Guðmundur Óskar Júlíusson bílamálarameistari fæddist í Reykjavík 3. desember 1926. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 16. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Júlíus Magnússon, f. 12.7. 1883, d. 4.1. 1931, og Jónína Margrét Jónsdóttir, f. 17.1. 1891, d. 6.9. 1970. Þau voru vinnuhjú á Háteigi í Reykjavík. Systkini Guðmundar eru Sigurður, f. 4.12. 1917, d. 14.2. 1984, Guðrún, f. 30.4. 1920, Guðmunda Kristín Sigríður, f. 12.3. 1922, d. 7.9. 1995, Jóhanna Svanhvít, f. 19.12. 1923, Valur, f. 13.3. 1928, og Sverrir, f. 27.10. 1929.

Guðmundur kvæntist 24.2. 1953 Esther Árnadóttur, f. 2.7. 1933. Foreldrar hennar voru hjónin í Hellnafelli, Árni Sveinbjörnsson, f. 3.12. 1891, d. 11.10. 1963, og Herdís Sigurlín Gísladóttir, f. 24.2. 1899, d. 1.10. 1996. Guðmundur og Esther eignuðust fjögur börn: 1) Valdimar Karl, f. 10.5. 1953, maki Rebekka María Sigurðardóttir, f. 25.1. 1969, sonur Valdimars er Hrólfur Knakan, f. 1.11. 1978, móðir Ragnheiður Eggertsdóttir. Dóttir Valdimars og Rebekku er Ester Björg f. 23.8. 1992, dóttir Rebekku er Eyrún María Gísladóttir, f. 7.5. 1986. 2) Árdís f. 17.3. 1954, maki Einar Eggertsson Brekkan, synir þeirra eru a) Brjánn, f. 13.6. 1972, maki Charlotte Brekkan, f. 14.9. 1972, þau eiga þrjár dætur, b) Einar Friðrik, f. 30.6. 1974, maki Angelica Brekkan, f. 15.7. 1975, þau eiga tvo syni, og c) Brandur, f. 2.2. 1983, sambýliskona Karin Stenberg, f. 7.5. 1983. 3) Elín Rósa, f. 20.5. 1961, maki Jón Rafn Valdimarsson, f. 4.10. 1966, synir Elínar og fyrri eiginmanns hennar, Axels Guðbjörnssonar, eru a) Óskar Sæmann, f. 23.12. 1981, sambýliskona Valgerður Sigurðardóttir, þau eiga eina dóttur, og b) Guðbjörn, f. 2.6. 1983, sambýliskona Matthildur Fanney Jónsdóttir, f. 15.12. 1972, hún á tvö börn. 4) Elfa Hrönn, f. 17.2. 1965, maki Eyjólfur Jóhannsson, f. 26.9. 1964, börn þeirra eru Glóey Þóra, f. 14.4. 1997, og Gabríel Hrannar, f. 12.9. 1999.

Við fimm ára aldur missti Guðmundur föður sinn og ári síðar fór hann í fóstur til móðurbróður síns, Valdimars Jónssonar, f. 2.5. 1897, d. 1939, og eiginkonu hans Kórólínu Friðriksdóttur, f. 30.1. 1897, d. 6.1. 1991, að Litlu-Hólum í Mýrdal. Hann gekk í barnaskólann í Litla-Hvammi. Þegar Guðmundur er 13 ára missir hann fósturföður sinn og rekur upp frá því búið á Litlu-Hólum ásamt fósturmóður sinni. Tvítugur flytur Guðmundur til Reykjavíkur og fer fljótlega upp frá því að vinna í Bílasmiðjunni, þar sem hann lærði bílamálun og varð hann einn þeirra fyrstu sem öðluðust meistararéttindi í þeirri grein á Íslandi. Síðustu tuttugu og fjögur starfsár sín vann Guðmundur hjá Blikki og stáli. Guðmundur var alla tíð mikill hestamaður, dýravinur og náttúruunnandi.

Útför Guðmundar fer fram frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Pabbi tók 13 ára við búrekstri á Litlu Hólum í Mýrdal eftir lát Valdimars Jónssonar móðurbróður síns. Hann var strax mikill fjármaður og sagði mér mjög stoltur að féð hjá honum hafi verið talið vel alið. Pabbi mundi tímana tvenna frá búskaparárunum, það fann ég vel, því að þegar hann kom í hesthúsið til mín fór hann alltaf í hlöðuna og athugaði heybirgðirnar. Pabbi var mjög vinnusamur, hann byggði sjálfur húsið sitt Holtagerði 52 í Kópavogi. Og það var gert eftir fullan vinnudag í bílasmiðjunni á kvöldin og um helgar. Pabbi hafði mikinn áhuga á hestum, vildi hafa hestana mikið viljuga. Þeir voru fjórir bræðurnir, Sigurður, pabbi, Valur og Sverrir. Og allir voru þeir saman í hestamennskunni. Á sumrin voru þeir með hestana í Miðey í Austurlandeyjum. Í Landeyjarnar var farið um helgar á sumrin og riðið út. Þá var sá best ríðandi sem komst hraðast á flottu tölti og þar varst þú flottastur á Háreki þínum. Gaman var þegar riðið var á bæi. Til Markúsar söðlasmiðs í Borgareyrum, kaupa hnakka og beisli. Magnúsar á Lágafelli, kaupa fola. Óla í Viðhjálegu að kaupa fola. Grétars í Miðey, kaupa fola og semja um landið sem við vorum með hestana á. Konna á Búðarhóli, kaupa fola. Í þessum heimsóknum var mikið fjör, kveðskapur og mikið sungið, talað um hrossarækt. Það var alvöru pólitík, það var hrossapólitík. Ég, pabbi og bræður hans áttum allir hesta frá þessum stórbændum. Árvisst var að ríða á Hellumót, tjaldað var á Hellu og mikið gaman. Síðan var riðið í Landeyjarnar á sunnudagskveldi og fram í nóttina og var þá mikið fjör. Menn reyndu hesta sína á skeiði og tölti og þar hafðir þú vinninginn á Háreki þínum. Eftirminnileg er líka förin í Pétursey í Mýrdal, þú varst stoltur pabbi þegar við komum austur yfir Skógarsand og birta tók af degi og sýndir mér sveitina þína. Þessi sumur í Landeyjunum voru ævintýri sem þú, pabbi minn, bjóst til og er ég þér afar þakklátur fyrir. Sigurður Júlíusson bróðir þinn er tilbúinn að taka á móti þér, búinn að beisla hestana. Þið ríðið saman sígrænar grundir og kannski smá lögg á pela. Valdimar Auðunsson verður með og er með nikkuna. Ég, pabbi minn, ætla að halda ævintýrinu áfram en kem svo.

Þinn elskandi sonur.

Elsku mamma, pabbi varð þessi maður því þú stóðst við hlið hans alla tíð. Góð kona gerir mann að manni. Elsku mamma, megi ljósið vera með þér.

Valdimar Karl Guðmundsson.

Elsku tengdapabbi og afi.

Hin langa þraut er liðin,

nú loksins hlauztu friðinn,

og allt er orðið rótt,

nú sæll er sigur unninn,

og sólin björt upp runnin

á bak við dimma dauðans nótt.

Fyrst sigur sá er fenginn,

fyrst sorgar þraut er gengin,

hvað getur grætt oss þá?

Oss þykir þungt að skilja,

en það er Guðs að vilja,

og gott er allt, sem Guði er frá.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Elsku tengdamamma og amma, Guð veri með þér. Ástarkveðja,

Rebekka og Eyrún.

Ég hitti Guðmund Júlíusson einn síðvetrardag 1971. Ég var 19 ára og hafði hitt skemmtilega stelpu, sem var elsta dóttir Gumma. Mér var boðið í sunnudagssteik í Holtagerði. Að hitta foreldra stúlku sem maður er að skjótast í held ég að flestum strákum finnist erfitt. Núna 37 árum síðar veit ég að þetta er ekkert auðvelt fyrir foreldrana heldur. Ég veit ekki hvernig Gumma og Ester hefur litist á strák, nýstúdent, sem talaði brenglaða íslensku og var íhlaupakennari í skólanum hennar Árdísar. Ef þeim hjónum hefði ekki litist vel á fyrirbærið, þá leyndu þau því. Ester og Gummi tóku þessum skrýtna manni opnum örmum. Ester var að hræra í pottunum en við Gummi settumst inn í stofu. Hann er þá 45 ára, alveg hvíthærður og kannski svolítið þreytulegur. Það var skiljanlegt að Gummi var þreytulegur og jafnvel ellilegur. Ég skil það betur nú en þá, að heil kynslóð Íslendinga var þreytuleg og vinnulúin á þessum árum. Ég hef búið erlendis alla ævi og oft furðað mig á fáfræði umheimsins um Ísland. Eitt er það þó sem umheimurinn veit; Íslendingar vinna mikið og sækja ekki sjaldan tvo vinnustaði daglega. Þau hjónin komu upp fjórum börnum og á sama tíma byggðu þau húsið í Holtagerði, með eigin höndum og fyrir eigið fé. Ungu hjónin og börnin unnu að húsbyggingunni öll kvöld og um helgar í mörg ár. Hér var ekki spurning um húsbréf eða bankalán. Sú verðmætasköpun sem varð til á Íslandi á þessum árum voru einföld vöruskipti: blóð, sviti og tár voru látin í skiptum fyrir fasteignir í einkaeign. Þessi kynslóð byggði grunninn sem íslensk velferð byggir á í dag. Ég vona að Ester og Gummi hafi ekki verið of þreytt fyrsta kvöldið í nýja húsinu til að skilja hvílíkan sigur þau höfðu unnið og hvílíkt þrekvirki var að baki. Ég held að álagið á þessum árum og óheilnæmur aðbúnaður við bílalökkun hafi verið orsökin til þess að Gummi eltist snemma.

Tengdafaðir minn var vinnusamur, harðduglegur og tryggur. Hann var tryggur fjölskyldu, vinum og ekki síst atvinnuveitendum. Eftir að Gummi kom til Reykjavíkur hafði hann tvo atvinnuveitendur og báðir hefðu sjálfsagt kosið að hafa hann áfram í þjónustu sinni. Ekki veit ég hvað Gummi hugsaði þennan síðvetrardag fyrir 37 árum, honum þótti eflaust miður að ég væri ekki hestamaður! Þær stundir sem urðu afgangs í lífi tengdaföður míns helgaði hann hestamennsku. Stundum vissi ég ekki hvort fjölskyldan eða hestarnir voru í forgangi, kannski skipti það engu máli því í hans huga voru hestarnir hluti af fjölskyldunni. Guðmundur var sannur hestamaður. Aðbúnaður hestanna var honum hjartansmál eins og barnanna. Eftir einhver ár í Holtagerði byggði Guðmundur sér bílskúr með gryfju. Þar gat hann dedúað við Moskvitchinn sinn og seinna aðra bíla. Ég er enginn bílaviðgerðarmaður en það var samt siður, að þegar ég kom í Holtagerði þá fórum við Gummi saman út í bílskúrinn. Þar var alltaf til flaska í brúnum poka. Þar sátum við þangað til steikin var tilbúin.

Það er frá þessum stundum sem ég veit að Guðmundur var búinn að sætta sig við þenna skrýtna tengdason sem hann eignaðist.

Nú fær hann Gummi hvíldina og við hin varðveitum minninguna um þennan hægláta, kurteisa og duglega mann, sem Guðmundur Júlíusson var.

Einar Brekkan.

Afi minn, þegar ég hugsa aftur í tímann þá eru helstu minningar mínar um þig frá því að ég var lítil hnáta. Ég man að þegar amma þurfti að kaupa í matinn og garn til að prjóna varstu alltaf tilbúinn til að keyra henni og hjálpa, því hún hafði ekki bílpróf.

Og ég man hve duglegur þú varst eitt sumarið þegar ég var í pössun hjá ykkur. Þá vöknuðum við amma og útbjuggum morgunmat. Amma hafði alltaf tilbúna súrmjólk, lyfin þín, rettupakka og dagblaðið áður en þú komst fram úr.

Eftir góðan morgunverð fórstu út að vinna, því þetta sumar varstu að gera við bílskúrinn, taka til í honum og mála þakið. Ég lék mér í garðinum bakvið hús og kom alltaf til þín af og til og spurði hvort ég gæti ekki hjálpað til og ég fékk að færa til hluti og fylgjast með. Þegar ég hugsa til þín minnist ég þess að þú varst mjög ákveðinn en hljóður maður.

Þegar ég var lítil fannst mér þú svolítið dularfullur, sérstaklega þegar þú sast hljóður og hugsi í svarta hægindastólnum í stofunni. Ég velti því oft fyrir mér hvað væri á bakvið þennan hljóða mann. Í flest þau skipti sem ég man eftir þér spenntum og í samræðum við einhvern þá var það við hann pabba og voru öll þau samtöl um hesta og hestamennsku. Og er ég viss um að það sem færði honum afa mestu ánægjuna var morgunverður frá henni ömmu og hestamennskan.

Ástarkveðja,

Ester Björg.