Hrafnhildur Lilja Georgsdóttir
Hrafnhildur Lilja Georgsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is ÍSLENSK kona fannst látin á vinnustað sínum í Dóminíska lýðveldinu á sunnudag og er málið rannsakað sem sakamál hjá staðarlögreglu.

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

ÍSLENSK kona fannst látin á vinnustað sínum í Dóminíska lýðveldinu á sunnudag og er málið rannsakað sem sakamál hjá staðarlögreglu. Fram kemur í Listín Diario, stærsta dagblaði Dóminíska lýðveldisins, að lögregla hafi yfirheyrt þrjá starfsmenn gistiheimilisins.

Hin látna hét Hrafnhildur Lilja Georgsdóttir, fædd 28. mars árið 1979 og var ógift og barnlaus.

Hún var á ferðalagi um heiminn og fór frá Íslandi í byrjun apríl til Ástralíu og þaðan til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Óman en hafði starfað í Dóminíska lýðveldinu síðan í júlí. Samkvæmt heimildum mbl.is var ekki búið að staðfesta með hvaða hætti Hrafnhildur Lilja lést. Hún mun hafa stýrt litlu gistiheimili, sem ber nafnið Extreme og er í smábænum Cabarete á norðurströnd Dóminíska lýðveldisins.

Haft er eftir Rafael Guillermo Guzmán Fermín, lögreglustjóra í Listín Diario, að of snemmt sé að gefa upp smáatriði varðandi rannsóknina sem sé á frumstigi en skurðir og áverkar hafi verið á hinni látnu.

Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra fylgist með framgangi málsins hjá yfirvöldum í Dóminíska lýðveldinu og nýtur athugun málsins forgangs hjá alþjóðadeildinni, en ekki var unnt að veita frekari upplýsingar í gærkvöldi.

Engir gestir eru á gistiheimilinu og var það einungis rekið sem bar. Cabarete er þekktur staður meðal þeirra sem stunda sjóbretti með flugdreka.

Dóminíska lýðveldið

Dóminíska lýðveldið er ríki á austurhluta Hispaníólu í Vestur-Indíum í Karíbahafi. Landið er 48 þúsund ferkílómetrar að stærð og heitir höfuðborgin Santo Domingo. Opinbert tungumál er spænska og helstu útflutningsgreinar eru hrásykur, málmar og kaffi. Helstu viðskiptalönd landsins eru Bandaríkin, Venesúela og Mexíkó.

Kjör eru bág í landinu og erlendar skuldir miklar en ferðaþjónusta hefur farið vaxandi.