Gisela Halldórsdóttir fæddist í Þýskalandi 3. apríl 1934. Hún lést á sjúkrahúsinu á Akranesi 17. september síðastliðinn.

Gisela var dóttir hjónanna Reinhards Framme, f. 24.8. 1902, d. 25.10. 1977, og Wöndu Framme, f. 19.12. 1910, d. 5.9. 2004. Systur Giselu eru Ingrid Schirling, f. 8.4. 1935, og Gudrun Lass, f. 14.8. 1941. Gudrun er gift Gerd Lass og synir þeirra eru Bodo Lass, f. 10.11. 1971, og Arne Lass, f. 30.10. 1976.

Gisela giftist 10.3. 1963 Reyni Halldórssyni frá Hríshóli, f. 10.1. 1926. Foreldrar hans voru Halldór Loftsson, f. 12.1. 1894, d. í febrúar 1947, og Ingibjörg María Björnsdóttir, f. 10.3. 1897, d. 28.5. 1955.

Börn Giselu og Reynis eru: 1) Reinhard, f. 6.5. 1960, kvæntur Maríu Kristjánsdóttur, f. 3.10. 1955. Börn þeirra eru Reynir Ingi, f. 31.8. 1989, og Hafþór, f. 25.5. 1992. Fóstursonur Reinhards, sonur Maríu, er Haraldur, f. 2.4. 1979. Kona hans er Berglind Júlíusdóttir, f. 4.3. 1980. Börn þeirra eru Hrefna María, f. 28.10. 2004, og Kolbeinn Óli, f. 4.6. 2007. 2) Ingibjörg, f. 8.5. 1963, giftist Þorsteini Einarssyni, en þau skildu. Börn þeirra eru Einar, f. 1.3. 1992, og Guðrún María, f. 1.11. 1994.

Fyrstu árin bjó Gisela með fjölskyldu sinni í Hamborg en þó aðallega um borð í strandferðaskipi fjölskyldunnar sem var í förum á fljótum Þýskalands, á Norðursjó og Eystrasalti. Árið 1941 keypti fjölskyldan hús í Ahrensburg og þar bjuggu foreldrar hennar allan sinn búskap upp frá því. Eftir hefðbundið grunnnám lauk Gisela verslunarprófi og starfaði við ýmis skrifstofustörf í nokkur ár. Áhugi hennar á lífi og starfi í sveit vaknaði snemma en hún vann m.a. á sumrum á sveitabýli föðurfólks síns í Þýskalandi og á sumarhóteli á Englandi. Hún ferðaðist um Norðurlöndin með vinkonu sinni og í framhaldi af því vaknaði Íslandsáhuginn og 1959 réð hún sig til starfa sem ráðskona á Hríshóli í Reykhólasveit samkvæmt auglýsingu í þýsku blaði. Á búskaparferli sínum byggðu þau hjónin upp myndarbú á Hríshóli. Árið 1990 seldu þau búreksturinn og jörðina en bjuggu áfram í íbúðarhúsinu til 2001 er þau fluttu í Búðardal. Jafnhliða búskapnum vann Gisela um ríflega 20 ára skeið við bókhald á skrifstofu Kaupfélags Króksfjarðar eða allt þar til þau fluttu í Búðardal.

Gisela var strax ákveðin í að verða virkur þátttakandi í hinu nýja samfélagi sem hún hafði sest að í og lagði sig fram um að ná góðum tökum á málinu. Til að aðlagast samfélaginu tók hún snemma þátt í kvenfélagsstarfi í sveitinni. Hún hafði alla tíð mikinn áhuga á þjóðmálum og hafði sterka réttlætiskennd. Viðgangur sveitanna í örum þjóðfélagsbreytingum með tilheyrandi þéttbýlismyndun var henni sérstakt áhugamál. Hún var um tíma virk í starfi Alþýðubandalagsins og var fram á hinsta dag sannfærð félagshyggjumanneskja og gagnrýnin á þá sjálfumglöðu peningahyggju sem á síðustu árum hafði að hennar mati keyrt um þverbak.

Gisela verður jarðsungin frá Reykhólakirkju í dag og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku besta amma mín, ég man allar þessar góðu stundir þegar ég var hjá þér og afa í sveitinni. Mér fannst svo gaman með litlu lömbunum sem ég vildi alltaf knúsa og kyssa. Svo seinna þegar þið fluttuð í Búðardal, þá fékk ég að koma til ykkar í pössun í viku og þá gerðum við margt saman amma. Þá kenndir þú mér að vaska upp og ég fékk að prófa að elda með þér. Einnig leyfðir þú mér að leika með slæðurnar þínar og það þótti mér ekki leiðinlegt. Oft spiluðum við saman á kvöldin eða þú varst að lesa fyrir mig úr þýskum bókum sem þú þýddir. Við fórum í lautarferð þegar það kom gott veður og höfðum með okkur nesti, það var gaman. Alltaf þegar ég fór með þér í búðina fékk ég ís og stundum eitthvað meira ef mig langaði í eitthvað annað. Allar þessar góðu minningar um þig geymi ég í hjarta mér, amma mín. Ég sakna þín svo mikið og ég vildi að þú værir hér hjá mér. Núna veit ég að þú ert á öðrum stað þar sem þér líður vel og fylgist með að ég standi mig vel í því sem geri. Fyrir þig ætla ég að hugsa vel um afa og heimsækja hann oft. Takk fyrir allt.

Þín

Guðrún María ömmustelpa.

Kæra Gísela, ég komst að því fljótlega eftir okkar fyrstu kynni að þú varst ekki dæmigerð kona af þinni kynslóð, þú varst nefnilega sambland af heimsborgara og sveitakonu sem las heimsbókmenntirnar og þér kom allur heimurinn við, ekki bara nánasta umhverfi. Þú hafðir brennandi áhuga á pólitík sem var mér nýmæli, ég hafði ekki vanist því að konur upp til sveita hefðu mikinn áhuga á henni. Þegar samfélagsmál bar á góma varstu í essinu þínu og enginn kom að tómum kofunum hjá þér og aldrei skorti þig rökin og oftast hafðir þú rétt fyrir þér. Þú varst eldheit félagshyggjumanneskja sem blöskraði sívaxandi misskipting í þjóðfélaginu og lagðir þitt af mörkum í pólitísku starfi til að sporna við henni.

Þú varst heldur betur búin að lifa tímana tvenna, allt frá því að hafa átt bernsku- og unglingsárin í skugga heimsstyrjaldar og þrenginga sem þýska þjóðin mátti þola fyrst eftir stríð og til nútímans sem einkennist af græðgi þar sem sumir virðast aldrei fá nóg. Þú sagðir mér eitt sinn frá því að í húsnæðiseklunni í Þýskalandi eftir stríðslok voru foreldrar þínir sem bjuggu í stóru húsi skikkaðir til að taka inn á sig fjórar ókunnar fjölskyldur og það eina sem þessar fjölskyldur höfðu til matar var það grænmeti og ávextir sem hægt var að rækta í garðinum við húsið, græðgi og ofneysla var ekki til í orðasafni þessa fólks. Samt sagðir þú alltaf að fjölskylda þín hafi sloppið vel frá hörmungum stríðsins því allir lifðu það af. Dagurinn sem Berlínarmúrinn féll líður mér seint úr minni fyrir það að harðjaxlinn þú varðst klökk í símanum þegar ég hringdi í þig eftir fyrstu fréttir af atburðinum, þá fyrst skynjaði ég hvað hafði verið lagt á þýsku þjóðina þegar hún var klofin í tvennt og fjölskyldum sundrað. Ekkert var þér jafn hugleikið og sveitasamfélögin sem þú bjóst í allan þinn búskap hér á landi, sveitalíf var það lífsform sem þú heillaðist af strax á yngri árum eftir að hafa dvalist í sveit á sumrin hjá föðurfólkinu þínu. Ævistarf ykkar Reynis sem var að byggja upp Hríshólsjörðina er til vitnis um það að þar fór fólk með mikinn metnað og áhuga á sveitabúskap. Þið Reynir hófuð búskap á Hríshóli með tvær hendur tómar en þrátt fyrir úrtöluraddir byggðuð þið jörðina upp af elju og útsjónarsemi og svo myndarlega að eftir var tekið. Þér til ómældrar ánægju hafa núverandi ábúendur haldið merkjum ykkar á loft með áframhaldandi uppbyggingu.

Nú þegar komið er að leiðarlokum vil ég þakka þér alla umhyggjuna í minn garð, hún var ómæld og verður aldrei frá mér tekin. Þú fórst allt of snemma frá okkur en þú varst ánægð með lífshlaupið og þér fannst ekkert að því að því lyki senn. Þegar þú sást að hverju stefndi lagðir þú mikið upp úr því að við ástvinir þínir héldum okkar striki, það ætlum við líka að gera og ég heiti þér því að leggja mitt af mörkum til þess að afkomendur þínir haldi merkjum þínum á loft við að leggja sig fram um að gera heiminn örlítið réttlátari í dag en í gær. Þín tengdadóttir,

María Rebekka (Maja).

Það er erfið tilfinning að sitja hér við eldhúsborðið á Hríshóli daginn fyrir leitir og ætla að skrifa minningargrein um Giselu Halldórsdóttur.

Hugurinn leitar að hugsunum um hana hér í þessu húsi sem húsmóðir, hún var ráðagóð, skörp, með sterka réttlætistilfinningu, hreinskilin, hafði skoðanir á flestu sem var að gerast í þessum heimi og oft áttum við skemmtilegar og fjörugar umræður hér við eldhúsborðið.

Gisela spilaði oft á píanóið sitt þegar hún var ein inni,stundum heyrðum við í henni og sáum hversu mjög hún naut þess að spila. Við bókhaldsvinnu sína í Kaupfélag Króksfjarðar notaði hún oft matartímann sinn til að endurraða hlutum í hillunum sem henni fannst ekki fara nógu vel.

Gisela var víðsýn, horfði fram á veginn og lét verkin tala.

Það má sjá á öllu hér á Hríshóli. Viljum við nefna þann stórhug sem hún og eiginmaður hennar Reynir Halldórsson frá Hríshóli sýndu þegar þau byggðu ný og glæsileg fjárhús 1977 sem enn standa fyrir sínu eins og þau væru byggð í dag.

Okkar kynni af Giselu og Reyni hófust fyrir alvöru árið 1990 þegar þau hjónin sýndu okkur það traust að selja okkur jörðina sína Hríshól en vera áfram í samstarfi við okkur um búskapinn. Það gerðum við farsællega í tíu ár.

Við þetta samstarf höfum við eignast góðar minningar, mikla reynslu og vitneskju um að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Gisela og Reynir hafa alltaf reynst börnum okkar vel. Þau líta á Giselu og Reyni sem ömmu og afa.

Við munum sakna sárt Giselu Halldórsdóttur hér á Hríshóli.

Kæri Reynir, Reinhard, Ingibjörg og fjölskyldur. Guð gefi ykkur styrk á erfiðum tímum.

Þráinn, Málfríður og fjölskylda, Hríshóli Reykhólahreppi.

Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið að Gisela átti við erfið veikindi að stríða, en hún lét það ekki hafa áhrif á sitt daglega líf. Hún var ákaflega félagslynd kona, átti gott með að hafa samskipti við fólk og það var gott að heimsækja þau hjón hvort heldur var á Hríshóli eða í Búðardal þar sem þau bjuggu síðustu árin. Allir voru velkomnir, og strax framreiddar veitingar hvort sem menn voru skammt eða langt að komnir.

Ég kynntist Giselu fyrst á vettvangi Kvenfélagasambands Íslands, þegar hún var formaður Sambands breiðfirskra kvenna og ég formaður Sambands vestfirskra kvenna. Við náðum strax vel saman og ræddum oft stöðu kvenna og kvenfélaga á okkar svæðum. Gisela var vel máli farin og átti gott með að tjá sig á góðu íslensku máli, þótt það væri ekki hennar móðurmál. Síðar endurnýjuðum við kynnin þegar ég flutti í Reykhólasveitina og varð nágranni hennar. Þá vann hún á skrifstofu Kaupfélags Króksfjarðar en því starfi sinnti hún um áraraðir. Þar var einnig gott að leita til hennar um ýmsar upplýsingar.

Gisela lét víða til sín taka í félagsmálum og síðustu árin var hún m.a. í stjórn Félags eldri borgara í Dölum og Reykhólasveit og þar áttum við einnig gott samstarf. Gisela var afar dugleg að sækja allar samkomur sem haldnar voru bæði í Dölum eða á Reykhólum, ef hún var á annað borð á svæðinu og sæmilega frísk. Þó að lasleiki hrjáði hana oft og veikindi hennar yrðu alvarlegri með árunum var hún alltaf glöð og kát og virtist vilja njóta hverrar stundar. Það er mikill missir að slíkum samstarfsfélögum, þeir gefa svo miklu meira en þeir þiggja.

Ég vil að lokum þakka Giselu fyrir afar góða viðkynningu og einnig fyrir það góða starf sem hún innti af hendi fyrir kvenfélögin. Þá vil ég fyrir hönd Sambands breiðfirskra kvenna þakka henni ágæt störf hennar þar.

Reynir og Gisela voru afar samrýnd og elskuleg hjón. Ég veit að Reynir hefur misst mikið við fráfall hennar. Ég votta honum og börnum þeirra, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Guð blessi minningu Giselu Halldórsdóttur.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.