„HVER einasta sekúnda í þessum riðli mun einkennast af gríðarlegri baráttu en ég treysti þessum strákum til að taka því og berjast fyrir þjóðina,“ segir Lúkas Kostic, þjálfari U17 landsliðs Íslands í knattspyrnu.

„HVER einasta sekúnda í þessum riðli mun einkennast af gríðarlegri baráttu en ég treysti þessum strákum til að taka því og berjast fyrir þjóðina,“ segir Lúkas Kostic, þjálfari U17 landsliðs Íslands í knattspyrnu. Liðið hefur keppni í dag í undanriðli EM 2009 með leik við Sviss á Akranesvelli kl. 16, en að auki eru Noregur og Úkraína í riðlinum. Lúkas segir lið sitt eiga gríðarlega erfitt verk fyrir höndum.

„Þetta er dauðariðill. Flestir í Evrópu horfa til Svisslendinga þegar kemur að yngri flokka starfi því þar standa menn sig best. Úkraínumenn hafa átt lið tvisvar í úrslitakeppni af síðustu þremur skiptum og þar er mikið lagt í yngri landsliðin. Svo eru Norðmenn Norðurlandameistarar og með sitt besta lið síðan ég byrjaði að þjálfa U17 fyrir sex árum,“ sagði Lúkas, en miði er möguleiki.

„Ég hef trú á strákunum. Ég veit að þeir munu leggja sig alla fram í þetta eins og þeir hafa alltaf gert. Ég sé miklar framfarir frá því í Norðurlandamótinu og ég heyri að strákarnir eru öruggari og hlakka mikið til að spila í þessu móti,“ sagði Lúkas kokhraustur, og hann ætlar ekki að segja sínum mönnum að leggjast í vörn í þessum erfiðu leikjum.

„Ég ber rosalega virðingu fyrir íslensku þjóðinni og vil að við spilum góðan fótbolta. Við munum ekki spila eins og smáþjóð með alla okkar menn á vítateignum. Við förum í leikina til að sækja þegar við höfum boltann og læra að spila knattspyrnu.“ sindris@mbl.is