Mörgum sem eru á leigumarkaði svíður sárast að geta ekki gert húsnæðið almennilega að sínu. Á leigumarkaði þurfa leiguliðar oft að sætta sig við lélegt viðhald enda engin sérstök samtök sem fylgjast með að íbúðir séu í góðu standi.
Mörgum sem eru á leigumarkaði svíður sárast að geta ekki gert húsnæðið almennilega að sínu. Á leigumarkaði þurfa leiguliðar oft að sætta sig við lélegt viðhald enda engin sérstök samtök sem fylgjast með að íbúðir séu í góðu standi. Hvað má þá gera ef gólfefni er verulega ljótt, eldhúsinnréttingar í lamasessi, gluggakarmar að morkna í sundur og leigusalinn yppir öxlum? Hægt er að fá parket sem má leggja ofan á gólfefni með auðveldum hætti. Þegar flutt er úr íbúðinni er gólfefnið svo tekið með. Þá má einnig finna bambusmottur sem fara vel á litlum gólffleti og geta stórar mottur gert gæfumuninn og bútar af kókosteppi sömuleiðis. Skítug og gömul eldhúsinnrétting sem engin hreinsiefni virðast bíta á eða hrikaleg innrétting frá tímum tískuslysa? Miklu má bjarga ef mögulegt er að losa hurðir af innréttingunni og opna dyrnar. Hurðirnar má svo geyma og festa upp aftur þegar húsnæðinu er skilað. Inn í skúffur má klippa vaxdúk til og leggja ofan í. Þá má kaupa viðarbretti og bakka í ofurstærð og leggja ofan á innréttinguna ef vinnusvæðið lítur illa út. Þá kemur vel út að hafa hveitigras í pottum eða kryddjurtir til að lífga upp á plássið.