Siv „Galdurinn er að ganga ákveðið og yfirvegað í sjóinn,“ segir Siv og tekur mynd af ljósmyndara Morgunblaðsins.
Siv „Galdurinn er að ganga ákveðið og yfirvegað í sjóinn,“ segir Siv og tekur mynd af ljósmyndara Morgunblaðsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„SJÓSUNDIÐ er mjög gefandi og skemmtilegt auk þess sem það skerpir alla skynjun. Manni líður vel í heilan sólarhring á eftir,“ segir Siv Friðleifsdóttir alþingismaður.

„SJÓSUNDIÐ er mjög gefandi og skemmtilegt auk þess sem það skerpir alla skynjun. Manni líður vel í heilan sólarhring á eftir,“ segir Siv Friðleifsdóttir alþingismaður. Hún stundar sjósund reglulega í Nauthólsvíkinni með Par X hópnum sem hittist á mánudögum klukkan 17. Siv byrjaði að synda með Heiði Björnsdóttur, Sigurði Harðarsyni og Snorra Jónssyni og stöðugt fjölgar í hópnum.

„Sjósund er líklega eina leikfimin sem húðin fær. Húðin kólnar í sjónum og hitnar síðan í heita pottinum strax að loknu sundi. Og nú látum við okkur dreyma um að sett verði upp sauna í Nauthólsvíkinni,“ segir Siv.

„Þeir sem prófa sjósundið koma allir aftur, enda er þetta ekki eins mikið mál og margir halda. Galdurinn er að ganga ákveðið og yfirvegað út í sjóinn og telja upp að fimmtán og áður en maður veit af er maður kominn út í og þá batnar bara ástandið. Þetta er tær sæla og við stefnum að því að synda í vetur enda er að skapast mjög skemmtileg stemmning í kringum þetta.“