFLVÍKINGAR eru í þeirri stöðu að geta fagnað Íslandsmeistaratitlinum í kvöld en þó án þess að spila.

KEFLVÍKINGAR eru í þeirri stöðu að geta fagnað Íslandsmeistaratitlinum í kvöld en þó án þess að spila. Því takist FH-ingum ekki að leggja Breiðablik að velli í frestuðum leik í Kaplakrika í dag er ljóst að Keflavík er orðin meistari í fyrsta skipti í 35 ár.

,,Við erum svo sannarlega klárir í slaginn og menn vita nákvæmlega hvað þarf að eiga sér stað,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH-inga, við Morgunblaðið í gærkvöld en fyrir leikinn í dag eru FH-ingar fimm stigum á eftir Keflvíkingum.

,,Við höfum búið okkur undir erfiðan leik enda Breiðabliksliðið sterkt og menn þar á bæ virðast greinilega hafa meiri áhuga á að vinna FH en að komast í Evrópukeppnina. Við töpuðum illa í fyrri umferðinni fyrir Blikunum og það á að vera okkur víti til varnaðar. Hugarfarið var frábært í síðasta leik og ég trúi ekki öðru en að mínir menn verði í sama gírnum,“ sagði Heimir en allir leikmenn hans eru tilbúnir í slaginn að undanskildum Höskuldi Eiríkssyni.

18 ára strákur í marki Blika

Daninn snjalli Casper Jacobsen getur ekki staðið á milli stanganna hjá Blikum í kvöld vegna meiðsla í hné sem hann varð fyrir í leiknum gegn Fylki á sunnudaginn og það kemur í hlut hins 18 ára gamla Vignis Jóhannssonar að verja mark Kópavogsliðsins.

,,FH fær ekkert gefins frá okkur. Við höfum verið daprir í síðustu tveimur leikjum og þurfum að rétta okkar hlut. Okkur ber skylda til að taka leikinn alvarlega og við förum í leikinn með því hugarfari að vinna. Það er nú bara þannig að þegar maður fer á gamlar slóðir þá vill maður sýna úr hverju maður er gerður og það var að heyra á strákunum að þeir ætluðu að veita FH harða keppni,“ sagði Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, en hann var á árum áður fyrirliði FH-liðsins.

*Leikmenn Keflavíkurliðsins ætla að koma saman á veitingahúsi í Reykjanesbæ í kvöld og fylgjast með leiknum í sjónvarpi og halda síðan á æfingu, hvort sem þeir verða orðnir Íslandsmeistarar eður ei. gummih@mbl.is