Elín Þorsteinsdóttir fæddist í Vík í Mýrdal 28. ágúst 1926. Hún lést 15. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurveig Guðbrandsdóttir frá Loftsölum, f. 13. apríl 1898, d. 4. mars 1988, og Þorsteinn Friðriksson frá Litlu-Hólum, skólastjóri í Vík, f. 13. september 1888, d. 1. júlí 1933. Elín ólst upp á heimili foreldra sinna á Grund í Vík í Mýrdal og gekk þar í barna- og unglingaskóla. Hún missti föður sinn ung að árum en Sigurveig móðir hennar giftist síðar Valdimar Jónssyni skólastjóra í Vík. Systur Elínar eru Margrét Þorsteinsdóttir, f. 1921, d. 2006, Halla Valdimarsdóttir, f. 1936, og Sigrún Valdimarsdóttir, f. 1936, d. 2001.

Elín giftist árið 1958 Sæmundi Nikulássyni rafvirkjameistara, f. 21. desember 1927. Foreldrar hans voru Ragna Stefánsdóttir, f. 1889, d. 1974, og Nikulás Friðriksson rafvirkjameistari, f. 1890, d. 1949. Elín og Sæmundur bjuggu alla tíð á Hringbraut 26 í Reykjavík. Börn þeirra eru: 1) Margrét Þóra kennari, f. 21. janúar 1959, d. 20. febrúar 2004. Fyrrverandi maki Finnbogi Oddur Karlsson. Börn þeirra eru Sæmundur Karl, Daníel Björn og Júlía Nicole. 2) Ragnheiður H. íþróttakennari, f. 5. janúar 1961. Fyrrverandi maki er Frans Ploder. Börn þeirra eru Margrét Unnur, Haukur, Pétur Þór og Ólafur Örn. Maki Ragnheiðar er Sóley Einarsdóttir. 3) Þorsteinn jarðfræðingur, f. 2. október 1963, maki Berglind Ásgeirsdóttir. Börn þeirra eru Elín María, Sandra Dögg og Trausti Rafn.

Leið Elínar lá til Reykjavíkur þar sem hún stundaði nám í Samvinnuskólanum og árið 1948 fór hún á húsmæðraskóla til Danmerkur. Hún vann um tíma við verslunarstörf, m.a. í versluninni Nora Magasin sem var kunn verslun á sínum tíma, en lengst af á skrifstofu Alþýðuflokksins í Reykjavík og síðast á skrifstofu Verkakvennafélagsins Framsóknar.

Útför Elínar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Að hafa átt jafn góða móður og tengdamóður eins og okkur hefur hlotnast er þakkarvert. Hún Ella eins og Elín var alltaf kölluð var einstök kona og glæsileg í alla staði. Góðvild hennar og blíða voru einkennandi í hennar fari. Hún gaf sér ávallt tíma til spjalls og var umhugað um fjölskyldu sína. Það var ávallt gott að leita ráða hjá henni og naut hún þess að geta miðlað af reynslu sinni.

Móðir mín var mjög tengd systrum sínum. Einstakt samband var á milli þeirra systra, Margrétar sem bjó lengstan hluta ævi sinnar í Bandaríkjunum og Höllu og Sigrúnar. Það má segja að þær hafi verið eins og ein stór fjölskylda. Ættarferðirnar, jólaboðin og saumaklúbbar. Þetta var eins og ævintýri líkast að alast upp í slíku umhverfi. Að skynja þá virðingu og umhyggju sem þær systur báru hver fyrir annarri hefur kennt mér mikið.

Þegar kona mín kom inn í líf mitt árið 1983 tók móðir mín á móti henni líkt og sínu eigin barni, enda varð kært á milli þeirra.

Heimili foreldra minna á Hringbrautinni varð helsti samkomustaður okkar systkina og fjölskyldna okkar. Þar hittumst við iðulega og var oft glatt á hjalla. Með árunum fjölgaði barnabörnunum. Oft var mikið fjör enda barnabörnin öll mjög náin og sóttust eftir að fá að vera hjá afa og ömmu. Áhugi og yndi móður minnar á íslenskri náttúru var mikið og kunni hún hvergi betur við sig en í tjaldútilegu með fjölskyldu og vinum. Þessu áhugamáli deildi hún með föður mínum og nutu þau sín hvergi betur. Þetta fengum við börnin og fjölskyldur okkar að upplifa með þeim, sem er okkur afar dýrmætt.

Ferðaþráin var mikil. Fjölmargar góðar minningar um utanlandsferðir okkar sitja í huganum, bæði sem unglingur og nú á síðari árum þegar við fjölskyldan og systur mínar fórum með móður okkar til að heimsækja Margréti systur hennar til Bandaríkjanna, sem þá var orðin mjög fullorðin. Það voru dýrmætar ferðir. Ferðaþrá og dugnaði móður minnar er kannski best lýst þegar hún 76 ára gömul fór með dætrum sínum á skíði í ítölsku Alpana. Þegar við hjónin bjuggum erlendis við nám komu foreldrar mínir í heimsókn til okkar. Það voru góðir tímar. Við ferðuðumst víða um Svíþjóð og áttum yndislegar stundir. Fórum yfir til Kaupmannahafnar, en þar leið móður minni vel enda hafði hún verið í húsmæðraskóla í Danmörku sem ung kona.

Sem tengdadóttur tengjast minningar mínar því hve ung Ella var alltaf í anda, að vera með henni fannst mér alltaf sem ég væri með jafnaldra mínum. Hún var heimskona og þannig vildi hún vera. Hún hafði þægilega nærveru og lét mér líða vel. Það sem einnig einkenndi hana var hve vel hún talaði um annað fólk og tók hún iðulega upp hanskann fyrir þann sem um var talað ef því var að skipta. Í veikindum sínum á seinni árum sýndi það sig að hún bjó yfir innri visku og styrk, jafnvel þegar hún virtist ekkert hafa eftir að gefa, þá gaf hún af sér til annarra á sinn hljóðláta hátt. Hún hélt sinni mannlegu gæsku og reisn alveg til loka. Með þessum orðum kveðjum við einstaka konu.

Blessuð sé minning þín og hvíl í friði.

Þorsteinn og Berglind.

mbl.is/minningar

Hún Ella amma mín og alnafna var stórglæsileg kona.

Á þessari kveðjustund horfi ég til baka og fyllist gleði, gleði yfir stórfenglegu lífi ömmu minnar. Amma mín var kona sem að mínu mati lifði lífinu og finnst mér líf hennar hafa einkennst af gleði og ævintýrum.

Hringbrautin, heimili ömmu og afa, var höllin okkar barnabarnanna, það var ekkert skemmtilegra en að fá að fara í heimsókn til þeirra og hvað þá að fá að gista.

Höllin þeirra var full af fjársjóðum földum í skúffum og skápum. Amma fór oft til Bandaríkjanna, bæði að heimsækja systur sína og dóttur, og átti hún því alltaf eitthvert spennandi útlenskt nammi og dót falið í skápunum sínum, eða eitthvert gott ilmvatn sem ég gat spreyjað á mig. Fataskápurinn hennar var einnig fullur af nýmóðins kjólum, kápum og skóm, allt eitthvað sem við frænkurnar horfðum aðdáunaraugum á og létum okkur dreyma um.

Matarboðin á Hringbraut voru æðisleg, þar stóð afi í eldhúsinu og eldaði dýrindis mat eins og honum er einum lagið og amma sá um að halda okkur kompaníi með flott hvítvínsglas í hendi. Þó að matarboðin hafi verið æðisleg voru þau nú oft ansi skrautleg þar sem við erum stór fjölskylda. En það er nú bara það sem einkennir okkur Hringbrautarfjölskylduna; kaos en fjör.

Amma veiktist hægt og rólega en þrátt fyrir það var hún alltaf sama gamla góða amma. Þó að hún gæti ekki talað þá brosti hún alltaf til mín og ég fann að hún var til staðar, bara á allt annan hátt. Þó að söknuður ríki eru minningarnar um hið góða líf ömmu fullar af gleði.

Takk fyrir allt, elsku amma, megir þú hvíla í friði.

Elín María.

Elsku amma, ótal minningar flæddu í gegnum huga minn þegar ég fékk símtal síðastliðinn mánudag um að þú værir farin. Ég vissi ekki alveg hvernig mér átti að líða, missirinn er gífurlegur en ég vil halda að þér líði betur þar sem þú ert í dag. Ég mun sakna þeirra stunda sem við eyddum á endalausum ferðalögum um landið og allra samverustundanna og matarboðanna á Hringbrautinni.

Sama hvað gekk á, þú brostir alltaf uppörvandi brosi til okkar krakkanna, tilbúin að hjálpa okkur og styðja þegar við þurftum á því að halda. Nú hefur þú kvatt okkur en þú munt ávallt lifa með okkur í hug og hjarta.

Sæmundur, Daníel og Júlía.

Við vorum fjórar systurnar, Ella og Magga af fyrra hjónabandi móður okkar og við tvíburasysturnar Halla og Sigrún af því seinna. Eldri systurnar, sem voru 14 og 10 ára þegar við fæddumst, tóku vel á móti litlu systrum sínum og létu sér annt um okkur alla tíð. Við ólumst upp í Vík og þegar eldri systurnar uxu úr grasi hleyptu þær heimdraganum og héldu til Reykjavíkur til náms og starfa. Þær komu þó alltaf austur á hátíðum og í fríum. Við Sigrún vorum ákaflega stoltar af stóru systrum okkar og hlökkuðum mikið til að fá þær heim. Magga fór til Bandaríkjanna um tvítugt og bjó þar til æviloka en kom heim eins oft og auðið var og þá var sannarlega hátíð í bæ.

Þegar við tvíburarnir fluttum til Reykjavíkur reyndist Ella okkur afar vel. Hún hafði ríka ábyrgðartilfinningu og stundum þótti okkur nóg um þegar hún var að leggja okkur lífsreglurnar. Seinna kunnum við vel að meta það og vorum henni þakklátar. Það var gott að leita til hennar með vandamál sín og hún reyndist alltaf ráðholl. Þegar hún giftist Sæma reistu þau bú á Hringbrautinni sem var bernskuheimili Sæma. Þar var mikill rausnargarður og gestkvæmt. Ella var ákaflega myndarleg húsmóðir, allt lék í höndunum á henni og hún var góður kokkur, jafnvel hafragrauturinn smakkaðist betur hjá Ellu en öðrum. Á Hringbrautinni voru alltaf fínustu boðin og laxaveislurnar hans Sæma rómaðar.

Þegar börnin voru lítil var Ella heimavinnandi og þá vörðum við miklum tíma saman enda með börn á svipuðum aldri. Okkur datt þá ýmislegt í hug. Eitt sumarið þráðum við að komast af mölinni og leigðum eyðibýli í Mýrdalnum og dvöldum þar með krakkana um tíma. Þetta varð minnisstæð dvöl og uppspretta skemmtilegra frásagna. Ella og Sæmi kunnu vel að njóta lífsins, ferðuðust mikið og voru mikið útivistarfólk. Á veturna var farið á skíði og á sumrin í útilegur um fjöll og firnindi. Aldrei leið Ellu betur en þegar hún var í tjaldinu sínu uppi í óbyggðum.

Ella var vönduð manneskja til orðs og æðis, hjálpsemi og góðvild voru ríkur þáttur í fari hennar og aldrei heyrði ég hana tala illa um nokkurn mann. Hún var vinsæl og vinmörg. Hún var í skemmtilegum saumaklúbb sem fór saman í útilegur og ferðalög og í briddsklúbb með vinkonum sínum. Fyrr á árum vann hún á skrifstofu Alþýðuflokksins og síðast á skrifstofunni hjá verkakvennafélaginu Framsókn. Það er óhætt að segja að hún hafi verið jafnaðarstefnunni trú alla tíð.

Ella fór ekki varhluta af erfiðleikum og sorgum fremur en aðrir. Margrét eldri dóttir hennar fórst í bílslysi fyrir nokkrum árum og lét eftir sig þrjú börn, hún var öllum harmdauði. Nokkru áður var farið að bera á heilsubresti hjá Ellu sem jókst stöðugt og loks gat hún ekki verið heima lengur. Síðustu tvö ár hefur hún dvalið á Grund þar sem hún naut góðrar aðhlynningar. Og nú eru þær allar farnar, systurnar mínar, en minningarnar lifa.

Þegar ég kveð Ellu systur mína er mér efst í huga innilegt þakklæti fyrir allt sem hún var mér og mínum og kærleika og umhyggju sem aldrei brást.

Veri hún kært kvödd.

Halla systir.

Elín mágkona mín var smávaxin og fíngerð kona, fríð sýnum og spengileg. Hún hafði til að bera þessi skaftfellsku lundareinkenni prúðmennsku, lítillæti og hógværð í ríkum mæli. Halldór Laxness segir einhvers staðar: Skaftfellingar eru sannkurteisustu menn á Íslandi ef ekki í öllum heiminum. Þannig var Elín, alltaf kurteis og prúð, aldrei með þrætur eða þras og þó fór aldrei á milli mála hvað hún vildi og hún hafði oft sitt fram með hægð og lipurð.

Þegar ég kynntist Elínu og Sæmundi fyrir nærri hálfri öld var heimili þeirra á Hringbrautinni staður þar sem aðrir í stórfjölskyldunni söfnuðust saman. Ella og Sæmi, en þau voru einhvern veginn alltaf nefnd í sömu andránni, voru alltaf að bjóða heim til sín, oft fjölda manns. Þar var mikið sungið og skemmt sér og veitingarnar ekki af lakara taginu. Þau voru alveg einstaklega gestrisin og eins og það væri alveg sama hvernig stóð á fyrir þeim. Þau létu fátt aftra sér frá því að láta það eftir sér að njóta lífsins og halda reisn sinni og risnu. Og alltaf voru þau boðin og búin að hjálpa öðrum.

Þau voru mikið fjallafólk og ferðalangar og Sæmi var mikill kunnáttumaður um leiðir og áningarstaði þegar fjölskyldan ferðaðist innanlands. Ella fór að kvarta yfir því komin yfir miðjan aldur að hún hefði ekkert úthald lengur í fjallgöngum og skíðaferðum. Við læknisskoðun kom í ljós að hún hafði meðfæddan hjartagalla sem ekki var hægt að lækna nema með opinni skurðaðgerð. En hún var aldeilis ekki á því að gefast upp. Hún dreif sig með Sigrúnu systur sinni út til London og gekkst undir aðgerðina. Það þurfti áreiðanlega kjark til þess þó að hún að áðurnefndum skaftfellskum sið talaði eins og hún vantreysti sér á allan máta. Hún náði sér að fullu og gat haldið áfram að njóta lífsins eins og hún hafði gert.

Ég þakka Ellu langa og góða samfylgd.

Sæma, Ragnheiði, Þorsteini og öllum barnabörnunum votta ég samúð mína.

Björn Dagbjartsson.

Ella og fjölskyldan á Hringbraut 28 hafa ávallt verið okkur mjög tengd og hafa vegir okkar alla tíð legið saman.

Það byrjaði með áramótaboðunum þar sem Ella, Sæmi og krakkarnir komu í Aratúnið til Eddu og Bergsteins. Fyrst vorum þau bara 5 en þegar fram liðu stundir fjölgaði ört í Hringbrautarfjölskyldunni og áður en varði voru þau orðin 17 en samt var alltaf nóg pláss fyrir alla, mikil stemming og gleði ríkjandi.

En það var ekki nóg að halda uppá áramótin með þessari frábæru fjölskyldu, við eyddum öllum sumrum uppá fjöllum í útilegum með Ellu, Sæma og fjölskyldu.

Ella hélt vel utan um hópinn sinn og var sínum börnum frábær móðir og síðar öllum barnabörnunum frábær amma. Hún var svo hlý og góð manneskja sem frábært var að fá að kynnast og eiga allar þessar góðu stundir með.

Ella var mikil útivistarmanneskja, fór mikið í göngur og síðan fór hún að stunda skíði. Þá kom ekki annað til greina en að þessar 2 fjölskyldur færu saman á skíði.

Fyrsta ferðin okkar saman var til Crans Montana og hún var ógleymanleg. Ella var ókrýnd skíðadrottning ferðarinnar enda máttu hún og Edda ekki vera að því að stoppa til að borða, svo uppteknar voru þær af því að vera í brekkunum.

Við fórum í margar skíðaferðir eftir þessa ferð, til Sviss, Austurríkis og Ella var komin á áttræðisaldur þegar hún fór í sína síðustu skíðaferð til Ítalíu með Röggu, Möggu og Eddu.

Ella hefur verið frábær vinkona í gegnum árin og betri manneskju hittir maður ekki á lífsleiðinni. Við erum þakklátar fyrir að hafa kynnst Ellu og fengið að njóta samvista við hana og eftir sitja minningar um frábærar samverustundir um áratuga skeið.

Elsku Sæmi, Ragga, Steini, Begga og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra á þessari stundu, ykkar

Edda, Helga Marín,

Sigrún Rósa og Birgir.

Ég man alltaf þegar ég kom í fyrsta sinn heim til Steina vinar míns. Hann hafði tekið mig tali fyrir utan heimili mitt og upp úr því fórum við heim til hans. Fyrir 40 árum var ég staddur í holinu hjá honum og til mín talaði þýðri röddu falleg kona og bauð mig velkominn. Okkar fyrstu kynni þar sem ég fimm ára drengur var staddur þarna í ókunnu húsi eru greypt í huga minn. Það er sól og hlýja í okkar fyrstu kynnum sem hafa enst fram á þennan dag. Ég átti síðan eftir að verða þarna heimagangur og þótti stundum einhverjum nóg um.

Elín með sinni fallegu röddu og elegans bauð mig alltaf velkominn. Hlýja hennar gerði að verkum að mér leið þarna eins og blóma í eggi. Nú er þessi glæsilega kona farin frá okkur en þó ekki. Því þetta augnablik fyrir 40 árum er enn ljóslifandi og Elín mun fylgja mér á leiðarenda. Efst í huga mér er þakklæti fyrir að hafa kynnst henni. Glæsileiki og umhyggja þessarar konu mun lifa með okkur. Ég vil fyrir hönd okkar í Tjarnargötu 47 senda Sæmundi og fjölskyldu samúðarkveðjur okkar allra.

Ingólfur Björnsson (Ingi).

Vinkona mín Elín Þorsteinsdóttir er látin. Andlát hennar kom ekki á óvart þar sem Ella, eins og hún var ætíð kölluð, hafði átt við veikindi að stríða um nokkurn tíma. Samt koma slíkar fréttir alltaf á óvart.

Vinátta okkar Ellu hófst fyrir meira en hálfri öld og hefur haldist óslitin síðan. Ella var traustur vinur og alltaf reiðubúin að greiða götu og rétta hjálparhönd þeim sem þurftu á að halda.

Þær eru margar minningarnar sem hrannast upp að leiðarlokum. Í áratugi vorum við Ella í saumaklúbb þar sem fyrstu áratugina var unnið af kappi en síðar var samveran orðin aðalatriðið. Ferðalög með klúbbnum hvort heldur innanlands eða utan og þorrablótin, þar sem makarnir fengu að vera með, eru allt ógleymanlegar ánægjustundir sem aldrei bar skugga á.

Ella hafði ánægju af að spila og vorum við í spilaklúbb ásamt tveimur vinkonum í áratugi. Spilamennskan var þó ekki alltaf í fyrirrúmi heldur fyrst og fremst ánægjan af að hittast og gleðjast saman. Frá þeim stundum eru ómetanlegar minningar. Fyrir allt þetta vil ég þakka.

Það er sárt að sjá á eftir góðum vini en söknuðurinn er þó mestur hjá þeim sem næst henni stóðu, eiginmanni og afkomendum, sem hafa misst mikið. Við Þorbjörn vottum þeim öllum innilega samúð.

Sigurrós.