Forstöðumaður Peter Dyrberg hjá Evrópuréttarstofnun HR
Forstöðumaður Peter Dyrberg hjá Evrópuréttarstofnun HR — Ljósmynd/ru.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

„LÖGGJÖF Evrópusambandsins [ESB] er nokkuð þögul um möguleika ríkja sem standa fyrir utan ESB og myntsamstarfið til að taka upp evruna,“ sagði Peter Dyrberg, danskur lögfræðingur sem starfar í Brussel og er forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, á ráðstefnu á vegum viðskiptaráðuneytisins í Þjóðmenningarhúsinu í gær.

Samningsvilji algjör forsenda

Forsenda þess að evran verði tekin upp hér á grundvelli einhvers konar samstarfs við aðildarríki Evrópusambandsins og Seðlabanka Evrópu, er að ESB og Seðlabankinn sýni einhvern vilja til slíks samstarfs, að sögn Peters.

Hann velti upp þeirri spurningu hvers vegna viðbrögðin væru svona neikvæð frá þeim sem eru við stjórnvölinn í Brussel um hugmyndir um upptöku evru hér á landi án ESB-aðildar. „Ef þeir senda neikvæð skilaboð til ykkar, þá er mjög líklegt að þeir byggi það á lögfræðilegum grunni. Því ESB er byggt upp af mjög flóknu regluverki. Þetta [upptaka evru hjá ríkjum sem standa fyrir utan samstarfið] er ekki það sem menn höfðu hugsað sér með sameiginlegri mynt og samstarfi á þessu sviði.“

Bundnir af sáttmálanum

Það fyrsta sem þyrfti að skoða væri möguleg þátttaka Íslands í Efnahags- og myntbandalaginu án aðildar að Seðlabanka Evrópu eða Evrópusambandinu. Að sögn Peters er þessi möguleiki ekki fyrir hendi, það leiði af Rómarsáttmálanum og ákvörðunum teknum á grundvelli hans og reglum sáttmálans um einsleitni. Það séu einfaldlega ekki lagalegar forsendur fyrir slíku.

Varðandi sérstakt gjaldmiðilssamkomulag við Evrópusambandið, t.d. með tvíhliða tengingu við evruna, sagði Peter að sérstaklega þyrfti að skoða 1. mgr. 111. gr. Rómarsáttmálans í þessu samhengi. Í 1. mgr. segir að Evrópuráðið megi með einróma ákvörðun eftir tilmælum frá Seðlabanka Evrópu eða framkvæmdastjórninni og eftir að hafa ráðfært sig við Evrópuþingið, ganga frá formlegum samningi um tengingu myntar utan myntsamstarfs við evruna. „Þetta er sá lagalegi grunnur sem þeir hafa. Ef við skoðum ákvæðin þá sjáum við í 1. mgr. 111. gr. að Evrópuráðið þarf að samþykkja þetta einróma, svo það er nóg að aðeins eitt aðildarríki andmæli þessu,“ sagði Peter.

Á grundvelli 3. mgr. 111. gr. hafa smáríki sem standa utan ESB tekið upp evru. Geta þau fordæmi veitt okkur einhverjar vísbendingar? Samningar hafa verið gerðir við Mónakó, San Marínó og Vatíkanið. „Þessir samningar voru gerðir með Maastricht-sáttmálanum þar sem því var lýst yfir að smáríki gætu nýtt sér evruna. Því þessi smáríki voru með myntir sem hurfu í myntsamstarfinu, eins og ítölsku líruna, þegar evran var tekin upp. Það lá því beinast við að þessi ríki tækju upp evru án aðildar,“ sagði Peter.

„Þegar skoðaður er tilgangur myntsamstarfsins og ákvæðin í heild, er ég ekki sannfærður um að það verði auðvelt fyrir Íslendinga að semja við Evrópusambandið á grundvelli 111. gr,“ sagði Peter.

Refsiúrræði gegn Íslandi?

Peter fjallaði líka um 46. grein EES-samningsins, sem var lögfestur hér á landi með aðildinni að Evrópska efnhagssvæðinu. Nefndi hann þetta m.a í tengslum við einhliða upptöku evru án samstarfs við Evrópusambandið. Í 46. gr. kemur fram að samningsaðilar skulu skiptast á skoðunum og upplýsingum um framkvæmd samningsins og áhrif samstarfsins á efnahagsstarfsemi og framkvæmd stefnu í efnahags- og peningamálum. „Greinina er ekki hægt að túlka mikið öðruvísi en eftir orðanna hljóðan. Hins vegar eru sumir lögspekingar sem telja að Evrópusambandið gæti tekið upp einhvers konar refsiúrræði gegn Íslandi, t.d. uppsögn samningsins, ef landið tæki upp evruna einhliða. Ég er þó ekki þeirrar skoðunar,“ sagði Peter.

Peter fjallaði einnig um hvort bann við einhliða upptöku evru væri á einhvern hátt brot gegn reglum EES-samnings um frjálsa för fjármagns, sem er hluti af meginreglu samningsins um fjórfrelsið. Hann sagði það nokkuð hæpið en athyglisvert álitaefni. Það væri gott verkefni fyrir fræðimenn í háskólum að leggjast yfir slíkar vangaveltur.

Evran - valkostir

1.Aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu án aðildar að Evrópusambandinu með upptöku evru. Þessi möguleiki myndi fela í sér samkomulag milli aðildarríkja Evrópusambandsins [ESB] og Íslands og myndi gera Íslandi kleift að ganga í myntbandalagið án aðildar að ESB.

Ekki fyrir hendi að mati Peters.

2.Sérstakur samningur gegnum gjaldmiðilssamkomulag við Evrópusambandið, t.d. tvíhliða tenging við evruna án upptöku hennar.

Mögulegt án ESB-aðildar en erfitt.

3.Upptaka evru með einhliða ákvörðun Íslands, með eða án stuðnings og samstarfs við ESB og Seðlabanka Evrópu.

Mögulegt en óljóst hvaða afleiðingar það hefði.

4.Hægfara evruvæðing. Evran kemur í stað krónu með auknum viðskiptum einkaaðila og almennings, þótt ríkið sýni ekki sérstaka viðleitni í þá veru.

Þegar hafið.

Í hnotskurn
» Aðildarríki ESB eru bundin af Stofnsáttmála Evrópubandalagsins [Rómarsáttmálinn e. EC-treaty] sem er grunnur þess regluverks sem ESB er reist á.
» Aðildarríkin þurftu að færa miklar fórnir til þess að taka upp evruna. „Hvernig á að útskýra einhliða upptöku evru hér fyrir íbúum í Róm eða Madríd, sem lögðu mikið á sig til að taka gjaldmiðilinn upp?“ sagði Peter Dyrberg.