[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lögmaður Karls Georgs Sigurbjörnssonar, sem er ákærður fyrir að svíkja út 200 milljónir króna, fór í gær fram á að málinu yrði vísað frá.

Lögmaður Karls Georgs Sigurbjörnssonar, sem er ákærður fyrir að svíkja út 200 milljónir króna, fór í gær fram á að málinu yrði vísað frá. Karli er gefið að sök að hafa hagnýtt sér ranga hugmynd Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, til að svíkja upphæðina út úr alls fimm mönnum í viðskiptum með stofnbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar (SPH), sem nú heitir Byr.

Í málflutningi Ragnars Hall, lögmanns Karls, í Héraðsdómi Reykjavíkur kom fram að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður og skjólstæðingur hans hefðu verið samstarfsfélagar. Sigurður hefði á tímabili haft stöðu sakbornings í málinu og verið yfirheyrður. Hann var hins vegar ekki ákærður í því. Ragnar sagði Helga Magnús Gunnarsson, saksóknara efnahagsbrota og sækjanda í málinu, vanhæfan til að sækja málið þar sem hann og Sigurður væri náskyldir, en þeir eru þremenningar. Sagði Ragnar að báðir hefðu alist upp á Þingeyri og þrátt fyrir aldursmun væru líkur á samgangi þeirra á milli í jafn litlu plássi.

Ragnar hélt því fram að rannsókn málsins hefði verið færð til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þangað til ákveðið hefði verið að fella niður rannsókn á hlut Sigurðar í málinu. Þá hafi málið verið fært aftur til embættis saksóknara efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóra sem hafi gefið út ákæru á hendur Karli.

Helgi Magnús sagði að rannsóknin þar sem Sigurður hafði haft stöðu sakbornings og verið yfirheyrður hefði tengst öðru máli en því sem Karl var ákærður fyrir. Málin væru hins vegar tengd og því hefðu þau haft sama málsnúmer við rannsókn yfirvalda. Þá sagði Helgi Magnús að skyldleiki hans við Sigurð væri ekki það mikill að vanhæfisreglur ættu við. Úrskurður um frávísunarkröfuna verður kveðinn upp á föstudag.

Leiðir þeirra Helga Magnúsar og Sigurðar skarast einnig í öðru máli sem nú er fyrir dómstólum þar sem Jón Ólafsson hefur farið fram á að Sigurður verji sig í skattsvikamáli sem höfðað hefur verið á hendur honum.

Þar er Helgi Magnús einnig sækjandi og hefur sem slíkur ekki viljað að Siguður fái að verja Jón þar sem hann sé mögulegt vitni.