„Uppáhaldshluturinn minn er píanóið mitt. Það er eldgamalt og er búið að vera í fjölskyldunni í langan tíma,“ segir Margrét Eir Hjartardóttir söngkona en píanóið erfði hún eftir ömmu sína.

„Uppáhaldshluturinn minn er píanóið mitt. Það er eldgamalt og er búið að vera í fjölskyldunni í langan tíma,“ segir Margrét Eir Hjartardóttir söngkona en píanóið erfði hún eftir ömmu sína. „Það er orðið skemmtilega falskt í dag en ég hef alltaf geymt það að láta stilla það. Og nú held ég að ég geri það bara ekkert og ég er jafnvel að hugsa um að nota það á plötunni sem ég er að vinna að.“

Margrét lærði á píanóið sem barn og segist ekki geta verið án þess þótt hún spili ekki sérlega mikið á það í dag. „En stjúpdóttir mín notar það mikið og það er mjög skemmtilegt að heyra ferskar hendur spila á það,“ segir hún.

Lætur manninn um mublurnar

Margrét Eir er dugleg að safna að sér hlutum þótt hún reyni að stilla því í hóf. Aðspurð segist hún ekki alveg viss hvernig lýsa beri stíl sínum.

„Ég er ekki með neitt sérstaklega sterkan stíl þegar kemur að húsgögnum en sambýlismaður minn er með flott auga fyrir hönnun og ég læt hann bara um þetta.“

En hún nýtir tímann sem vinnst við þau verkaskipti vel því hún hefur nóg fyrir stafni.

„Ég og Róbert Þórhallsson erum að vinna að okkar eigin efni sem fer bráðum í upptökur. Svo er ég meðlimur í verkefni sem heitir Thin Jim and the Castaways og er á blússandi ferð. Við erum að fara að spila í Liverpool í mánuðinum og erum líka að vinna að nýju efni.“ hj