Gefist vel Guðmundur Fylkisson og Sveinn Guðni Guðnason eru aðalvarðstjórar hjá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra. Þeir vilja óbreytt ástand. Ekki eigi að hrófla við því sem hafi gefist vel.
Gefist vel Guðmundur Fylkisson og Sveinn Guðni Guðnason eru aðalvarðstjórar hjá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra. Þeir vilja óbreytt ástand. Ekki eigi að hrófla við því sem hafi gefist vel. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jón Pétur Jónsson jonpetur@mbl.

Eftir Jón Pétur Jónsson

jonpetur@mbl.is

STARFSMENN Fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra (FMR) óttast að þjónusta miðstöðvarinnar, og gæði hennar, muni skerðast verði starfsemin færð undir embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, líkt og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hefur lagt til. Þeir vilja að núverandi kerfi fái að halda sér. Ekki sé verið að róta í því sem hafi gefist vel.

„Við erum að þjónusta lögreglu á landsvísu, alla lögregluna á jafnræðisgrundvelli. Lögregla höfuðborgarsvæðisins á ekki að fá betri þjónustu hjá okkur heldur en lögreglan á Sauðárkróki,“ segir Sveinn Guðni Guðnason, aðalvarðstjóri hjá FMR. Hann segist óttast að þetta geti orðið erfitt verði miðstöðin færð undir stjórn eins lögreglustjóra á ákveðnu svæði. Undir þetta tekur Guðmundur Fylkisson, sem einnig starfar sem aðalvarðstjóri hjá FMR.

Stefán Eiríksson sagði í samtali við Morgunblaðið á sunnudag að með endurskipulagningu mætti fjölga lögreglumönnum á götum höfuðborgarsvæðisins um tugi og lagði hann til að sérsveit lögreglunnar og fjarskiptamiðstöðin yrðu færðar undir sitt embætti.

Óvissan vond

Sveinn segir að sú óvissustaða sem sé komin upp valdi mönnum áhyggjum. „Þetta er mjög óþægileg staða að vera í fyrir marga. Ég tala nú ekki um elstu starfsmennina okkar. Hvað verður um okkur núna?“ spyr Sveinn.

Að sögn Guðmundar og Sveins sinnir FMR margvíslegum verkefnum á degi hverjum. Þeir segja að hún stýri í raun almennum verkefnum lögreglunnar, sendi t.d. lögreglumenn þangað sem þeirra sé þörf – enda hafi fjarskiptamiðstöðin góða yfirsýn yfir hvar lögreglumenn eru hverju sinni.

„Við erum mennirnir sem erum að tala 24 tíma á sólarhring við fólk,“ segir Guðmundur. Hann bætir því við að starfsmennirnir, sem eru allir lögreglumenn, séu vel þjálfaðir til að sinna öllum þeim verkefnum sem þeir þurfi að taka sér fyrir hendur.

„Þetta virkar vel og við erum að spara í akstri og útköllum alveg feikilegt fé fyrir ríkið,“ segir Guðmundur, en tekur fram að sparnaðurinn í krónum talið hafi ekki verið tekinn saman.

„Við erum sjálfir að afgreiða mál í símanum, með kannski einu aukasímtali, í staðinn fyrir það að verið sé að senda tvo fíleflda lögreglumenn á einhvern stað,“ segir Guðmundur og bætir við að í þessu felist mikil hagræðing.

Aukin hætta á mistökum

Guðmundur telur að meðalaldur starfsmanna fjarskiptamiðstöðvarinnar sé sá hæsti innan deilda lögreglunnar. Þar starfi menn með mikla reynslu. Af þeim sökum kosti mannskapurinn sitt. „Innan lögreglunnar erum við dýr eining af því að við erum með hátt í 20 ára meðalstarfsaldur,“ segir Guðmundur. Hann segir að vissulega sé hægt að færa starfsmenn FMR í önnur verkefni, en á móti komi að það kosti sitt að láta óvant fólk fara að sinna störfum fjarskiptamiðstöðvarinnar. Hættan á að mistök verði gerð muni aukast á kostnað öryggis borgaranna. Vissulega geri starfsmenn fjarskiptamiðstöðvarinnar mistök, sem þeir reyni að læra af, en „ef þú setur inn ungt, óreynt fólk þá verða mistök,“ segir Guðmundur og bætir við að sú hætta sé fyrir hendi að sömu mistök verði endurtekin ef um óvana einstaklinga sé að ræða.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri tók í svipaðan streng varðandi hugmyndir um breytingar á fyrirkomulagi fjarskiptamiðstöðvarinnar í Morgunblaðinu á sunnudag. „Ef breyta á þessu fyrirkomulagi þurfa rökin að vera þau að öryggi borgaranna stóreflist. Ég hef ekki séð slík rök þó að ég hafi heyrt óskir um að starfsemi færist til einstakra lögreglustjóra.“

Guðmundur ítrekar að núverandi kerfi virki vel í dag og kallar eftir rökum af hverju eigi að breyta því.

S&S

Hvað er Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra?

Ríkislögreglustjóri starfrækir fjarskiptamiðstöð til þess að taka við öllum símtölum til lögreglu sem berast Neyðarlínu og afgreiðir þau til úrlausnar.

Auk þess annast miðstöðin stjórnun útkallshópa lögreglu og fyrstu viðbrögð við aðgerðastjórnun.

Fjarskiptamiðstöðin var stofnuð í júní árið 2000 og er í Skógarhlíð 14 í Reykjavík.

Starfssvæði fjarskiptamiðstöðvarinnar nær til alls landsins.

Hversu margir starfa

á fjarskiptamiðstöðinni?

Alls starfa 19 lögreglumenn hjá fjarskiptamiðstöðinni. Sextán þeirra ganga vaktir en unnið er allan sólarhringinn og þrír eru í dagvinnu.

Fimm félagar hafa sagt sig úr Lögreglufélagi Reykjavíkur

Formaður félagsins kveðst hissa á viðbrögðum manna

Eftir Jón Pétur Jónsson

jonpetur@mbl.is

„ÉG ER alveg gáttaður á þessu,“ segir Óskar Sigurpálsson, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur (LR), er hann var spurður hvað honum þætti um að menn hefðu sagt sig úr félaginu vegna ummæla sem hann lét falla í fréttum Sjónvarps sl. sunnudag. Hann segir menn hafa farið offari og bendir á að allt tal um endurskoðun á lögregluembættunum sé aðeins á umræðustigi.

Alls hafa fimm sagt sig úr félaginu og líkt og fram hefur komið er Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra og yfirmaður sérsveitar embættisins, á meðal þeirra sem eru hættir. „Því er beint persónulega til mín, vegna orða minna, að þeir vilja ekki vera í þessu félagi lengur,“ segir Óskar.

Lýsir yfir vantrausti

Jóni blöskruðu ummæli Óskars, sem sagði í samtali við Sjónvarpið að ríkislögreglustjóraembættið hefði að mörgu leyti verið tilraun sem hefði misheppnast. Spurður út í ummælin segir Óskar að spurning fréttamannsins hafi verið á þá leið hvort um misheppnaða tilraun væri að ræða. „Það er nú kannski ekki beint hægt að orða það þannig að þetta hafi misheppnast. Ég vil bara segja að það eru þarna þættir sem má endurskoða. Það er mín skoðun.“

Jón sendi Óskari harðort bréf, sem var stílað á alla lögreglumenn, þar sem hann lýsir yfir vantrausti á hendur Óskari og skorar um leið á hann að biðjast opinberlega afsökunar á ummælunum. Þá segir jafnframt: „Að formaður félagsins komi fram með þessum hætti og efni til illdeilna innan lögreglunnar og blandi sér í hagsmunapot einstakra lögreglustjóra sem skaðar hluta félagsmanna er með öllu óafsakanlegt enda engin umræða farið fram í stjórn eða á félagslegum vettvangi innan félagsins,“ skrifar Jón.

Sammála Stefáni Eiríkssyni

„Mér finnst þetta orðið allt of langt gengið,“ segir Óskar og bætir við að hann hafi ekki verið með neinn áróður gagnvart starfsemi sérsveitarinnar. „Ég tók undir orð Stefáns [Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins] hvað það varðaði að fá stjórn sérsveitarinnar til höfuðborgarsvæðisins ásamt fjarskiptamiðstöð. Ég er bara sjálfur þeirrar skoðunar,“ segir Óskar og bætir við að hann hafi ekki verið að tala út frá fundarsamþykkt lögreglufélagsins.

Á mánudagskvöld var haldinn stjórnarfundur hjá Lögreglufélagi Reykjavíkur vegna óánægju sumra félagsmanna með ummæli Óskars. Þar var samþykkt yfirlýsing þar sem segir að ummæli Óskars endurspegli ekki afstöðu stjórnarinnar, heldur séu þau aðeins persónuleg skoðun hans.

Í hnotskurn
»Um 280 manns eru í Lögreglufélagi Reykjavíkur. Félagssvæðin eru embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóra og Lögregluskóla ríkisins. »Óskar Sigurpálsson hefur verið formaður í fjögur ár. Ný stjórn verður kosin á næsta ári.