Á fullt Birgir Leifur er að ná sér af meiðslum og byrjaður að sveifa kylfum af fullum krafti.
Á fullt Birgir Leifur er að ná sér af meiðslum og byrjaður að sveifa kylfum af fullum krafti. — Morgunblaðið/Ómar
„ÉG er allur að koma til og hef sett stefnuna á að vera með í móti í Ástralíu í lok nóvember,“ segir atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG, en hann hefur ekkert getað keppt í golfi síðan í byrjun maí vegna meiðsla.

„ÉG er allur að koma til og hef sett stefnuna á að vera með í móti í Ástralíu í lok nóvember,“ segir atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG, en hann hefur ekkert getað keppt í golfi síðan í byrjun maí vegna meiðsla. Hann varð þá að hætta leik á Evrópumótaröðinni en á ekki von á öðru en hann haldi að mestu réttindum sínum þar á næsta keppnistímabili.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

„Ég hef verið í sama prógrammi og ég hef verið undanfarna mánuði. Það er auðvitað búið að bæta við æfingum og mér líður bara nokkuð vel með þetta. Nú fer ég að keyra golfprógrammið af stað aftur af fullum krafti en ég er farinn að slá og geri það svona fimm sinnum í viku og er bara ánægður með hvernig gengur. Þetta lítur bara allt mjög vel út,“ sagði Birgir Leifur þegar Morgunblaðið heyrði í honum hljóðið í gær, en hann er búsettur í Lúxemborg þar sem hann hefur verið við æfingar til að ná sér góðum af meiðslum sínum. „Þetta lítur vel út miðað við hvernig þetta var í sumar og kannski var ég að reyna of mikið að koma mér í gang þá,“ segir Birgir Leifur.

„Það er svo sem ekkert komið alveg endanlega á hreint varðandi Evrópumótaröðina en ég er búinn að vera í góðu sambandi við þá sem þar ráða. Þeir vilja fá allar skýrslur frá læknum og hafa verið í sambandi við þá og segja mér að ég muni fá „veikindavottorð“ þannig að ég muni halda einhverju af réttindum mínum á mótaröðinni. Það er verið að vinna í því þessa dagana að koma skýrslum til þeirra og þá er aðeins formsatrið að ganga frá því,“ segir Birgir Leifur, en læknir Evrópumótaraðarinnar ráðlagði honum að fara sér hægt á sínum tíma þegar hann varð að hætta.

Fær þátttökurétt á mótaröðinni

En þýðir þetta að Birgir Leifur þurfi ekki að fara á úrtökumót fyrir evrópsku mótaröðina? „Já, í rauninni. Málið er að það verður gefið út í október í hvaða flokki maður lendir og þá sé ég hversu mikinn keppnisrétt ég fæ. En ég hef möguleika á að fara í úrtökumót í nóvember til að bæta stöðu mína. Ef ég verð orðinn góður þegar að því móti kemur skoða ég málin, en annars er ég búinn að fá inni á móti í Ástralíu í lok nóvember.

Þetta úrtökumót sem ég get farið í ef ég met stöðuna þannig er í byrjun nóvember og síðan um miðjan nóvember þannig að það yrði talsvert mikil törn að fara í það mót og síðan til Ástralíu. Ég verð bara að skoða og meta stöðuna þegar listinn frá Evrópumótaröðinni kemur, hvort ég fari í úrtökumót eða til Ástralíu, eða jafnvel hvort tveggja,“ segir Birgir Leifur.

Í hnotskurn
» Birgir Leifur hefur glímt við meiðsli í mjóbaki, öxl og hálsi í nokkurn tíma og urðu þau til þess að í lok maí varð hann að hætta að æfa golf og hætta keppni á evrópsku mótaröðinni.
» Hann náði að keppa á sjö mótum í mótaröðinni á síðasta tímabili og vonaðist eftir að ná í lokasprettinn þar, en náði sér ekki af meiðslum sínum.