Sambönd Dorrit Mousaieff við hlið eiginmanns síns, Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, þegar Albert prins af Mónakó var krýndur í embættið 2005.
Sambönd Dorrit Mousaieff við hlið eiginmanns síns, Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, þegar Albert prins af Mónakó var krýndur í embættið 2005. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is DORRIT Moussaieff forsetafrú hefur gegnum tengsl sín og vináttu við háttsett fólk í heimi viðskipta og listalífs greitt götu fjölmargra Íslendinga með beinum eða óbeinum hætti, ekki síst á listasviðinu.

Eftir Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

DORRIT Moussaieff forsetafrú hefur gegnum tengsl sín og vináttu við háttsett fólk í heimi viðskipta og listalífs greitt götu fjölmargra Íslendinga með beinum eða óbeinum hætti, ekki síst á listasviðinu. Meðal þeirra sem fyrir tilstilli Dorrit hafa lagt íslenskum listamönnum og hönnuðum lið eru austurríska barónessan og hertogaynjan Francesca von Thyssen von Habsburg og leikararnir Sean Connery, Michael Caine og Joanna Lumley.

Sjálf hefur Dorrit látið hafa eftir sér í fjölmiðlum, m.a. í ísraelska dagblaðinu Haaretz , að hún vilji nota sambönd sín og tengsl til að hjálpa Íslendingum, enda hafi hún ekki aðeins gifst Ólafi Ragnari, heldur allri íslensku þjóðinni.

Hún hefur þótt gestrisin og farið með fjölmarga gesti sína og þeirra Ólafs Ragnars á listsýningar eða í gallerí borgarinnar. Vitað er að hún hefur haft milligöngu um sölu á fjölda verka eftir íslenska listamenn.

Konungsfjölskyldan í Katar

Fram kom í blaðinu í gær að ein þriggja eiginkvenna emírsins í Katar, Sheikha Mozah, væri góð vinkona Dorrit en bróðir emírsins var að kaupa 5% hlut í Kaupþingi fyrir 26 milljarða króna. Talið er að tengsl Dorrit við konungsfjölskylduna í Katar hafi haft sitt að segja en fleira kom vissulega til, ekki síst vinskapur bróður emírsins og Ólafs Ólafssonar í Samskipum. Ekki er langt síðan Dorrit var í Katar í boði Sheikhu Mozah þegar fram fór ráðstefna um málefni barna með sérþarfir.

Þá kom Dorrit fyrir nokkrum árum á sambandi milli íslenskra útgerðarmanna og starfsbræðra þeirra í Marokkó, í gegnum vin sinn og háttsettan ráðgjafa konungsins í Marokkó. Þau viðskipti urðu reyndar ekki langlíf en Brim fékk tvö leyfi til sardínuveiða við strendur landsins, þó ekki sömu aðilar og reka útgerðarfélagið Brim í dag.

Kom Vesturporti á sporið

Aðstoðin frá Dorrit hefur sem fyrr segir aðallega komið íslenskum listamönnum til góða. Þegar leikhópurinn Vesturport steig sín fyrstu skref í London með sýninguna um Rómeó og Júlíu höfðu tengsl Dorrit við Sean Connery og fleiri leikara sitt að segja við að vekja athygli breskra fjölmiðla á leikhópnum. Að frumkvæði Dorrit fór Sean Connery að sjá sýninguna og í kjölfarið kviknaði sú hugmynd að fá breska leikara til að taka þátt í Rómeó og Júlíu á West End. Auk Connerys komu fram leikarar á borð við Vanessu Redgrave, Jonathan Pryce, Derek Jacobi og Joanna Lumley, sem er góð vinkona Dorrit.

Barónessa á Listahátíð

Dorrit hefur sýnt listamannamiðstöðinni Kling og Bang, Gjörningaklúbbnum og gallerínu i8 mikinn áhuga og fengið góða vinkonu sína, barónessuna og listaverkasafnarann Francescu von Habsburg til að styðja þá aðila. Hefur barónessan komið hingað til lands á Listahátíð oftar en einu sinni, fyrir tilstilli Dorrit. Von Habsburg er sömuleiðis áhugasöm um tónlist og bauð íslensku hljómsveitinni Trabant til Basel í Sviss til að halda tónleika í tengslum við listviðburð þar í borg. Þá hafa Íslendingar komið list sinni á framfæri í listamiðstöð hertogaynjunnar í Austurríki.

Engum dylst að þessi sambönd hafa reynst hérlendum listamönnum dýrmæt en von Habsburg þykir í hópi auðugustu og áhrifamestu listaverkasafnara í Evrópu.

„Sagðist eiga fullt af öðrum vinum“

Gísli Örn Garðarsson, einn forsprakka Vesturports, lýsti aðkomu Dorrit Mousaieff forsetafrúar að uppfærslu leikhópsins á Rómeó og Júlíu í Playhouse-leikhúsinu á West End í London í viðtali við Ingu Maríu Leifsdóttur í Morgunblaðinu í desember 2004 og sagði m.a.:

„Það var verið að tala um að hann [Sean Connery] gæti leikið fóstruna og svona, allt í gamni. Við fórum því að tala við Dorrit um hvort hann væri í bænum og hvort hann gæti tekið þátt í sýningunni. Það kom í ljós að hann væri það reyndar ekki einmitt núna, en hún sagðist eiga fullt af öðrum vinum og spurði hvort hún ætti að hringja í einhverja af þeim. Þá talaði hún meðal annars við Joönnu [Lumley] og í kjölfarið á því hófst þetta allt.“