— Morgunblaðið/Frikki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STRÁKARNIR draga ekki af sér þar sem þeir geysast eftir stígnum í Fossvogsdalnum. Pollarnir skipta þá ekki máli né heldur hvorum megin á stígnum þeir hlaupa.

STRÁKARNIR draga ekki af sér þar sem þeir geysast eftir stígnum í Fossvogsdalnum. Pollarnir skipta þá ekki máli né heldur hvorum megin á stígnum þeir hlaupa. Merkingin um aðskilnað hjólandi og gangandi vegfarenda virðist aukaatriði enda engin umferð hjólreiðafólks þegar myndin var tekin. Því síður velta þeir fyrir sér útliti karlsins sem prýðir göngustíginn en eitthvað virðist hann framandi og ekkert sérstaklega sprækur til göngu. Hugsanlega er hann ættaður frá Austur-Berlín þaðan sem svokallað Ampelmann-tákn er ættað og rekja má tæplega hálfa öld til baka. Á heimasíðu Umferðarstofu er meðal annars að finna myndir af boðmerkjum eins og aðgreiningu gang- og hjólreiðastíga. Á því merki leiðir fullorðin manneskja lítið barn en karlinn með hattkúfinn er víðs fjarri. Umferðarmerki breytast í áranna rás og geta verið mismunandi eftir löndum. Sums staðar vísa konur veginn nú orðið á umferðarljósum en ekki fyrir ýkja löngu voru karlarnir einráðir í þessum efnum. aij@mbl.is