Margrét St. Hafsteinsdóttir
Margrét St. Hafsteinsdóttir
Í forsíðugrein 24 stunda í gær var sagt frá því að fangelsi landsins væru ekki í drögum að fjárlögum sem voru lögð fyrir ríkisstjórnina í gær.

Í forsíðugrein 24 stunda í gær var sagt frá því að fangelsi landsins væru ekki í drögum að fjárlögum sem voru lögð fyrir ríkisstjórnina í gær. Aðstandendur fanga og allir sem vinna að hagsmunum fanga skilja væntanlega ekki alveg hvað er að gerast í kollinum á stjórnmálamönnum.

Aðstandendum fanga og velunnurum er það vel ljóst að sú stefna sem hefur verið í fangelsismálum landsins gengur ekki upp og alls ekki til lengdar þegar litið er á fjölda fangelsisdóma sem falla. Það er kannski ekki skrítið að fangelsi landsins og málefni fanga virðist vera afgangsstærð í fjárlögum. Það er ríkjandi sú hugsun að fangar á Íslandi hafi það bara gott og búi á þriggja stjörnu hótelum. Það er eins og það vanti skilning á því að fangelsi er fangelsi. Það er líka eins og stjórnvöld, ekkert síður en dómstóll götunnar, hafi enga samúð eða skilning á málefnum fanga og að þeir hafi mannréttindi. Örugglega gera ekki margir sér grein fyrir því að aðstandendur fanga óttast um afdrif ástvina sinna innan fangelsismúranna. Það er eins og stjórnvöld hafi ekkert kynnt sér rannsóknir um málefni fanga, sem allar benda í þá átt að refsigleði skilar engu til þjóðfélagsins öðru en brotnari einstaklingum.

Það hefur staðið til í áraraðir að byggja nýtt fangelsi á Íslandi. Hegningarhúsið á Skólavörðustíg hefur líka verið á undanþágu í áraraðir sem mannabústaður, en þar er aðbúnaður vægast sagt ömurlegur. Byggingarframkvæmd á Litla-Hrauni sem staðið hefur fyrir dyrum verður nú líklega sett í bið. Þar átti að vera meðferðar- og sjúkradeild auk rýmis fyrir 48 til 52 fanga. Það er ákaflega skrítið í öllu tali um eiturlyfjavandann að stjórnmálamann geti alls ekki séð að sá vandi liggur að stórum hluta til í fangelsum landsins. Langstærsti hluti fanga hefur tengst eiturlyfjum. Margir fangar eru veikir fíklar. Okkur ber skylda til að reyna að hjálpa þeim og ekkert síður hjálpa þeim föngum sem eiga við geðræn vandamál og heilsubrest að stríða. Það vill gleymast að mannréttindi snúast um alla, ekki bara suma.

Höf. er félagi í Aðgát, félagi aðstandenda og velunnara fanga.