Ragnarök Íslenskt landslag nýtur sín greinilega vel í myndinni.
Ragnarök Íslenskt landslag nýtur sín greinilega vel í myndinni.
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

„VIÐ höfum mikinn áhuga á norr-ænni goðafræði, og sumar hetjurnar ykkar á Íslandi eru svo líkar hetjunum okkar, til dæmis Niflungunum,“ segir austurríska kvikmyndagerðarkonan Gabriela Kafka, en kvikmynd hennar, Ragnarök – Myths and Sagas of the North , verður frumsýnd hér á landi á föstudaginn. Um er að ræða dramatíska heimildarmynd, að sögn leikstjórans.

„Ég las allar Íslendingasögurnar og fékk í kjölfarið mikinn áhuga á að búa til kvikmynd upp úr þeim,“ segir Kafka, en á meðal þeirra sagna sem komið er inn á í myndinni er Njálssaga, Hrafnkelssaga og Egils saga.

Sýnd um allt land

Stór hluti myndarinnar er leikinn, og fengu um 100 Íslendingar hlutverk í myndinni sem var tekin víða um land. Kafka segir að í ljósi þess hafi hún ákveðið að sýna myndina um allt land og verður hún sýnd á Hvolsvelli á laugardaginn, í Borgarnesi á sunnudaginn, í Búðardal þriðjudaginn 30. september, í Stykkishólmi 1. október, á Þingeyri hinn þriðja og loks á Egilsstöðum 5. október. Frumsýning myndarinnar verður hins vegar núna á föstudaginn, á Fjörukránni í Hafnarfirði.

Til stóð að myndin yrði sýnd á RIFF – alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, en myndin mun ekki hafa staðist kröfur hátíðarinnar.

Í kjölfarið á sýningu myndarinnar hér á landi verður hún svo sýnd í Austurríki, Þýskalandi, á Englandi og í Kanada. „Við viljum hins vegar byrja á Íslandi, enda er þetta ykkar saga. Þannig að ég vona að sem flestir komi og sjái myndina,“ segir leikstjórinn, en þess má að lokum geta að þeir sem mæta í víkingafötum á frumsýninguna fá ókeypis aðgang, aðrir greiða 1.000 krónur.

Allar nánari upplýsingar um myndina má finna á heimasíðunni www.wokafilm.at.