Mugison Rokkar svo feitt að stúlkurnar fá roða í kinnar. Jesus is a Good name to Moan er kallað kynlífs-rokkklassík í bandaríska tónlistarblaðinu The Rolling Stone.
Mugison Rokkar svo feitt að stúlkurnar fá roða í kinnar. Jesus is a Good name to Moan er kallað kynlífs-rokkklassík í bandaríska tónlistarblaðinu The Rolling Stone. — 24stundir/G.Rúnar
Mugison þeysist nú um Bandaríkin að kynna nýútkomna plötu sína þar, Mugiboogie.

Mugison þeysist nú um Bandaríkin að kynna nýútkomna plötu sína þar, Mugiboogie. Einn þeirra sem drengurinn hefur náð að heilla með tónum sínum er tónlistarmaðurinn Ben Harper er hrósar íslenska rokkaranum allhressilega í stuttu viðtali við Rolling Stone Magazine.

„Ég var að fá plötu með stráksa frá Íslandi,“ segir hann í viðtali á heimasíðu Rolling Stone Magazine. „Hann samdi lag sem heitir Jesus is a Good Name to Moan og ef þú gerir ekkert annað í dag sæktu þá Mugison á netið.“

Það vekur einnig athygli að tengt viðtalinu er myndband við lagið er hefur ekki hlotið mikla athygli hérlendis. Þar sést Mugison rokka í ljósu rými ásamt allri hljómsveit sinni, inn á milli þess sem birtast skot af ungri stúlku að fullnægja sjálfri sér undir sæng. Þótt stúlkan sé fullklædd og ekkert ósiðlegt sjáist fer ekkert á milli mála að stúlkan stundar sjálfsfróun. Taktfastar handahreyfingar sjást á öxl stúlkunnar sem verður svo rjóðari og rjóðari í kinnum því lengra sem líður á lagið. Undir lok þess stynur hún orðið Jesús á meðan Mugison syngur nafn frelsarans í laginu.

Kynlífs-rokkklassík

Myndbandinu leikstýrir Janus Bragi Jakobsson með aðstoð Tinnu Ottesen. Stúlkan er gleður sjálfa sig í myndbandinu er erlend og heitir Heidi Erzhbamer.

Myndbandið hefur verið á YouTube í fimm mánuði og hafa yfir 30 þúsund manns skoðað það nú þegar. Miklar umræður hafa svo myndast á síðunni vegna lagsins, en titill þess og umfjöllunarefni textans særa blygðunarkennd strangtrúaðra kaþólikka.

Blaðamenn Rolling Stone virðast ekki vera í þeirra hópi því þeir kalla lagið kynlífs-rokkklassík.

Það er því spurning hvort tónlist Mugisons sé að komast í hóp frygðaraukandi efna, ásamt ostrum, rauðvíni og súkkulaði.

Mugison verður í Bandaríkjunum til 4. október, fær svo fjögurra daga frí áður en hann heldur aftur til Evrópu. biggi@24stundir.is