[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Birgi Örn Steinarsson biggi@24stundir.is Sívaxandi vinsældir bræðrabandsins Kings of Leon hafa komið öllum að óvörum.

Eftir Birgi Örn Steinarsson

biggi@24stundir.is

Sívaxandi vinsældir bræðrabandsins Kings of Leon hafa komið öllum að óvörum. Ekki síst liðsmönnum sjálfum, er störðu undrandi á áhorfendaskarann á Hróarskeldu á meðan þeir hristu hvern slagarann á fætur öðrum fram úr erminni.

Á okkar tímum þegar flestar nýjar sveitir berjast við að hrinda af stað eða vera hluti af nýrri tónlistarstefnu hefur þessi eytt púðri sínu í að halda í hefðina. Frá fyrstu plötu hafa engar tilraunir verið gerðar til þess að tileinka sér ný tækniundur eða að missa sig í stórtækar útsetningar. Þess í stað virðist allt vera lagt í grípandi söng- og gítarlínur.

Nú er hljómurinn orðinn ögn dýrari og söngurinn hefur aldrei verið jafn framarlega í blönduninni.

Oftast merki þess að sveitir séu að reyna höfða til fjöldans. En það myndi að sjálfsögðu aldrei draga neinn í land ef lögin væru prump.

Kveikt í kyni

Hlustandanum er strax gert ljóst í upphafslagi plötunnar, Closer, að Kings of Leon sé komin í úrvalsdeild. Undirspilið er byggt upp á afar einföldu þriggja nótna gítarstefi sem rennur í gegnum hljóðeffekt og sveimar yfir þungum trommuslögum. Stórt rými lagsins er svo fyllt upp með ærslafullri gítarsúpu og ótrúlegum söng lagahöfundarins Caleb Followhill er hefur aldrei hljómað betur.

Strax í öðru laginu, Crawl, er hlustandanum svo gert ljóst að sveitin er ekki að reyna að gera einhverja hlustendavæna bónusútgáfu af sjálfri sér í von um að ná til víðari hóps. Þeir ætla að ryðjast til eyrna ykkar á eigin forsendum.

Það sem hefur skotið sveitinni fram yfir aðrar í vinsældum er einmitt hversu vel var í grunninn lagt í upphafi. Á leiðinni hefðu þeir auðveldlega getað fyllst af eigin ágæti og ákveðið að færa sig meira út í listræna tilburði í von um að hafa djúpstæð áhrif á tónlistarsöguna með tilviljunarkenndri snilli sinni. Slíkt er mjög algengt hjá sveitum sem eru komnar á fjórðu plötu. Það virkar oft vel, en hefði verið dauðadómur fyrir sveit með jafn sterkar rætur í bandarískri sönglagahefð og þessi þar sem allt snýst um að fanga hlustandann með sönglínum sem auðvelt er að raula með. Hér færðu það sem þú býst við, bara í meiri gæðum. Árin í gospelkórnum hjá pabba hafa svo sannarlega borgað sig.