100 ára Steindór Jónsson man þegar börnum undir Eyjafjöllum var sagt að skoða hófa á hestunum til að forðast nykurinn óttalega.
100 ára Steindór Jónsson man þegar börnum undir Eyjafjöllum var sagt að skoða hófa á hestunum til að forðast nykurinn óttalega. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is „ÉG er orðinn vel stálpaður,“ sagði Steindór Jónsson glettnislega en hann fagnar aldarafmæli í dag. Þótt árin séu orðin mörg er Steindór heilsugóður og hefur fótaferð hvern dag.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

„ÉG er orðinn vel stálpaður,“ sagði Steindór Jónsson glettnislega en hann fagnar aldarafmæli í dag. Þótt árin séu orðin mörg er Steindór heilsugóður og hefur fótaferð hvern dag. Frásagnargáfa hans er einstök og sögur og vísur á hraðbergi, allt kryddað leiftrandi kímni.

Steindór fæddist á „gömlu Steinum“ undir Eyjafjöllum og þaðan eru fyrstu minningarnar. Bærinn var síðar fluttur og því talar Steindór um „gömlu Steina“. Þar var líflegt enda níu ábúendur á sömu stétt. Krakkarnir léku sér daga langa, ekki síst í kirkjugarðinum, og umhverfið og tilveran voru sveipuð andblæ þjóðsagna og þjóðtrúar.

„Hefur þú komið í Steinahellinn,“ spurði Steindór. Blaðamaður varð að neita því. „Þar þingaði Einar Ben. þegar hann var sýslumaður Rangæinga. Hann þótti gott yfirvald. Við bárum virðingu fyrir hellinum, því þar var huldufólk. Skammt fyrir vestan var draugur og svo var nykur í vatninu.“

Nykurinn var óvættur og börnum innrætt að skoða vel hófana á hestum áður en þau fóru á bak.

„Krakkar voru sendir til að sækja hesta og þeir voru allir ljónstyggir nema þessi eini. Þau voru komin tvö á bak þegar þriðji krakkinn leit á hófana og sá að þeir sneru öfugt,“ segir Steindór. Ef börnin hefðu ekki uppgötvað hið sanna eðli klársins er eins víst að hann hefði stungið sér með þau öll í nykurpyttinn vestan við hellisvatnið. Síðar var grafinn kross í pyttinn sem við það féll saman. „En nykurinn er náttúrlega í vatninu,“ segir Steindór.

Spurður um eftirminnilegt tímabil ævinnar nefndi Steindór sumrin sem hann vann við að leggja síma um landið. Það var á fjórða áratug síðustu aldar. Honum er minnisstætt þegar þeir lögðu símann úr Unaðsdal á Snæfjallaströnd, yfir Dalsheiði og í Grunnavík í Jökulfjörðum. Mikið blágrýti var á leiðinni og þurfti víða að sprengja fyrir staurunum.

„Ég var brúkaður fyrir smið og þurfti að skerpa borana og járnkarlana. Það var flutt smiðja þarna upp og fyrsti borinn sem ég herti – það datt framan af honum. En ég komst upp á lagið með það. Séra Jónmundur Halldórsson var þá prestur í Grunnavík, heljarmenni að burðum. Þegar bændur féllu frá í hans sveit fór hann í önnur byggðarlög, sótti þar duglega vinnumenn og gifti ekkjunum,“ sagði Steindór. En hver er leyndardómurinn við að ná háum aldri?

Steindór kveðst ekki hafa svar við því á reiðum höndum; segir kíminn að hann hafi verið „tóbakseitrað fyllisvín“ eins og ort var um ágætan mann.

„Mér var ekki spáð háum aldri,“ segir Steindór. Þegar hann var á 6. ári varð hann mjög haltur og kvalinn í vinstra fæti. Óttast var að hann væri með berkla. Héraðslæknirinn á Stórólfshvoli sendi hann til Reykjavíkur.

„Mamma fór með mig á hestvagni. Mjaðmarliðurinn var aflagaður og ég gekk við hækju í hálft ár. Var alveg eins og fljúgandi diskur á hækjunni,“ segir Steindór. „Það var settur þykkur skór á hægri löppina svo hin næði ekki niður. Eftir þennan tíma reyndist sú veika orðin of stutt, miklu styttri en hin. Þá var ég lagður inn á Stórólfshvoli og hengt lóð í löppina til að teygja á henni. Það var óttalega vont.“ Steindór hefur verið bókhneigður alla ævi og þegar hann var ungur vildu menn setja hann til mennta en ekkert varð af því. Hvers vegna ekki?

„Ég hélt að ég ætti svo stutt eftir en það hefur tognað úr þessu og nú er ég að verða hundrað ára,“ segir Steindór. „Ég held að bænirnar hennar mömmu hafi virkað eitthvað á heilsuna til batnaðar.“

Öldungurinn Steindór Jónsson

STEINDÓR Jónsson bifvélavirki er 100 ára í dag. Hann fæddist á Steinum undir Eyjafjöllum, sonur Jóns Einarssonar og Jóhönnu Magnúsdóttur. Þeim varð níu barna auðið, sjö drengja og tveggja stúlkna, og var Steindór næstyngstur í hópnum.

Þröngt var í búi á uppvaxtarárum Steindórs. Jón, faðir hans, var heilsulaus og til að létta á heimilinu fóru sumir bræðranna annað í vist. Steindór fluttist um tíu ára gamall til systur sinnar og mágs að Rimhúsum undir Eyjafjöllum. Á 12. ári fór hann aftur til móður sinnar sem þá var flutt til Vestmannaeyja. Steindór vann þar verkamannavinnu, stundaði lítillega sjómennsku og var vörubílstjóri. Á sumrin var hann í símavinnu víða um land.

Kona Steindórs var Þórunn Benediktsdóttir og eignuðust þau þrjú börn. Komust þau Grímur Marinó og Dóra til manns. Steindór og Þórunn skildu 1939 og fluttu þau bæði til Reykjavíkur. Þá fór Steindór að vinna í bíliðn og starfaði við hana fram á efri ár.