Jón F. Bjartmarz
Jón F. Bjartmarz
Jón F. Bjartmarz skrifar um stofnun og störf sérsveitar lögreglunnar: "Skipulag sérsveitar er með svipuðum hætti og annars staðar á Norðurlöndum. Hún færðist undir stjórn ríkislögreglustjóra 1999 og rekin sem stoðdeild frá 2004"

Í Morgunblaðinu sunnudaginn 10. september sl. birtist umfjöllun um mismunandi skoðanir innan lögreglunnar á frekari endurskipulagningu hennar. Í umfjölluninni koma fram misvísandi upplýsingar og rangar staðhæfingar. Í Svíþjóð, Danmörku og Íslandi eru sérsveitirnar staðsettar hjá ríkislögreglustjóraembættum. Í Noregi og Finnlandi eru þær staðsettar hjá höfuðborgarlögreglunni dags daglega. Þau rök lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að starfsemi eins og sérsveit og fjarskiptamiðstöð hafi verið færð til ríkislögreglustjóra á sínum tíma vegna smæðar lögregluliðanna en geti nú færst til lögregluliðanna vegna þess hve þau séu orðin stærri og fjölmennari er beinlínis röng. Sérsveitin var færð undir stjórn ríkislögreglustjóra 1999 að tillögu þáverandi lögreglustjóra í Reykjavík eða með öðrum orðum frá langstærsta lögregluliðinu til mun fámennara embættis ríkislögreglustjóra. Frá sama tíma var tekin upp sú skipan að ríkislögreglustjóri færi með stjórn sérsveitar í vopnuðum aðgerðum. Það fyrirkomulag að ríkislögreglustjóri fari með lögreglustjórn sérsveitar alls staðar á landinu í öryggismálum og vopnuðum verkefnum hennar er það fyrirkomulag sem best er á öllum Norðurlöndunum. Í því felst að sveitinni fylgja sérþjálfaðir stjórnendur í stað þess að sveitin færist undir stjórn viðkomandi lögreglustjóra sem hefur takmarkaða þekkingu á verkefnum hennar. Breytingin árið 2004 fólst í því að þá var tekin upp sú skipan að sérsveitin væri rekin sem sjálfstæð stoðdeild hjá ríkislögreglustjóra í stað þess að meðlimir hennar væru staðsettir hjá lögreglustjóranum í Reykjavík þar sem brotthvarf þeirra vegna verkefna og æfinga raskaði annarri starfsemi. Þá er rétt að geta þess að fjárveitingar vegna eflingar sérsveitar voru ekki teknar af öðrum fjárveitingum lögreglu heldur var það liður í stefnu þáverandi ríkisstjórnar að efla öryggismál þannig að fjárveitingar til eflingarinnar komu til viðbótar ramma lögreglunnar á árunum 2005 og 2006, fyrir tilkomu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Engar fjárveitingar hafa því verið teknar af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna sérsveitar. Efling sérsveitarinnar varð til þess að stöðuheimildum í lögreglu fjölgaði um 40. Þar af fóru fjárveitingar vegna 10 lögreglumanna til lögreglunnar í Reykjavík. Í ljósi þess að sérsveitin sinnir almennri löggæslu sem stoðdeild er ljóst að stöðuheimildum fjölgaði og fjárveitingar til lögreglu jukust við eflingu sveitarinnar. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segist ekki vita hvað sérsveitin er að gera dags daglega. Sú fullyrðing vekur spurningar um hvort ekki þurfi að bæta boðleiðir innan hans embættis. Útkallsbifreiðar sérsveitar eru búnar ferilvöktunarbúnaði og höfuðborgarlögreglan getur fylgst með akstri þeirra frá eigin lögreglustöð. Sérsveitarmenn eru á fjarskiptatalhópum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þegar þeir starfa innan þess umdæmis og höfuðborgarlögreglan getur fylgst með þeim samskiptum. Verkefni sem unnin eru í umdæmi höfuðborgarlögreglunnar eru skráð í lögreglukerfið sem er sameiginlegt fyrir alla lögregluna og hæg heimatök fyrir lögreglu höfuðborgarsvæðisins að taka út tölfræði um fjölda og eðli verkefna sérsveitarmanna. Þá er varðskrá sérsveitar send til aðalvarðstjóra á vöktunum hjá höfuðborgarlögreglunni til upplýsinga um hvaða styrk sérsveitin er með á höfuðborgarsvæðinu hverju sinni. Yfirmenn hjá embættunum hittast reglulega og funda.

Einnig má nefna að stjórnendur í deildum höfuðborgarlögreglunnar hafa sent þakkarbréf til sérsveitar fyrir ómetanlega aðstoð. Sérsveitinni er hins vegar ekki einungis ætlað að veita lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins stuðning, heldur öllum liðum eftir því sem unnt er. Ekki er eðlilegt að takmarka þá aðstoð sem sérsveitin veitir utan umdæmis höfuðborgarlögreglunnar né ætlast til að hún manni eftirlitshverfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það verður höfuðborgarlögreglan sjálf að tryggja því að lagt var til grundvallar við eflingu sérsveitarinnar að hún væri hrein viðbót við aðra almenna löggæslu sem mætti ekki skerða og að sveitin ætti ekki að vera bundin við eftirlitshverfi. Sérsveitin á að vera hreyfanlegt lögreglulið sem getur farið fyrirvaralaust hvert á land sem er og aðstoðað eftir getu öll lögregluumdæmin en ekki bara höfuðborgarsvæðið.

Hugmyndir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að færa stoðstarfsemi frá ríkislögreglustjóra til sín eru í andstöðu við vilja flestra lögreglustjóranna. Auk þess var áratuga slæm reynsla af eldra fyrirkomulagi við rekstur sérsveitar og hætta er á að sérsveitarmenn hætti frekar störfum ef fara ætti til fyrra horfs. Ef til slíks kæmi væri kastað á glæ ómældri fjárfestingu í þjálfun manna og margra ára uppbyggingarstarfi sem tæki áratug og mikla fjármuni að vinna upp á ný.

Lesa Staksteinar ekki Morgunblaðið?

Í Morgunblaðinu sunnudaginn 10. september síðastliðinn er viðamikil umfjöllun um lögreglumálefni þar sem settar eru fram ávirðingar um störf sérsveitarmanna. Í umfjöllun blaðamannsins er hins vegar nokkuð af beinlínis röngum uppýsingum sem ástæða er til að benda á.

Blaðamaður heldur því fram að sérsveit sænsku lögreglunnar heyri undir lögreglustjóra höfuðborgarinnar en ekki ríkislögreglustjóra sem er rangt. Hún er hluti af Rikskriminalpolisen sem er undirdeild ríkislögreglustjórans. Þá virðist blaðamaður ekki gera sér grein fyrir að danska öryggislögreglan er deild G hjá danska ríkislögreglustjóranum þannig að sérsveit dönsku lögreglunnar er undir stjórn hans.

Blaðamaður heldur því fram að ein fjarskiptamiðstöð sé í Finnlandi sem er alrangt. Þar eru um 15 neyðarlínumiðstöðvar sem svara neyðarnúmerinu 112 og boðmiðla útköllum til viðbragðsaðila. Þeir eru reknir af sérstakri ríkisstofnun. Finnska lögreglan annast eigin fjarskiptastjórn og samhæfingu að öðru leyti fyrst og fremst með vettvangsstjórnstöðvarbifreiðum sem eru hreyfanlegar fjarskiptastjórnstöðvar. Því er fráleitt að tala um eina fjarskiptamiðstöð í Finnlandi.

Hæg heimatök hefðu verið hjá blaðamanni að kynna sér málin betur og hann hefði til dæmis getað aflað upplýsinga hjá embætti ríkislögreglustjóra sem hann gerði ekki.

Staksteinar Morgunblaðsins gera umfjöllun blaðsins að umræðuefni og spyrja hvaða verkefnum sérsveitarmenn eru að sinna þegar þeir eru ekki við þjálfun og æfingar og hvort ekki þurfi að upplýsa það. Staksteinar virðast ekki lesa Morgunblaðið því á blaðsíðu 14 í sama blaði eru upplýsingar um verkefni sérsveitarinnar!

Þá er ég ekki einn um að velta því fyrir mér hvort Staksteinar lesi ekki Morgunblaðið. Á heimasíðu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra skrifar Björn í dagbókarfærslu mánudaginn 22.9. '08 eftirfarandi: „Þegar ég skrifaði Staksteina, var lögð rík áhersla á, að höfundar væru vel að sér um það, sem birst hefði í Morgunblaðinu . “ Skyldi sú regla ekki lengur við lýði?

Höfundur er yfirlögregluþjónn.

Höf.: Jón F. Bjartmarz