H eimilislæknir Björns Ingólfssonar á Grenivík er annar hagyrðingur, Hjálmar Freysteinsson. Einu sinni fór Hjálmar í frí 1. september og orti Björn í öngum sínum: Ævi manna er enginn leikur er því betra að gá að sér, ekki get ég orðið veikur eftir 1.

H eimilislæknir Björns Ingólfssonar á Grenivík er annar hagyrðingur, Hjálmar Freysteinsson. Einu sinni fór Hjálmar í frí 1. september og orti Björn í öngum sínum:

Ævi manna er enginn leikur

er því betra að gá að sér,

ekki get ég orðið veikur

eftir 1. september.

Niðurdreginn hengi ég haus,

hef úr fáu að spila.

Helvíti að vera Hjálmarslaus

ef heilsan skyldi að bila.

Og Björn komst einhvern tíma að þeirri niðurstöðu að Hjálmar ætti að sjá til þess að hann dræpist ekki. Við nánari athugun sá Björn að til of mikils væri mælst að hann dræpist aldrei – hann yrði að lækka kröfurnar:

Um menntaveginn leið hans lá,

læknisstarfið vald'ann

og ber þess vegna ábyrgð á

að ég drepist sjaldan.

Einhvern tíma orti Hjálmar:

Mennirnir hljóta misjafnt gengi,

mín hefur verið gæfa slík,

ég er búinn að vera býsna lengi

bjarndýralæknir á Grenivík.

Nokkur umræða varð í borgarstjórn vegna þess að meirihlutinn beitti sér fyrir því að reist yrði stytta af Reykjavíkurskáldinu Tómasi Guðmundssyni. Var það gagnrýnt af minnihlutanum. Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd orti:

Tómas á að standa á stalli,

stara út í loftið þar.

Eins og miklu kvæðakalli

kjósi hann að veita svar.

– Eða glápi upp í fjalli

um urð og grjót til frambúðar!

Og Rúnar orti „að gefnu tilefni“:

Skammast sín nú ýmsir ættu,

enda staða mála veik.

Óskabarnið er í hættu

eftir spilavítisleik!

Þá orti Rúnar út af fréttum:

Fjölmenningar fjarri tísku

finnst mér rétt í von að þreyja.

Akranes á arabísku

aldrei mun ég læra að segja!