Blaine í Miðgarði Hangir líkt og leðurblaka, eða Kóngulóarmaður, í Central Park í New York.
Blaine í Miðgarði Hangir líkt og leðurblaka, eða Kóngulóarmaður, í Central Park í New York.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
DAVID Blaine, töframaður með meiru, hangir nú á hvolfi yfir skautasvelli í Central Park í New York, og stefnir að því að gera það í 60 klukkustundir.

DAVID Blaine, töframaður með meiru, hangir nú á hvolfi yfir skautasvelli í Central Park í New York, og stefnir að því að gera það í 60 klukkustundir. Honum til tæknilegrar aðstoðar eru sömu menn og sáu um hasaratriði í Spider-Man-kvikmyndunum, nánar tiltekið að láta Kóngulóarmanninn svífa um og hanga í kóngulóarvef.

Randy Beckman er einn þessara tæknimanna sem hengdu Blaine upp í fyrradag kl. 8 að morgni að staðartíma. Beckman þessi sá um nokkuð magnað áhættuatriði í Spider-man 2, að láta hetjuna falla eina 76 metra fram af byggingu í SoHo-hverfi og ku fallhraðinn hafa verið þónokkuð mikill. Það er sjálfsagt óþarfi að taka fram að áhættuleikari sá um fallið, ekki aðalleikarinn Tobey McGuire. Því má bæta við að Beckman sá um merkilegt uppátæki í kauphöllinni á Wall Street. Áhættuleikarinn Chris Daniels var látinn síga niður úr loftinu í gervi Kóngulóarmannsins og hringja bjöllunni víðfrægu, við hlið framkvæmdastjóra Sony, og kynna um leið nýjan DVD-disk með Spider-Man 2. Mun það vera í fyrsta sinn í 212 ára sögu kauphallarinnar sem maður hringir bjöllunni hangandi neðan úr loftinu.

Erfiðasta þrekraunin til þessa

En aftur að Blaine. Þessu nýjasta uppátæki hans, nefnt Dauðadýfan, á að ljúka í kvöld kl. 22.45, að staðartíma í New York, og verður sýnt beint frá því í Bandaríkjunum, á ABC-sjónvarpsstöðinni.

Blaine virðist haldinn hálfgerðri sjálfseyðingarhvöt, ef marka má fyrri afrek. Hann hefur dvalið 72 klst. innan í ísklumpi, lifað af 44 daga án matar í plexíglerkassa, dvalið í vatni í viku og verið grafinn lifandi, svo eitthvað sé nefnt. Blaine segir þó að erfiðast af öllu að hanga á hvolfi í þrjá sólarhringa. Erfitt frá byrjun, eins og gefur að skilja. Hann mun þar að auki hvorki sofa né borða .

Blaine er mikill aðdáandi töframannsins Harry Houdini sem hékk einmitt lengi vel neðan úr byggingakrönum í New York í spennitreyju sem honum tókst að losa sig úr. Blaine fer þó aðra leið, reynir á úthald sitt, einbeitingu og viljastyrk. Andlegu leiðina. Í samtali við AFP-fréttastofuna í gær sagðist hann vera að kanna áður óþekkt svæði. Hann ætlaði að ljúka verkefninu á viljastyrknum einum.

Læknar hafa að venju áhyggjur af Blaine, að uppátækið muni hafa skaðleg áhrif á líffærin og blóðrásina og ljóst að hann fær ekki líftryggingu svo auðveldlega. Blaine getur þó losað um fæturna og hreyft þá reglulega (annan í einu, eins og gefur að skilja). Að venju er uppátækinu misjafnlega tekið af borgarbúum. Sumum finnst Blaine hugaður, öðrum þykir hann athyglissjúkur.

Þrekraunir Blaine

1999 Lá í gegnsæjum plastkassa undir þriggja tonna vatnstanki í heila viku á Trump Place í N.Y.

2000 Var í 63 klst., 42 mín. og 15 sek. í ísklumpi á Times Square. Andaði í gegnum slöngu.

2002 Var í 35 klst. uppi á 22 metra hárri súlu í Bryant Park, N.Y. án nokkurs öryggisviðbúnaðar.

2003 Dvaldi í 44 daga í plexíglerboxi sem hékk neðan úr krana við Thames í London. Nærðist ekkert allan tímann, fékk aðeins 4,5 lítra af vatni á dag.

2006 Var inni í vatnsfylltri kúlu í Lincoln Center, N.Y., í sjö sólarhringa. Reyndi að slá undir lokin met í að halda niðri í sér andanum en tókst ekki.

2006 Snerist í snúði í tvo daga.

2008 Sló heimsmet í að halda niðri í sér andanum, náði 17 mínútum og 4,4 sekúndum.

2008 Dauðadýfan hefst í Central Park 22. sept. Markmiðið að hanga á hvolfi í 60 klst.

helgisnaer@mbl.is