Frelsi Flugið hefur alltaf haft aðdráttarafl, þótt þar skiptist á skin og skúrir. Nú er að bætast við kennsla á nýjar flugvélar á Keflavíkurflugvelli.
Frelsi Flugið hefur alltaf haft aðdráttarafl, þótt þar skiptist á skin og skúrir. Nú er að bætast við kennsla á nýjar flugvélar á Keflavíkurflugvelli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is MIKIÐ framboð er af flugtengdu námi hér á landi. Nýr samgönguskóli hefur starfsemi og þeir sem fyrir eru bæta við sig. Samkeppni er um nám og nema.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

MIKIÐ framboð er af flugtengdu námi hér á landi. Nýr samgönguskóli hefur starfsemi og þeir sem fyrir eru bæta við sig. Samkeppni er um nám og nema. Þetta gerist á sama tíma og fréttir berast af samdrætti í atvinnugreininni og uppsögnum flugliða.

„Flugið er ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins. Það er ekki að sjá í skólakerfinu. Flugið hefur verið þar hornreka,“ segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri samgöngu- og öryggisskóla Keilis sem er að hefja sig til flugs á Keflavíkurflugvelli. Keilir setti stefnuna fljótt á flugið þegar menntastofnunin tók til starfa enda er hún með starfsemi við alþjóðaflugvöll landsins. Hugmyndin var að safna undir eina regnhlíf öllu flugtengdu námi, koma upp „flugakademíu“, og opna leiðir inn í skólakerfið.

Fyrir er nám af ýmsu tagi. Nokkrir flugskólar eru starfandi. Sá stærsti þeirra, Flugskóli Íslands, er nú hluti af Tækniskólanum, og hann hefur verið að færa út kvíarnar og náð frumkvæðinu á fleiri sviðum. Menntaskólinn í Kópavogi er með ferðamálanám og hefur starfrækt flugþjónustubraut í sjö ár. Þar eru að verða breytingar.

Samkeppni um verkefni

Skólarnir róa á sömu mið í nokkrum greinum. Þannig eru Keilir og Flugskóli Íslands báðir að hefja kennslu í flugumferðarstjórn. Keilir er kominn með flugfreyjur í nám en Menntaskólinn í Kópavogi hefur lengi verið með nám af því tagi. Nú hafa MK og Flugskóli Íslands samið við Icelandair um nýþjálfun og endurmenntun flugfreyja og flugþjóna félagsins. Keilir er kominn í samkeppni um einkaflugið við Flugskóla Íslands, Flugfélagið Geirfugl, Flugskóla Helga Jónssonar og Flugskóla Akureyrar sem verið hafa á þessum markaði. Þá hefur verið barátta á milli Flugskóla Íslands og Keilis um ýmis verkefni.

„Þetta er bara samkeppni, eins og hver önnur,“ segir Jón B. Stefánsson, skólameistari Tækniskólans og framkvæmdastjóri Flugskóla Íslands. „Það er aukin samkeppni í skólakerfinu, ekki aðeins í flugfreyju- og flugþjónanáminu, heldur í öllu kerfinu. Ég fagna allri samkeppni. Hún verður til þess að námið verður markvissara og vonandi öllum til góðs,“ segir Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK.

Samkeppnin og nýir keppendur hafa laðað fram ýmsar nýjungar í námi í þágu flugsins. Nefna má betri tengingu við skólakerfið sem er eitt af markmiðum Keilis sem undirbúið hefur námsbrautir sínar í samvinnu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja þannig að nám og starfsþjálfun nýtist nemendum til eininga. Það getur komið sér vel ef nemendur ákveða að hætta námi eða vilja síðar bæta við sig. Flugskóli Íslands býður einnig nemendum að ljúka stúdentsprófi af náttúrufræðibraut með einkaflugmannsprófi inniföldu. Nýtur hann þess að vera hluti af stórum skóla. Að loknu stúdentsprófi er svo gert ráð fyrir að nemandinn geti haldið áfram í atvinnuflugmannsnám við skólann.

Góður tími til að mennta sig

Ástandið í fluginu nú um stundir er ekki hvetjandi fyrir ungt fólk. Mest ber á fréttum af samdrætti og uppsögnum starfsfólks.

Jón B. Stefánsson hjá Flugskóla Íslands segir að flugið sé sveiflukennd atvinnugrein og hafi alltaf verið. Hann segir þó að verulegur áhugi sé á námi og störfum í greininni.

„Það vita flestir af þessum sveiflum í fluginu. Það þenst út og dregst saman. Auðvitað getur komið hik á fólk sem hefur hugsað sér nám. Ég held þó að það sé góður tími til að mennta sig á samdráttartímum og vera tilbúinn með sín réttindi þegar landið fer að rísa á ný,“ segir Hjálmar Árnason hjá Keili.

.

Tækifæri til að láta drauminn rætast

„ÞAÐ blundar lítill flugmaður í mörgum, þar á meðal mér. Mig hefur lengi langað til að læra flug,“ segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri samgöngu- og öryggisskóla Keilis, sem er að hefja einkaflugmannsnám í sínum eigin skóla. Námið hefst væntanlega í október og verður Hjálmar í fyrsta hópnum.

„Þetta hefur lengi verið draumur minn. Nú er tækifærið til að láta hann rætast,“ segir Hjálmar og bætir því við að áhuginn hafi aukist til muna í núverandi starfi.

Vildu prófa eitthvað nýtt og spennandi

„ÉG ætla að fara alla leið og fá vinnu við þetta. Kreppan mun lagast,“ sagði Guðfinna Björnsdóttir, nemi í flugfreyju- og flugþjónanámi hjá Keili á Keflavíkurflugvelli. Rætt var við þrjá nemendur í Eldey, húsnæði sem skólinn hefur aðgang að.

Margir sóttu um að komast í námið en hik kom á suma þegar fréttir fóru að berast af erfiðleikum í fluginu. Fjörutíu nemar voru teknir inn. „Daginn eftir að ég sótti um var sagt frá uppsögnum hjá flugfreyjum. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að fara í þetta. Hugsaði svo með mér að nám væri alltaf nám, það tæki enginn frá manni, og ég myndi fá vinnu þegar ástandið lagaðist,“ sagði Guðfinna.

Ásta Björk Harðardóttir var að láta gamlan draum rætast með því að fara í flugfreyjunámið. Hún hefur lært snyrtifræði og sinnt börnum sínum. „Nú skapaðist tækifærið,“ sagði hún. „Mig langaði að gera eitthvað allt annað en ég hef prófað áður,“ sagði Sunneva Guðmundsdóttir um sínar forsendur fyrir flugfreyjunámið. Hún sagðist hafa stefnt að verkfræðinámi í háskóla en ákveðið að snúa við blaðinu og prófa eitthvað nýtt og spennandi. Guðfinna talaði einnig um að hún hefði viljað prófa eitthvað nýtt. Hún hafði unnið í sjö ár á Morgunblaðinu og einnig unnið í leikhúsi og taldi kominn tíma til að breyta til.

Þeim finnst námið áhugavert og sjá fram á góðan undirbúning fyrir flugfreyjustarfið. „Það eina sem verður eftir er að sníða á okkur búningana,“ sagði Ásta. helgi@mbl.is

Ný verkefni með kaupum á flughermi

FLUGSKÓLI Íslands er stærsti flugskóli landsins og kennir flug frá grunni til atvinnuflugsréttinda. Er hann eini flugskóli landsins sem hefur réttindi til þess. Þá þjálfar hann flugmenn fyrir íslensku flugfélögin og einnig nokkuð fyrir erlend félög. Skólinn hefur nú í samvinnu við Menntaskólann í Kópavogi samið við Icelandair um nám fyrir flugfreyjur og flugþjóna félagsins.

Flugskóli Íslands er sjálfstætt hlutafélag innan Tækniskólans. Hann hefur aðstöðu í Sjómannaskólanum og á Reykjavíkurflugvelli þar sem hann rekur fimmtán kennsluvélar.

Helsta nýjungin í starfi Flugskóla Íslands og vaxtarbroddur er, að sögn Jóns B. Stefánssonar framkvæmdastjóra, nýr flughermir fyrir Boeing 757 þotur sem skólinn hefur keypt frá Kanada. Verður hann settur upp í þjálfunarhúsnæði skólans í Grafarvogi í vetur. Flughermirinn kostar hátt í milljarð.

Flughermirinn nýtist við þjálfun áhafna íslensku flugfélaganna en Jón segir að hann gefi einnig tækifæri til að ná auknum verkefnum hjá erlendum flugfélögum. Flugskólinn hefur tekið að sér slík verkefni en þjálfun í flughermi þá orðið að fara fram erlendis. helgi@mbl.is

Trompa með nýjum kennsluvélum

KENNSLA í samgöngu- og öryggisskóla Keilis hófst í haust með flugfreyju- og flugþjónanámi. Fjörutíu nemar voru valdir úr hópi 120 umsækjenda og settust á skólabekk í haust.

Nemendurnir, sem raunar eru allt konur, ljúka námi í vor, fullnuma flugfreyjur sem þá geta sótt um störf hjá flugfélögunum. „Þetta færist í sama horf og annað nám, nemendurnir ljúka námi og fá sín réttindi og fara síðan að leita sér að vinnu. Þær verða gjaldgengar á markaðnum,“ segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri hjá Keili.

Byrjað er að skrá í einkaflugmannsnám hjá Keili. Það hefst í október, þegar fyrsta vélin kemur til landsins. Keilir hefur fest kaup á fimm nýjum kennsluflugvélum og það á að vera helsta tromp þessa nýja flugskóla í samkeppninni við þá sem fyrir eru.

Jafnframt er í undirbúningi að bjóða upp á diplómanám í flugrekstrarfræðum sem Hjálmar bendir á að geti verið góður kostur fyrir starfandi flugmenn sem vilja bæta við sig námi.

Keilir er með ýmsar aðrar nýjungar. Stefnt er að því að bjóða nemendum að taka bóklega hlutann í flugnáminu í fjarnámi. Þá verður boðið upp á einhverskonar flugbúðir. Hópar geta komið á námskeið og til að fljúga og búið á meðan í gistihúsi á skólasvæðinu.

Til þessa hefur ekki verið boðið upp á nám í flugvirkjun hér á landi. Margir íslenskir flugvirkjar hafa sótt það til Kaupmannahafnar. Keilir er nú að undirbúa slíkt nám í samvinnu við ITS á Keflavíkurflugvelli sem er langstærsti vinnustaður flugvirkja. Bóklega námið mun verða á vegum Keilis og starfsþjálfunin hjá ITS. Námið hefst haustið 2009. helgi@mbl.is

Stígum meira í takt við þörfina

MENNTASKÓLINN í Kópavogi hefur í sjö ár verið með einnar annar bóklegt og verklegt nám fyrir flugfreyjur og flugþjóna. Ekki var tekið inn á brautina í haust. Hins vegar hafa MK og Flugskóli Íslands samið við Icelandair um þjálfun nýrra flugfreyja og flugþjóna og endurmenntun. Kennslan verður á vegum MK en ný þjálfunaraðstaða Flugskólans í Grafarvogi notuð.

„Þetta mun verða til að auka og efla okkar nám. Við höfum tryggan ákveðinn nemendahóp og stígum meira í takt við þörfina,“ segir Margrét Friðriksdóttir, skólameistari Menntaskólans í Kópavogi.