Á háborði Hjálmar W. Hannesson, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ, Angus Friday, fastafulltrúi Grenada hjá SÞ og formaður AOSIS, Geir H. Haarde forsætisráðherra, Fekitamoeloa Utoikamanu, fastafulltrúi Tonga og formaður samtaka Kyrrahafseyja, Eric Falt, yfirmaður samskiptasviðs SÞ.
Á háborði Hjálmar W. Hannesson, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ, Angus Friday, fastafulltrúi Grenada hjá SÞ og formaður AOSIS, Geir H. Haarde forsætisráðherra, Fekitamoeloa Utoikamanu, fastafulltrúi Tonga og formaður samtaka Kyrrahafseyja, Eric Falt, yfirmaður samskiptasviðs SÞ. — Morgunblaðið/Birna Anna Björnsdóttir
Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur í New York bab@mbl.is SJÓÐI til stuðnings smáum eyríkjum (SIDS: Small Island Developing States) hefur verið komið á fót af íslenskum stjórnvöldum og verða 4,5 milljónir Bandaríkjadollara lagðar í sjóðinn á næstu þremur...

Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur í New York

bab@mbl.is

SJÓÐI til stuðnings smáum eyríkjum (SIDS: Small Island Developing States) hefur verið komið á fót af íslenskum stjórnvöldum og verða 4,5 milljónir Bandaríkjadollara lagðar í sjóðinn á næstu þremur árum. Er þetta jafnvirði um 420 milljóna íslenskra króna.

Geir H. Haarde forsætisráðherra tilkynnti um stofnun sjóðsins á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í gær, en meginmarkmið sjóðsins eru fjögur: að draga úr fátækt, stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, sporna gegn skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga og vinna að jafnrétti kynjanna.

Sjóðurinn mun auka enn á þróunarsamvinnu Íslands við smá eyríki og á fundinum greindi forsætisráðherra frá því að sjóðurinn ætti rætur að rekja til Eyjaverkefnisins svokallaða (IGI: Island Growth Initiative) sem stofnað var til árið 2007 í samræmi við þá stefnu íslenskra stjórnvalda að auka þróunarsamvinnu við smá eyríki.

Mikilvægt að styrkja tengslin

Í máli sínu sagði forsætisráðherra að önnur eyríki væru eðlilegir bandamenn okkar og að mikilvægt væri að styrkja tengslin milli eyríkja. „Við höfum trú á því að önnur eyríki, sem treysta mjög á náttúru sína og auðlindir hennar og eru þar af leiðandi oft viðkvæmustu ríkin fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga, geti hagnast af reynslu okkar“, sagði Geir. „Við viljum leggja okkur fram við að skilja aðstæður og þarfir tiltekinna eyríkja og vinna saman sem jafningjar á alþjóðavettvangi,“ sagði hann jafnframt og að íslensk stjórnvöld væru þakklát fyrir þá samvinnu sem þau hefðu átt við samtök smárra eyríkja innan SÞ (AOSIS: Association of Small Island States).

Stjórnvöld einstakra eyríkja munu geta sótt um fjármagn úr sjóðnum fyrir verkefni sín og sex manna ráðgjafahópur verður stofnaður til að fara yfir umsóknir og úthluta styrkjum.