Ásdís Hjálmsdóttir
Ásdís Hjálmsdóttir
„ÁSDÍS hefur það fínt og æfir af miklum krafti eftir að hafa fengið stutta hvíld eftir að heim var komið frá Ólympíuleikunum,“ segir Stefán Jóhannsson, þjálfari Ásdísar Hjálmsdóttur, Íslandsmeistara í spjótkasti, spurður hver staðan væri hjá...

„ÁSDÍS hefur það fínt og æfir af miklum krafti eftir að hafa fengið stutta hvíld eftir að heim var komið frá Ólympíuleikunum,“ segir Stefán Jóhannsson, þjálfari Ásdísar Hjálmsdóttur, Íslandsmeistara í spjótkasti, spurður hver staðan væri hjá henni um þessar mundir. Eins og mörgum er í fersku minni settu slæm meiðsli í hægri olnboga strik í reikning Ásdísar í spjótkastkeppni Ólympíuleikanna í síðasta mánuði.. Fyrir vikið var hún fjarri sínu besta.

Stefán segir að þau séu bjartsýn á að hún komist hjá aðgerð með því að styrkja olnbogann með styrktaræfingum. En verði ekki komist hjá aðgerð verði sú leið auðvitað valin.

„Ásdís æfir vel að vanda og vinnur í því að styrkja olnbogann. Þegar kemur fram í nóvember er áætlunin sú hjá okkur að hún kasti spjóti og láti þannig reyna á olnbogann. Takist þessar ráðstafanir okkar ekki þá kemur til greina að hún fari í myndatöku í Svíþjóð en slík myndataka er ekki á boðstólum hér á landi. Það er að vísu mjög dýrt dæmi en það verður að eiga sig ef til þess kemur,“ segir Stefán.

Mikill áhugi er fyrir frjálsíþróttum um þessar mundir að sögn Stefáns og bættust mörg ný andlit í æfingahópinn hjá honum þegar æfingar hófust á ný fyrir skömmu. iben@mbl.is