— 24stundir/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Linda Sæberg Þorgeirsdóttir fór í miklar framkvæmdir eftir að hún keypti sína fyrstu íbúð. Eldhúsið var rifið út og tóku framkvæmdir um mánuð. Allar framkvæmdir annaðist hún og hennar fólk.

Eftir Kristínu Ýri Gunnarsdóttur

kristing@24stundir.is

„Þessi vinna tók langan tíma að mínu mati. Ætli við höfum ekki verið rúmlega mánuð að koma íbúðinni í stand,“ segir Linda Sæberg Þorgeirsdóttir sem tók íbúðina sína í gegn áður en hún flutti inn. „Við gerðum þetta mestallt sjálf. Fórum í það að taka eldhúsinnréttinguna og hreinsa hana út. Hún var hræðileg og gerði íbúðina dimma og þunga.“

Innrétting frá byggingu

„Það var gaman að fara í þessar framkvæmdir og ég var mjög spennt. Ég hef verið þekkt fyrir að finnast gaman að skipuleggja svo allt skipulagið sem fylgdi framkvæmdunum átti vel við mig,“ segir Linda.

„Það kom ekkert annað til greina en að henda gömlu innréttingunni út, hún var búin að vera þarna síðan húsið var byggt fyrir fjölmörgum árum. Búið var að mála hana mörgum sinnum og þegar ég keypti íbúðina þá var hún blá á litinn. Ég keypti íbúðina með það í huga að gera eldhúsið upp.“ Linda segir að þetta hafi ekki verið það eina sem þau réðust í að gera. „Við rifum niður vegg til þess að opna eldhúsið svo íbúðin yrði bjartari. Það er gangur sem liggur við eldhúsið og allt varð mun fallegra við að opna á milli. Einnig var ruslalúga til staðar sem við rifum og var þá stórt gat í veggnum. Það þurfti að steypa upp í það.“

Um tíu manns veittu aðstoð

„Ég er ánægð með að við ákváðum að gera þetta sjálf. Það voru um tíu manns sem komu að þessu öllu saman. Vinur pabba míns sem er smiður aðstoðaði við að setja innréttinguna upp.“ Linda segist vera ánægð með útkomuna. „Ég er stolt af heimilinu mínu og ánægð með að hafa farið í þessar framkvæmdir.“
Í hnotskurn
Eldhúsið fór úr því að vera blátt og margmálað yfir í að vera hvítt og svart. Íbúðin varð bjartari og fallegri. Íbúðin er búin nýjum húsgögnum sem öll eru í sömu línu. Íbúðin er stílhrein eins og eigandinn.