Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur staðið sig með eindæmum vel. Frammistaða þess hefur verið svo góð að þegar liðið nær 18. sæti á heimslista og 11. sæti í Evrópu telst það vart til tíðinda.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur staðið sig með eindæmum vel. Frammistaða þess hefur verið svo góð að þegar liðið nær 18. sæti á heimslista og 11. sæti í Evrópu telst það vart til tíðinda. Ef karlarnir næðu þessum árangri yrði sennilega haldinn útifundur á Arnarhóli, en þeir eru nú í 107. sæti af 207 og hafa hrapað um 37 sæti síðan í ágúst 2007.

Um helgina á kvennalandsliðið þess kost að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Slíkir draumar hafa oft vaknað um karlalandsliðið, en þeir hafa oftar verið byggðir á óskhyggju en raunsæi. Landsliðið mætir á laugardag Frökkum og verður við ramman reip að draga. Sigurinn gegn Frökkum hér heima var ekki auðveldur. En liðið á engu að síður raunhæfa möguleika og dugir reyndar jafntefli. Víkverji dáist að frammistöðu kvennalandsliðsins. Það á meiri stuðning skilinn.

Áhrif samdráttar á neyslu í Bandaríkjunum eru farin að koma fram. Almenningur fær ekki lán til að fjármagna neysluna og óttinn grípur um sig. Til marks um ástandið er að greiðslukortafyrirtækið American Express hefur skert úttektarheimildir helmings viðskiptavina sinna. Ef neysla heldur áfram að dragast saman í Bandaríkjunum hefur það áhrif um allan heim. Japanskir raftækjaframleiðendur, þýskir bílasmiðir og kínverskir fataframleiðendur finna allir fyrir því þegar Bandaríkjamenn loka veskinu. Neysla er tveir þriðju af umfangi bandarísks efnahagslífs og skertur aðgangur að fé getur breytt lífsstíl almennings svo um munar. Neysla á Íslandi hefur ekki áhrif á gang efnahagshjólanna í heiminum, en það sem gerist vestan hafs hefur líka áhrif hér.