Enn í baráttunni Hjörvar Steinn er með 5 vinninga af sjö þegar tvær umferðir eru eftir.
Enn í baráttunni Hjörvar Steinn er með 5 vinninga af sjö þegar tvær umferðir eru eftir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
15.-24. september 2008

HIN 13 ára gamla Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir var búin að sitja yfir taflinu í nálega 5½ klukkustund án þess að standa upp og leiknir höfðu verið 85 leikir á Evrópumeistaramóti ungmenna í Herceg Novi þegar hinn rússneski andstæðingur hennar stöðvaði klukkuna og gafst upp. Sú var með um 2000 elo-stig í upphafi mótsins en Geirþúður Anna enn ekki komin þar á blað. Það er varla annar í þessu móti en vinur hennar Friðrik Þjálfi Stefánsson sem teflir að staðaldri hið virðulega Rubinstein-afbrigði í franskri vörn og eftir allmikil uppskipti í þessari skák náði hún aðeins betra endatafli og úrvinnslan úr því var ótrúlega góð. Undir það síðasta kom upp staða þar sem skrefstuttur riddari reyndi án árangurs að fórna sér fyrir síðasta peð svarts, frelsingja á a-línunni.

Það er ekki leiðinlegt fyrir aðstandendur hópsins í Herceg Novi að verða vitni að sigri okkar ágætu unglinga yfir fulltrúm Rússlands – sterkustu skákþjóðar heims. Með þessu var Geirþrúður komin með 3½ vinning úr sex fyrstu umferðunum í flokki stúlkna 14 ára og yngri. Hinar stúlkurnar, þær Hallgerður, Jóhanna Björg og Tinna Kristín, skiluðu 2½ vinningi til viðbótar í hús í þessari umferð.

Ekki gekk eins vel í næstu umferð; Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir er sem stendur með flesta vinninga stúlknanna, fjóra vinninga af sjö í flokki 16 ára og yngri, og hefur teflt af miklu öryggi. Jóhanna Björg er með þrjá vinninga í sama flokki en Tinna Kristín er með 2½ í flokki 18 ára og yngri og Geirþrúður, sem missti af vænlegum færum í sinni skák, er með 3½ vinning. Hjörvar Steinn Grétarsson tapaði illa í 6. umferð en svaraði með tveimur sigrum í sjöttu og sjöundu umferð. Hann er nú með fimm vinninga og á enn möguleika á efsta sæti. Taflmennska hans er afar traust, ekki síst með svörtu. Aðrir piltar hafa teflt ágætlega á köflum, t.d. Daði Ómarsson og Dagur Andri Friðgeirsson, sem er að ná sér á strik eftir slæma byrjun. Þeir eru báðir með þrjá vinninga. Sverrir Þorgeirsson hefur ekki náð jafngóðum árangri nú og á Evrópumótinu í Króatíu í fyrra og á HM í Tyrklandi í árslok 2007. Þeir Friðrik Þjálfi Stefánsson og Patrekur Maron Magnússon eru að tefla í fyrsta sinn á svo sterku móti og verða reynslunni ríkari á eftir.

Í 7. umferð lagði Hjövar Steinn Eistlendinginn Holvason í einu af uppáhaldsafbrigðum sínum í kóngsindverskri vörn. Þessi sigur var Hjörvari nauðsynlegur til að halda í vonina um að ná einu af efstu sætunum í sínum aldursflokki. Skákin fylgir hér á eftir en svo virtist sem Eistlendingurinn væri ekki með leikjaröðina á hreinu í upphafi tafls, 7.... Rbd7 kemur lengi vel í veg fyrir að svartur nái að losa um sig með e6. Hjörvar var ekkert að flýta sér að ná peðinu til baka sem hann lét af hendi í 26. leik og eftir að hann tvöfaldar hrókana á e-línunni á svartur afar erfitt um vik. Eftir hinn öfluga leik 31. Be1 afræður svartur að láta skiptamun af hendi en frípeð svarts á drottningarvæng komast aldrei af stað, til þess er kóngsstaðan of veik. Undir lokin gat Hjörvar leikið 38. He7+! en valdi aðra vinningsleið:

EM 2008; 7. umferð:

Hjörvar Steinn Grétarsson – Júrí Holvason (Eistlandi)

Kóngsindversk vörn

1. c4 Rf6 2. Rc3 g6 3. e4 d6 4. d4 Bg7 5. f3 0-0 6. Rge2 c5 7. d5 Rbd7 8. Rg5 h5 9. Be2 a6 10. a4 b6 11. 0-0 h4 12. Rh1 Rh7 13. Be3 f5 14. exf5 gxf5 15. Dd2 Hf7 16. Rf2 Rf8 17. Rh3 e5 18. dxe6 Rxe6 19. f4 Bb7 20. Bh5 He7 21. Bf2 Bf6 22. Rd5 Hg7 23. Hae1 Rc7 24. Bf3 Kh8 25. Dd3 Rxd5 26. cxd5 Bxb2 27. He2 Bf6 28. Hfe1 Dd7 29. He6 Hf8 30. Hb1 Bd8

31. Be1 Dxa4 32. Bc3 Dd7 33. Bxg7+ Kxg7 34. Hbe1 Bf6 35. Kh1 Hc8 36. Dxf5 Dd8 37. Rg5 Rf8 38. Dg4 Bxg5 39. He7+

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson | helol@simnet.is