Björgvin Guðmundsson
Björgvin Guðmundsson
Björgvin Guðmundsson skrifar um samstarf í borgarstjórn: "Svo virðist sem siðferði í stjórnmálum Reykjavíkur hafi hrakað."

ÞEGAR Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi rauf samkomulag um meirihlutasamstarf í borgarstjórn undir forustu Dags B. Eggertssonar sveik hann gerða samninga. Hann sveik meirihlutasamstarfið vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn bauð honum stól borgarstjóra. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn samdi við Óskar Bergsson, borgarfulltrúa Framsóknar, um nýtt meirihlutasamstarf og sparkaði Ólafi F. Magnússyni áður en því tímabili var lokið, sem hann átti að vera borgarstjóri, fór Sjálfstæðisflokkurinn eins að. Flokkurinn sveik gerða samninga við Ólaf þrátt fyrir heitstrengingar um að samningar yrðu haldnir. Hvað er hér að gerast í íslenskum stjórnmálum? Er það orðið sjálfsagt að rjúfa gerða samninga? Er ekki lengur unnt að treysta gerðum samningum milli stjórnmálamanna í borgarstjórn Reykjavíkur? Svo virðist ekki vera. Hér hefur mikil breyting orðið á frá því sem áður var.

Ég átti sæti í borgarstjórn Reykjavíkur á tímabilinu 1970-1982 og sem varamaður 1962-1970. Á þessu tímabili sátu margir traustir menn í borgarstjórn. Það var unnt að treysta samkomulagi sem gert var við þá og munnlegir samningar voru jafngildir skriflegum. Ég nefni sem dæmi um trausta og áreiðanlega forustumenn í borgarstjórn á þessu tímabili: Geir Hallgrímsson, Birgi Ísleif Gunnarsson, Ólaf B. Thors, Magnús L. Sveinsson, Guðmund Vigfússon, Sigurjón Pétursson, Öddu Báru Sigfúsdóttur, Kristján Benediktsson og Guðmund G. Þórarinsson. Ég fullyrði að það hefði ekki hvarflað að neinum þessara manna að rjúfa gerða samninga eins og Ólafur F. Magnússon og Hanna Birna hafa gert. Við forustumenn minnihlutaflokkanna í borgarstjórn, þ.e. fulltrúar Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks, gerðum samkomulag með okkur meðan við vorum í minnihluta um málefni. Það samkomulag stóð í mörg ár og lagði grundvöll að meirihlutasamstarfi okkar flokka 1978, þegar Sjálfstæðisflokkurinn missti meirihlutann. Það bar aldrei neinn skugga á samstarf þremenninganna sem stýrðu í meirihlutanum. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn hefði boðið einhverjum okkar gull og græna skóga eins og Ólafi F. var boðið hefði það ekkert þýtt. Við hefðum hlegið að slíku tilboði svo fráleitt hefði það þótt. Á þessum tíma héldu samningar og það þýddi ekkert að reyna að reka fleyg í samstarf sem byggðist á gerðum samningum og trausti milli manna.

Ég átti ekki aðeins mjög gott samstarf við Sigurjón heitinn Pétursson og Kristján Benediktsson heldur einnig við marga af fyrrnefndum forustumönnum Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og hafði mjög góða reynslu af samskiptum og samkomulagi við þá. Það var alltaf unnt að treysta þeim. Svo virðist sem siðferði í stjórnmálum Reykjavíkur hafi hrakað. Það er áhyggjuefni að stjórnmálin í borgarstjórn skuli hafa fallið niður á mjög lágt plan. Sjálfstæðisflokkurinn var áður kjölfesta í borgarstjórn. Þó að menn væru ekki sammála stefnu flokksins var unnt að treysta samningum við flokkinn. Og Sjálfstæðisflokkurinn gat státað af því að hafa aldrei rofið samstarf í borgarstjórn. En eftir að flokkurinn rauf meirihlutasamstarfið við Ólaf F. Magnússon hefur þar orðið breyting á. Flokkurinn getur því allt eins leikið sama leikinn við Óskar Bergsson. Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn er ekki að treysta lengur. Forustumenn flokksins taka flokkshagsmuni og skoðanakannanir fram yfir hag borgarbúa. Á rúmum tveimur árum sem liðin eru af kjörtímabilinu hafa setið 4 borgarstjórar og 4 meirihlutar. Fyrst sat Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í embætti borgarstjóra. Hann myndaði meirihluta með Framsókn strax eftir kosningar 2006. Viðræður voru þá hafnar við Ólaf F. Magnússon en Sjálfstæðisflokkurinn sveik hann í miðjum samningaviðræðum. Næst myndaði Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, meirihluta og settist í stól borgarstjóra. Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknar, hætti samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og gekk til samstarfs við „vinstri flokkana“. Þetta samstarf var kallað Tjarnarkvartettinn, þar eð skýrt var frá því á bökkum Tjarnarinnar. Það samstarf stóð aðeins í 100 daga eða þar til Ólafur F. Magnússon hljópst undan merkjum og gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn sem bauð honum borgarstjórastólinn. Hefur Ólafur nú upplýst, að strax og Tjarnarkvartettinn komst til valda hafi Sjálfstæðisflokkurinn byrjað að senda honum gylliboð en hann var þá veikur heima. Ólafur F. Magnússon gaf sig að lokum. Lék Sjálfstæðisflokkurinn hér ljótan leik. Og aftur lék flokkurinn mjög ljótan leik þegar Ólafi var sparkað eftir að búið var að nota hann. Var þá fjórði meirihlutinn myndaður, þ.e. meirihluti íhalds og Framsóknar á ný og Hanna Birna, oddviti Sjálfstæðisflokks, settist í stól borgarstjóra. Er talið að sá meirihluti hafi verið myndaður af formönnum flokkanna, Geir H. Haarde og Guðna Ágústssyni. Forusta Sjálfstæðisflokksins hafði orðið áhyggjur af slæmu gengi flokksins í Reykjavík og taldi að það gæti skaðað flokkinn á landsvísu. Þess vegna skarst Geir í leikinn. – En valdabröltið hefur ekki aukið fylgið.

Höfundur er viðskiptafræðingur.