Sigríður Helga Stefánsdóttir fæddist á Sjöundastöðum í Flókadal í Skagafirði 25. ágúst 1917. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 10. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Kristín M. Jósefsdóttir húsfreyja, f. 25.8. 1888, d. 10.12. 1954, og Stefán Aðalsteinsson bóndi í Sigríðarstaðarkoti, síðar verkamaður á Siglufirði, f. 10.9. 1884, d. 12.5. 1980. Systkini Sigríðar eru: Jóhann Helgi, f. 22.1. 1909, d. 25.1. 1994, Guðlaug Ólöf, f. 20.9. 1910, d. 26.7. 2003, Helga Anna, f. 21.6. 1912, d. 16.4. 1990, Jósep Svanmundur, f. 12.5. 1914, d. 27.4. 1935, Sigrún, f. 5.8. 1916, d. 19.1. 2006, Albert Sigurður, f. 10.8. 1918, d. 16.7. 1924, Anna Þorbjörg Jóhanna, f. 23.2. 1921, d. 27.4. 1935, Jakobína Kristín, f. 4.8. 1923, Albert Sigurður, f. 10.3. 1925, d. 14.11. 1943, Guðrún Svanfríður, f. 21.3. 1926, Jóna Guðbjörg, f. 23.5. 1927, Jón Sigurður, f. 4.7. 1929, og Gísli Rögnvaldur, f. 29.5. 1932, d. 29.11. 1990.

Sigríður giftist 15. september 1935 Aðalsteini Gunnlaugssyni bónda á Illugastöðum í Flókadal í Skagafirði, f. 25.1. 1901, d. 3.1. 1950, og eignuðust þau sjö börn. Þau eru: 1) Kristín Jóna, f. 18.1. 1935, d. 22.2. 1939. 2) Svava, f. 29.1. 1936, maki Oddur Jónsson, f. 6.12. 1930, d. 27.3. 2006. Þau eignuðust sjö börn og eru fimm þeirra á lífi. Þau eru: Aðalsteinn, Ásta Jónína, Jón (látinn), Sigurður, Gunnlaugur, Davíð (látinn) og Bára Pálína. Barnabörnin eru átján og barnabarnabörn fjögur. 3) Lovísa, f. 14.10. 1939, maki Einar L. Benediktsson, f. 8.1. 1934. Þau eiga þrjú börn, Aðalstein, Sigríði og Önnu Maríu. Barnabörnin eru sex. 4) Gunnlaugur Jón, f. 27.5. 1944, d. 8.4. 1945. 5) Guðlaug Jónína, f. 5.2. 1946, maki Sigurður Geirsson, f. 10.4. 1943. Þau eiga tvo syni, Geir og Aðalstein, og eitt barnabarn. 6) Vernharður Anton, f. 20.4. 1947, maki Anna Rannveig Jónatansdóttir, f. 30.6. 1945. Þau eignuðust þrjú börn, Jónatan, Önnu Sigríði og Aðalstein (látinn). Barnabörn eru fimm. 7) Alda, f. 4.6. 1948, fyrri maður Ólafur Bæring Bæringsson, f. 9.10. 1943, d. 20.11. 1982. Eiginmaður er Ólafur G. Þórólfsson, f. 12.3. 1955. Hún á tvo syni með fyrri manni sínum og einn son með seinni, Jón Óla, Þór Bæring og Þórólf. Barnabörnin eru fimm. Alda var alin upp hjá Jónu, systur Sigríðar, og Kristfinni Guðjónssyni á Siglufirði.

Sigríður var til ársins 1969 í sambúð með Lútheri Einarssyni rafvirkja, f. 25.5. 1910, d. 2.6. 1978. Þau eignuðust fjórar dætur: 1) Aðalbjörg, f. 3.7. 1953, maki Einar Jón Ólafsson, f. 21.4. 1954. Þau eiga tvo syni, Ólaf Lúther og Huga Frey, og tvö barnabörn. 2) Halldóra, f. 20.11. 1954, maki Valþór Söring Jónsson, f. 19.7. 1953. Þau eiga fjögur börn: Lilju, Jónu Kareni, Írisi Ósk og Lúther Söring. Barnabörnin eru fjögur. 3) Kristín Stefanía, f. 30.4. 1959, maki Alf Bekkevold, f. 7.4. 1954. Þau eiga sex börn, Albert Inga, Árna Þór, Þrúði, Rune, Roar, og Björn Martin. Barnabörnin eru tvö. 4) Þorleif, f. 9.12. 1960, Hún eignaðist þrjú börn, Sigurð Helga (látinn), Elínu Dórótheu og Svandísi Ósk. Barnabörnin eru tvö.

Sigríður giftist 22. október 1993 Árna Jóhannessyni frá Hóli á Höfðahverfi í Eyjafirði, f. 2.9. 1929, en þau hófu sambúð árið 1973. Afkomendur Sigríðar eru yfir áttatíu.

Sigríður ólst upp í fjölmennum systkinahópi. Kristín, móðir Sigríðar, var ekki heilsuhraust og varð það oft hlutskipti Sigríðar, á unga aldri, að sjá um heimilið ásamt systrum sínum. Sigríður og Aðalsteinn hófu búskap á Illugastöðum árið 1934 og eftir lát hans bjó Sigríður þar áfram þar til hún flutti til Siglufjarðar árið 1951. Á Siglufirði sinnti Sigríður margvíslegum störfum svo sem síldarsöltun, sláturgerð, prjónaskap, flatkökubakstri og ræstingum. Frá Siglufirði flutti hún árið 1969 og lá leið hennar í Kópavog þar sem hún bjó að mestu leyti síðan. Sigríður starfaði við heimilisþjónustu og síðar allmörg ár sem dagmóðir bæði í Reykjavík og í Kópavogi þar til hún fór á eftirlaun.

Útför Sigríðar fer fram frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveð ég með söknuði og eftirsjá tengdamóður mína Sigríði Helgu Stefánsdóttur. Ég var aðeins 16 ára gamall þegar ég kom í fjölskylduna hennar Siggu og var mér tekið af mikilli hlýju og vináttu strax frá fyrsta degi. Áður en ég hafði kynnst Öllu hafði Sigga verið heimilishjálp á heimili foreldra minna. Þar kynntist ég hennar frábæru kleinum og flatkökum. Þótt margir hafi reynt að baka eins góðar kleinur og flatkökur og Sigga gerði þá hef ég ekki enn fengið neitt í líkingu við hennar kleinur og flatkökur. Eitt sinn var ég í heimsókn hjá Siggu, eftir að heilsan var farin að gefa sig, þar sem hún bauð upp á kaffi og kleinur að gömlum sið. Þegar ég hafði bragðað á kleinunni og fann að þetta voru ekki hennar kleinur sagði ég það við hana að þetta gætu ekki verið hennar kleinur. Hún svaraði „nei Einar minn, þetta eru nú bara hversdagskleinur“. Það voru sannarlega orð að sönnu. Fyrst eftir að við Alla kynntumst leigðum við okkur herbergi í nágrenni við Siggu. Á hverjum morgni löbbuðum við yfir til hennar í morgunmat áður en lagt var af stað í vinnuna. Á þeim tíma höfðu flestir með sér nesti í vinnuna og Sigga útbjó mitt nesti í bitaboxið. Þau litu á bitaboxið mitt með öfundaraugum vinnufélagarnir og hefðu eflaust margir gefið mikið fyrir það. Það var eins með bitaboxið og öll hennar verk, unnin með vandvirkni, natni og hlýhug.

Á sinni löngu lífsleið féll henni aldrei verk úr hendi. Prjónaskapur hennar var víða þekktur fyrir frábæra vandvirkni og fallegt útlit. Margar peysurnar hef ég fengið frá Siggu og eru það fallegustu og bestu peysur sem ég hef nokkurn tíma fengið. Hún átti það til að skoða peysur sem ég kom í, og hún hafði ekki prjónað, og laga spotta og falda og sagði svo þegar hún rétti mér þær: „Þessa hefur þú keypt í búð.“

Ævi Siggu var erfið og hún, eins og mörg börn á þessum tíma, þurfti að fórna miklu af barnæskunni í vinnu á heimili sínu. Sigga sagði mér eitt sinn að eitt af því erfiðasta í sínu lífi hefði verið að fá ekki að fara í skóla. Hennar skólaganga var einungis nokkrar vikur. Sigga var afar vel gefin kona og vel af Guði gerð. Hún var fróð um marga hluti og gaman þótti mér að hlusta á hana segja frá þar sem hún notaði gömul orð og orðasambönd.

Það gaf Siggu ómælda gleði þegar hún og Árni fóru að fara norður í Sund á hverju sumri. Hún naut sín í sveitinni í því umhverfi sem hún þekkti best. Það var dásamlegt að koma í heimsókn þangað á sumrin og fá að fara með stöngina niður í á. Frá því að ég kom þar fyrst fékk Sigga allan þann silung sem ég veiddi og ástæðan fyrir því var að ég hét á hana öllum þeim fiski sem ég veiddi þar.

Ég þakka Guði fyrir að hafa fengið að kynnast jafn stórkostlegri konu og henni Siggu sem hefur kennt mér margt um verðmæti lífsins og ég bið Guð að vernda hana. Ég vil einnig biðja Guð að vernda Árna og gefa honum huggun og frið í hjarta sitt.

Einar Jón Ólafsson.

Elsku amma, nú er komið að kveðjustund. Það er sárt að þú sért farin. Hugur og hjarta fyllast af hlýjum minningum. Þú varst einstök kona með yndislega nærveru, alltaf svo gaman að koma til þín. Það er svo ofsalega margs að minnast, allar góðu stundirnar í Sundi, sveitinni ykkar afa. Ófáir dagarnir sem við krakkarnir eyddum í búinu okkar út við hól, já og í berjamó.

Sérstaklega er minnisstætt þegar allir komu saman á 75 ára afmælinu þínu og slegið var upp hlöðuballi í sveitinni og dansað fram á nótt. Við eigum margar góðar minningar úr sveitinni ykkar afa. Á Kópavogsbrautina var líka alltaf gott að koma. Ilmurinn af nýbökuðum kleinum, vöfflum eða pönnukökum tók oftar en ekki á móti okkur. Já og svo sláturgerðin, þá var gaman í litla eldhúsinu.

Þú varst öllum svo góð elsku amma og við varðveitum minninguna um þig í hjörtum okkar. Takk fyrir allt og allt elsku amma.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

veki þig með sól að morgni

(Bubbi Morthens)

Lilja, Jóna Karen, Íris Ósk

og Lúther Söring.

Nú ertu kominn á góðan stað, elsku amma mín og ég er viss um að englarnir þínir allir hafa tekið vel á móti þér. Ég er líka viss um að þér líður betur núna og það er huggun okkar sem kveðjum þig nú. Ég á margar góðar minningar um þig sem eiga eftir að ylja mér um ókomin ár.

Lífið hennar ömmu var svo sannarlega ekki alltaf dans á rósum. Hún þekkti fátæktina vel og kynntist sorginni betur en margur. Hún hafði ótrúlegan styrk til að takast á við þá erfiðleika sem hún þurfti að reyna í lífinu. En hún amma var svo sannarlega gæfusöm að eiga svona mörg börn og afkomendur. Hún var líka heppin að eiga hann Árna sem var henni svo kær.

Hún amma var þrjósk, ákveðin og hafði skoðanir á hlutunum. Hún hafði líka yfirleitt rétt fyrir sér. Það var virkilega gaman að spjalla við ömmu og hún var áhugasöm um það sem aðrir voru að taka sér fyrir hendur og gaf mikið af sér. Mér þótti sérstaklega vænt um áhuga hennar á því sem ég var að gera síðastliðið vor en þá var ég að gera litla rannsókn í námi sem ég stundaði. Amma fylgdist vel með þessu og spurði meira en nokkur annar um gang mála.

Margar af minningum mínum um ömmu tengjast mat og í minningunni var bara allt gott hjá henni ömmu. Eftir að hafa dvalið hjá ömmu og Árna á Laugarnesveginum í 2 vikur þegar ég var sex ára gömul bað ég mömmu stundum um að elda mat eins og hún amma gerði. Frá þessum tíma man ég sérstaklega eftir kjötbollum með brúnni sósu með alveg einstaklega góðu hrásalati og svo auðvitað slátrinu með hvítu sósunni. Kleinurnar hennar ömmu voru líka bestar í heimi og ekki má gleyma rúgbrauðinu og flatkökunum sem amma bakaði fyrir jólin. Já og jólaboðin hjá ömmu og Árna voru mikilvægur hluti jólanna og eru ógleymanleg. Það var líka alltaf notalegt að kíkja við á Kópavogsbrautinni og fá kaffisopa og amma var alltaf svo þakklát fyrir hverja einustu heimsókn.

Ég á ekki eingöngu eftir að ylja mér á minningum um hana ömmu mína, ég á líka eftir að ylja mér á treflum, vettlingum og sokkum sem hún amma prjónaði handa mér. Hún var einstaklega myndarleg í höndunum og gríðarlega afkastamikil á þessu sviði. Mér er sérlega kær trefill sem hún gaf mér þegar ég hóf að starfa sem ljósmóðir. Þessi trefill var sérstaklega hugsaður til að veita mér hlýju ef ég þyrfti að fara í vitjun á köldum vetrardegi eða nóttu.

Ég veit að lífið hennar ömmu var mjög merkilegt og svo ólíkt því lífi sem ég og mín kynslóð þekkir. Mig hefur lengi langað að vita meira um hvernig líf hennar var í gamla daga en því miður kom ég mér ekki að því að spyrja hana nógu mikið um þetta svo það verður að bíða betri tíma. Við eigum eftir að hittast á ný og þá höfum við örugglega um nóg um spjalla.

Anna Sigríður Vernharðsdóttir (Anna Sigga.)

Elsku amma, mig langar að minnast stundanna okkar saman í Sundi, sumrin sem ég fékk að vera hjá ykkur afa í sveitinni eru mér ómetanleg. Þar leið mér alltaf vel, og ég veit að þar leið ykkur afa alltaf best. Þar var friður og ró en alltaf nóg að gera. Ég man að við fórum alltaf öll saman niður að sjó og afi lagði netin, síðan stóðum við uppi á bakkanum með kíki og fylgdumst með fiskunum koma í. Ég man sumarið þegar uss-ararnir veiddust. Ég man að þú stóðst alltaf efst í stiganum og veifaðir öllum sem fóru þegar þeir keyrðu burt og það var skylda að þeyta bílflautuna áður en Sund hvarf úr augsýn. Ég lærði margt í Sundi, sem ég nýt góðs af í dag, og ég þakka þér fyrir það. Þú varst alla tíð svo hlý og góð og ég fór aldrei frá þér öðruvísi en brosandi. Það ríkti alltaf friður í hjarta mínu eftir heimsókn til ykkar afa. Þannig var það alla tíð, inni á heimili ykkar ríkti friður og ró sem maður smitaðist af við hverja heimsókn.

Ég veit að ég á eftir að sakna þín elsku amma mín, en ég veit líka að nú ertu hjá Guði og þar líður þér vel, þú ert líka í hjörtum okkar allra, og verður þar alla tíð.

Aðalsteinn Sigurðsson.