— 24stundir/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún G. Eggertsdóttir yfirljósmóðir man tímana tvenna og segir heilsu og hugarfar barnshafandi kvenna mikið hafa breyst frá því hún hóf störf. Nútímakonan býr við meira öryggi og góðar rannsóknir en glímir við offitu og ranghugmyndir um fæðinguna.

Eftir Kristjönu Guðbrandsdóttur

dista@24stundir.is

Guðrún útskrifaðist sem ljósmóðir árið 1969 og man því tímana tvenna hvað varðar þjónustu við fæðandi konur.

„Á þeim tíma er ég hóf störf var mjög þröngt um húsnæði fyrir fæðandi konur,“ segir hún. „Konur lágu þá inni í heila viku og voru margar saman á stofu, allt að sex saman.

Ljósmæður og fagfólk héldu að það væri best á þeim tíma enda var þá ekki gert eins mikið af rannsóknum. Meira var stuðst við reynslu og álit fagfólksins á hverjum tíma. Sónarinn var ekki tilkominn og framan af á ferlinum tók ég á móti mörgum börnum sem voru vansköpuð á einhvern hátt.“

Ranghugmyndir um fæðingu

Aðspurð hvort hún hefði orðið vör við fjölgun fæðinga með keisaraskurði segir Guðrún einhverja aukningu hafa orðið á því að konur velji keisaraskurð fram yfir eðlilega fæðingu.

„Ég hugsa að ástæður þess að konur íhugi slíkt val sé ákveðinn þekkingarskortur. Þær hafa ef til vill ekki fengið eða meðtekið upplýsingar um áhættu og eftirmál þessarar aðgerðar. Betra er heilt en gróið í þessum efnum því fylgikvillar geta verið ýmsir. Til að mynda sýkingar, þá er fæðing eftir keisaraskurð talin vera áhættufæðing. Ég hallast helst að því að konur séu haldnar ranghugmyndum um fæðinguna og eftirmál hennar. Konur sem hafa fætt eitt eða tvö börn þurfa ekkert að vera með slakari grindarbotnsvöðva en aðrar konur ef þær halda sér í góðri þjálfun og þá stafar hræðsla þeirra við erfiðleika í fæðingu oft af þekkingarskorti. Ég held að minnsta kosti að ástæðurnar sé ekki að finna í því að íslenskar konur vilji ekki rembast eða ganga í gegnum eðlilega fæðingu.“

Feitar konur

En skyldi heilsufar kvenna hafa breyst með tíð og tíma? Guðrún segir það svo sannarlega vera raunina. „Það sem ég sé gífurlegan mun á er að það er mikil fjölgun á konum í yfirþyngd. Ég sá varla konu í yfirþyngd þegar ég var að byrja að vinna en núna er það mjög algengt ástand. Offita á meðgöngu er skaðleg móður og barni og stafar langoftast af lélegu næringarvali móður. Nýjar rannsóknir sýna að offita getur valdið truflun á eðlilegu hríðamunstri, meðgöngusykursýki og mikilli fæðingarþyngd barna.“

Alltaf þrengt að konum

Guðrún telur að betur megi gera við ljósmæður og barnshafandi konur. „Aðbúnaðurinn núna er nýuppgerður en mjög þröngur. Við viljum sjá stærri stofur, setustofur fyrir feður og fjölskyldumeðlimi, aðstöðu fyrir foreldra til að fá sér að borða eftir fæðingu. Svo eru sængurlegudeildirnar alltof þröngar og allt að fjórar konur liggja saman. Þá er ekki búið að finna okkur stað innan nýja háskólasjúkrahússins. Ég er búin að vera í undirbúningsnefnd og mér finnst það mjög óþægilegt að vita ekki hvar sá staður á að vera og fá ekki upplýsingar um hana því það er hagsmunamál okkar og kvenna að fá meira rými og betri aðstöðu. Það er kominn tími til að standa rétt að málum,“ bætir Guðrún við augljóslega orðin langþreytt á því að ekki sé staðinn vörður um fæðingar og þjónustu við konur í kringum þær.

Við erum fagmenn

„Ljósmæður eru miklir fagmenn og við berjumst hikstalaust fyrir virðingu fyrir hugmyndafræði okkar og hag okkar skjólstæðinga. Ég get ekki neitað því að okkur finnst alltaf þrengt að konum. Síðan ég byrjaði að starfa sem ljósmóðir hef ég kynnst því að húsakosturinn er aldrei nógu góður, við erum of fáar á vakt, meira fjármagn þarf til að ráða fleiri ljósmæður. Það er aldrei hægt að sjá fyrir hvað það getur orðið mikið að gera og ástandið getur breyst skyndilega. Í gær fæddu fimm konur börn sín á einni klukkustund,“ nefnir Guðrún sem dæmi.