Spurningin um það hvort Ísland geti tekið upp evruna með tvíhliða samningum við Evrópusambandið hefur í almennum umræðum orðið aðalatriði ferðar Evrópunefndar ríkisstjórnarinnar til Brussel.

Spurningin um það hvort Ísland geti tekið upp evruna með tvíhliða samningum við Evrópusambandið hefur í almennum umræðum orðið aðalatriði ferðar Evrópunefndar ríkisstjórnarinnar til Brussel. Svörin hafa til þessa verið á þann veg, sem búast mátti við, að það sé útilokað. Afstaða framkvæmdastjórnar ESB var þekkt.

Það er rétt, sem Illugi Gunnarsson, annar formanna nefndarinnar, segir í Morgunblaðinu í dag, að þetta er spurning um pólitískan vilja. Framkvæmdastjórnin á ekki alltaf síðasta orðið í ESB, þótt henni sé öðrum þræði falin pólitísk stefnumótun. Aðildarríkin eiga lokaorðið.

Þess vegna eiga menn, úr því sem komið er, að bera spurninguna um möguleika á tvíhliða samningi um upptöku evru, upp við aðildarríki ESB. Og spyrja í fullri alvöru, annars fást engin alvörusvör. En um leið verða menn að hafa í huga það sem Morgunblaðið benti á þegar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra setti fyrst fram hugmyndir í þessa veru, að með því að spyrja ESB hvort evran fáist án aðildar, gefa íslenzk stjórnvöld í skyn að þau hafi misst trúna á eigin gjaldmiðli og peningamálastefnu. Það liggur þá bara fyrir.

Til þess að fá alvörusvör við alvöruspurningu dugir ekki að lágt settir pólitíkusar spyrji embættismenn í Brussel, allra sízt þegar annar formaður Evrópunefndarinnar spyr líklega til að fá nei.

Meira þarf til; ráðherrar ríkisstjórnarinnar þurfa að taka málið upp tvíhliða við kollega sína í ESB-ríkjunum.

Til þess eru ýmis tækifæri á næstunni. Þessa dagana eru t.d. Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra í New York á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þar eru líka leiðtogar allra ESB-ríkjanna.

Gera má ráð fyrir að ráðherrarnir hitti a.m.k. leiðtoga norrænu ESB-ríkjanna, enda veita þau nú samnorrænu framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna forystu. Ef pólitískan stuðning við tvíhliða evrusamning er ekki að finna hjá okkar norrænu vinaríkjum er ósennilegt að hann sé að finna hjá stærri aðildarríkjum.

Ef norrænu ríkin telja einhvern grundvöll til að skoða málið er hægt að ræða við stærri ESB-ríki, tvíhliða og milliliðalaust. Afstaða Spánar liggur nú þegar fyrir eftir komu spænska utanríkisráðherrans hingað á dögunum; hún er neikvæð.

Tvíhliða samningur um upptöku evru er langsóttur möguleiki og ólíklegt að hinn pólitíski vilji sé fyrir hendi. En úr því að ákveðið hefur verið að kanna þennan möguleika verður að spyrja spurningarinnar og fá svör sem fyrst.