[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég missti af Næturvaktinni á sínum tíma vegna þess að ég hef ekki áskrift að Stöð 2. Keypti þættina síðan á DVD og skemmti mér ákaflega vel heila helgi yfir þeim.
Ég missti af Næturvaktinni á sínum tíma vegna þess að ég hef ekki áskrift að Stöð 2. Keypti þættina síðan á DVD og skemmti mér ákaflega vel heila helgi yfir þeim. Satt best að segja komu þeir mér skemmtilega á óvart – þessar týpur hentuðu vel mínum húmor. Þess vegna klæjaði mig í fingurna að kaupa áskrift nú þegar framhaldsserían fór í loftið á sunnudag. Það er þó satt að segja ekki margt á Stöð 2 sem mér finnst réttlæta 6.000 krónu áskrift á mánuði, sérstaklega þar sem ég er með Breiðbandið og ligg helst yfir matreiðslu- og ferðaþáttum á útlendum stöðvum. Ákvað því að bíða með að horfa á þættina þar til þeir koma á DVD. Mér til furðu reyndist fyrsti þátturinn í óruglaðri dagskrá, sennilega til að freista fólks eins og mín til að kaupa áskrift. Þeir sviku heldur ekki félagarnir Georg Bjarnfreðarson og Ólafur Ragnar frekar en fyrri daginn. Þátturinn var bráðfyndinn frá upphafi til enda. Jón Gnarr er einstaklega fær í persónusköpun, hvort sem hann leikur í þáttum, eins og þessum, eða í auglýsingum. Hann er að slá alla leikara út með snilld sinni í túlkun á „nördum samfélagsins“ sem vissulega hafa orðið á vegi manns í gegnum lífið. Hlakka til að sjá fleiri þætti hvort sem það verður fyrr eða síðar.