Eftir Björgvin Guðmundsson bjorgvin@mbl.is Verðtryggð verðbréf sem Seðlabankinn gefur út, að upphæð 75 milljarðar króna, falla á gjalddaga í dag.

Eftir Björgvin Guðmundsson

bjorgvin@mbl.is

Verðtryggð verðbréf sem Seðlabankinn gefur út, að upphæð 75 milljarðar króna, falla á gjalddaga í dag. Erlendir fjárfestar hafa meðal annarra keypt þessi ríkisbréf til að hagnast á háum vöxtum á Íslandi auk þess að fá verðbólguna bætta.

Mikið gengisfall krónunnar í gær þykir benda til þess að útlendingar hafi misst trúna á krónunni og ætli ekki að framlengja þessa fjárfestingu sína eins og Seðlabankinn býður uppá. Því hafi bankar þurft að skipta krónum út fyrir erlendan gjaldeyri undanfarna daga til að afhenda útlendingunum. Fáir eru tilbúnir til að kaupa krónur nú um stundir og veðja á hækkun hennar. Enginn telur viðsnúning í nánd.

Engin einhlít skýring

Þetta er talin vera ein af orsökum þess að gengi krónunnar féll um 3,1% í gær. Gengisvísitalan, sem mælir verð erlendra mynta í krónum, hefur aldrei verið hærri. Bandaríkjadalur kostaði tæpar 95 krónur og evra tæpar 176 krónur. Í september hefur krónan veikst um 14%. Velta á gjaldeyrismarkaði í gær var um 76 milljarðar króna og hefur verið mikil síðustu daga.

Sérfræðingar á gjaldeyrismarkaði í viðskiptabönkunum þremur sögðu ekki einfalt að útskýra af hverju krónan veiktist svona. Allir sögðu þeir áhrifin af alþjóðlegri fjármálakreppu hafa sitt að segja. Áhættufælni ykist, fjárfestar forðuðust hávaxtamyntir eins og krónu við slíkar aðstæður og laust fé í umferð hefði minnkað. Því væri ákveðin tregða á gjaldeyrismörkuðum eins og öðrum. Það gerði svo erlendum fjárfestum, sem hafa keypt svokölluð jöklabréf, erfiðara fyrir að nýta sér vaxtamun á milli Íslands og lágvaxtalanda. Þess vegna mætti segja að verið væri að „hreinsa útlendingana úr kerfinu“.

Þessu til staðfestingar skrifaði Beat Siegentthaler, sérfræðingur hjá TD Bank, í síðustu viku bréf til sinna viðskiptavina og sagði engan hvata til að fjárfesta á ný í krónubréfum. Hann hefur haft umsjón með 60-70% af öllum útistandandi krónubréfum. Þetta segja sérfræðingar að hafi áhrif.

Allir voru sammála um að ástæður að baki hreyfingum væru óljósar og óvíst hvar krónan endaði.

Í hnotskurn
» Hagsmunir bankanna af gengisfalli krónunnar eru ekki einsleitir.
» Landsbankinn tekur hlutfallslega mestan gengishagnað af bönkunum þremur í gegnum rekstur.
» Þegar krónan fellur hækka erlend lán fyrirtækja og heimila.