Atvinnumissir Átta manns missa vinnuna þegar mjólkurbúið á Blönduósi verður lagt niður um áramót.
Atvinnumissir Átta manns missa vinnuna þegar mjólkurbúið á Blönduósi verður lagt niður um áramót. — Ljósmynd/Jón Sigurðsson
ÞETTA er skelfilegt mál og eftirsjá okkar eftir þessum rekstri er mjög mikil,“ segir Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, um lokun mjólkurbúsins á Blönduósi sem hefur í för með sér að átta manns missa vinnuna.

ÞETTA er skelfilegt mál og eftirsjá okkar eftir þessum rekstri er mjög mikil,“ segir Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, um lokun mjólkurbúsins á Blönduósi sem hefur í för með sér að átta manns missa vinnuna. „Mjólkurbúið hefur verið um tíu manna vinnustaður, sem er stórt á okkar vísu, og fyrirtækið hefur verið ein undirstaðan í atvinnulífinu hér síðan árið 1946.“

Að sögn Egils Sigurðssonar, stjórnarformanns Auðhumlu, var óhjákvæmilegt að loka mjólkubúinu vegna erfiðrar stöðu í rekstri og hefðu hagræðingarsjónarmið ráðið för. Forseti bæjarstjórnar segir að bæjarstjórnin muni óska eftir fundi með stjórnendum fyrirtækisins til að spyrja nánar út í málið. „Okkur fannst líka mjög miður að stjórnendurnir skyldu ekki hafa neitt samband við bæjarstjórnina þegar þetta var gert. Maður er ekki sáttur við að vera ekki einu sinni látinn vita þegar stór vinnustaður er lagður niður.“

Valgarður segist líka hafa áhyggjur af því að mjólkurframleiðsla í héraðinu muni minnka í framhaldinu og þjónusta við bændur versna. „Þetta er því mjög neikvætt. Á hinn bóginn hefur maður áhuga á að vita hvaða hugmyndir fulltrúar MS hafa um stöðu húsnæðisins og um það munum við ræða við þá. Jafnframt viljum við líka vita um hvers konar hagræðingu er að ræða og hverju hún á að skila.“

Egill Sigurðsson segir að í húsnæðið verði flutt sjávarbragðefnavinnsla sem Auðhumla hefur fjárfest í.