Tímabilið í íslenska íshokkíinu hófst á laugardaginn var þegar Skautafélag Akureyrar bauð lið Bjarnarins úr Grafarvogi velkomið í höfuðstað Norðurlands og sendi það rakleitt heim að nýju með tap á bakinu.

Tímabilið í íslenska íshokkíinu hófst á laugardaginn var þegar Skautafélag Akureyrar bauð lið Bjarnarins úr Grafarvogi velkomið í höfuðstað Norðurlands og sendi það rakleitt heim að nýju með tap á bakinu. Fyrsti leikurinn í höfuðborginni fer hinsvegar fram í kvöld í Laugardal þegar Skautafélag Reykjavíkur mætir Birninum og þar verða verkin látin tala að sögn tveggja þeirra sem þar mætast.

Eftir Albert Örn Eyþórsson

albert@24stundir.is

Seint verður sagt að um stórviðburð hafi verið að ræða þegar Íslandsmeistaramótið í íshokkí hófst um síðustu helgi enda liðin sem keppa í þeirri ágætu deild í karlaflokki aðeins fjögur sem er þó helmingi fjölmennari deild en kvennadeildin sem státar aðeins af tveimur félagsliðum. Það skiptir þó engu fyrir þá sem áhuga hafa. Íshokkí er hraðasta íþrótt heims og engin tilviljun að hún er þjóðaríþrótt einna fimm þjóða í nágrenni við okkur.

Reykjavíkurslagur

Í kvöld fer fram fyrsti leikur Reykjavíkurliðanna tveggja, Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur, í Skautahöllinni í Laugardal. SR er þar að leika sinn fyrsta leik í vetur en Björninn tapaði sínum fyrsta leik gegn Íslandsmeisturum SA um helgina, 4:2. Þess vegna en einnig þar sem um hitt Reykjavíkurliðið að ræða ætla Bjarnarmenn að láta sverfa vel til stáls í leiknum að sögn Vilhelms Þórs Bjarnasonar. „Við reynum að sjálfsögðu að leggja þá að velli og eigum við ekki að spá 5:3 fyrir okkur. Mikið af mörkum og skemmtun fyrir áhorfendur.“

Öll lið topplið

Þar sem aðeins fjögur félög keppa innbyrðis í karlaflokki á Íslandsmótinu í íshokkí skiptir hver og einn leikur mun meira máli en ella væri félögin fleiri en fámenni hefur háð greininni um alllangan tíma og gerir enn. Vilhelm telur öll liðin hafa orðið fyrir blóðtöku fyrir þessa leiktíð. Þess utan eru hóparnir hjá félögunum ekki ýkja stórir heldur og meiðsli geta sett stórt strik í reikninginn. Þannig er það til dæmis hjá okkur í Birninum þessa stundina. Okkar besti maður, Sergey Zak, er til dæmis frá um tíma og það háir okkur mikið. En meiðsli eru algeng í íshokkíi og svona er þetta bara. Það er ekki fyrir veimiltítur.“

Gull í greipar SA

Skautafélag Akureyrar eru núverandi meistarar og sigruðu nýlega hraðmót í íshokkí sem fram fór í Egilshöll fyrir skömmu. Bættu Akureyringarnir þar með enn einum titli í safn sitt en þeir hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn frá upphafi deildar í greininni hérlendis að frátöldum fjórum árum þegar SR hampaði þeim titli. SA er talið sigurstranglegast nú að nýju.
Í hnotskurn
Skautafélag Akureyrar á titil á verja þessa leiktíðina. Sigruðu norðanmenn fyrsta leik sinn gegn Birninum nokkuð örugglega 4:2 Önnur félög í deildinni eru Skautafélag Reykjavíkur og Narfi frá Hrísey. SR og Björninn mætast í kvöld en á laugardaginn kemur eigast við SA og SR fyrir norðan. Engin önnur félög en SA og SR hafa orðið Íslandsmeistarar í íhokkíi.