Einar Hólmgeirsson
Einar Hólmgeirsson
„ÉG er miklu betri og æfði verkjalaus í gær í fyrsta sinn í margar vikur,“ sagði handknattleiksmaðurinn Einar Hólmgeirsson í gær spurður um hvernig honum gengi að jafna sig á hásinarmeiðslum sem plagað hafa hann síðustu vikur.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Eftir að hafa gengist vikum saman undir árangurslausa meðferð hjá læknateymi Grosswallstadt gekk forseti félagsins í málið. Þá fóru hjólin loks að snúast. Forsetinn sendi Einar til sérfræðings í Heidelberg þar sem hann var í sprautumeðferð í nokkra daga áður en hann kom hingað til lands í síðustu viku. Hér var Einar í fimm daga stífri meðferð hjá Elís Þór Rafnssyni, eins og hann hafði áður óskað eftir og lýst yfir vilja til m.a. í samtali við Morgunblaðið.

„Sprautumeðferðin gerði mér gott og ég lagaðist mikið í hásininni við hana. Síðan náði Elli restinni úr mér í síðustu viku þannig að ég er núna miklu betri. Nú lítur allt vel út hjá mér en ég verð að fara rólega af stað. En það var mikill munur að vera alveg verkjalaus á æfingu,“ sagði Einar sem vonast til að vera í liði Grosswallstadt sem mætir Hamborg um helgina í þýsku 1. deildinni. „Það eru einhverjir fúlir hérna úti yfir því að ég fór heim í meðferð til Ella en það verður að hafa það og sennilega jafna menn sig af því með tíð og tíma.

Meiðslasaga Einars hefur fengið menn til þess að endurskoða allt starf læknateymis Grosswallstadt. „Ég er að bíða eftir að fara inn á fund með lækni félagsins, forseta og fleirum þar sem farið verður yfir málið. En það er ljóst að sjúkrasaga mín hefur orðið til þess að menn eru farnir að skoða allt starf læknateymis liðsins upp á nýtt.“