[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hækkandi matvælaverði fylgir aukin eftirspurn eftir slátri, lítið unnum kjötvörum og vörum sem hægt er að kaupa í talsverðu magni og geyma í frystikistu. Meiri áhugi virðist vera á sláturgerð en undanfarin ár.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Íslenskir neytendur virðast taka lítið unnar kjötvörur fram yfir unnar vörur samhliða hækkandi matvælaverði og spara sér þar með þann kostnað sem leggst á við vinnsluna.

„Við finnum fyrir því að búðir og keðjur eru að leita að ódýrari lausnum fyrir fólk, minna unnum vörum og vörum sem er hagstæðara að kaupa í magninnkaupum eins og til dæmis súpukjöt og heila og hálfa skrokka,“ segir Gréta Björg Blængsdóttir, sölu- og markaðsstjóri hjá SS. Hún bætir við að fólk kjósi frekar að vinna sjálft úr hráefninu.

„Þetta er náttúrlega hagkvæmara. Ég tala nú ekki um ef maður getur keypt nokkurt magn af kjöti og sett það ofan í frystikistu, fremur en að maður sé alltaf að kaupa tilbúnar lausnir sem kosta heilan helling. Hver króna er orðin svo ofboðslega dýr,“ segir hún.

Meiri áhugi á slátri

Slátur berst í matvöruverslanir þessa dagana og kann hækkandi matvælaverð og almenn dýrtíð að hafa áhrif á eftirspurn eftir því. Hermann Árnason, stöðvarstjóri SS á Selfossi, finnur að minnsta kosti þegar fyrir auknum áhuga.

„Við erum að byrja á þessu en miðað við fyrirspurnir til sölumanna og okkar hér er þetta meiri áhugi en hefur verið mörg undanfarin ár,“ segir Hermann sem hefur skýringar á reiðum höndum. „Ég held að fólk viti að þetta er einhver alódýrasti matur sem það getur fundið,“ bætir hann við.

Velur ódýrari mat

Ingvar Gíslason, markaðsstjóri Norðlenska, hefur svipaða sögu að segja og Hermann. „Við finnum fyrir auknum áhuga á sláturgerð. Það merkjum við á þeim fyrirspurnum sem við fáum um hvenær sláturmarkaðirnir okkar verði opnaðir, hvar sé hægt að nálgast slátur, vambir og fleira,“ segir Ingvar og bætir við að árið í fyrra hafi verið mjög gott í slátursölu og betra en árin á undan. „Það þykir góður og skemmtilegur siður að taka slátur burtséð frá því hvernig samfélagið er að þróast. Það kemur tvennt til. Annars vegar er fólk að halda við hefðunum og hins vegar að búa sér til ódýrari mat,“ segir Ingvar Gíslason að lokum.
Í hnotskurn
Slátur er innmatur, blóð og svið en var áður notað yfir allt kjötmeti af sláturdýrum. Sumir íslenskir matreiðslumenn hafa í auknum mæli nýtt sér slátrið sem hráefni í aðra rétti á undanförnum árum. Hönnunarnemar í Listaháskóla Íslands kynntu fyrr á árinu sérstaka sláturtertu.