Kynning Vefsíðan logosafn.is var opnuð nýverið en þar verður öllum helstu vörumerkjum landsins safnað saman. Bryndís Óskarsdóttir, safnstjóri logosafnsins, segir að síðan muni gagnast mörgum en hún var opnuð hinn 28.08.08 klukkan átta.

Kynning

Vefsíðan logosafn.is var opnuð nýverið en þar verður öllum helstu vörumerkjum landsins safnað saman. Bryndís Óskarsdóttir, safnstjóri logosafnsins, segir að síðan muni gagnast mörgum en hún var opnuð hinn 28.08.08 klukkan átta. „Fólk borgar fyrir að skrá vörumerki á síðuna og svo geta allir sótt vörumerkin í hinum ýmsu útgáfum því það er mjög mismunandi í hvernig útgáfu merkin þurfa að vera, hvort þau eiga að birtast í sjónvarpi, blöðum eða öðru. Það má segja að síðan sé gagnvirk, um leið og sótt er vörumerki þarf að fylla út nafn, netfang og hvað verður gert við merkið. Eigandi merkisins fær þá tilkynningu um hvað verður gert við það,“ segir Bryndís og bætir við að með tíð og tíma komi vonandi upplýsingar um hönnuði merkjanna og jafnvel sögu þeirra. „Síðan mun gagnast ótrúlega mörgum en helst prent- og útgáfuiðnaðinum. Auk þess mun síðan gagnast öllum fyrirtækjum með vörumerki því þarna verður auðvelt að nálgast þau og í réttum útgáfum. Þetta er því bæði tíma- og peningasparnaður fyrir fyrirtæki því þau þurfa ekki að finna merkin til að senda til ýmissa aðila.“

svanhvit@24stundir.is