Opnun? Stóriðjan laðar að erlenda fjárfesta en nefnd skoðar rýmkun reglna.
Opnun? Stóriðjan laðar að erlenda fjárfesta en nefnd skoðar rýmkun reglna. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.

Eftir Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Nefnd á vegum viðskiptaráðherra, sem skipuð er fulltrúum þingflokkanna, hagsmunasamtaka og ráðuneyta, hefur í eitt ár unnið að endurskoðun laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum og að einföldun reglna um takmarkanir á þessum fjárfestingum útlendinga hér. Að sögn Jóns Þórs Sturlusonar, formanns nefndarinnar, má reikna með að hún skili niðurstöðum sínum mjög fljótlega. Hann á von á að samkomulag muni nást um „veigamikla þætti“.

Ef frá er talin stórtæk fjárfesting erlendra fyrirtækja í stóriðju á Íslandi, hefur lítið farið fyrir útlendingum í íslenskum atvinnurekstri. Fréttir af kaupum sjeiks Mohammeds Bin Khalifa Al-Thanis á 5% hlut í Kaupþingi fyrir tæpa 26 milljarða hafa því vakið athygli. Tölur sem Seðlabankinn birtir reglulega sýna raunar að bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi hefur aukist stórum skrefum á seinustu misserum. Í lok júní var beina erlenda fjárfestingin komin í 887 milljarða, auk þess sem eign erlendra fjárfesta í innlendum markaðsverðbréfum jókst um 238 milljarða á öðrum ársfjórðungi.

Tekist á um hömlur

Tölur Seðlabankans sýna að um helmingur fjármunaeignar erlendra aðila hér í lok seinasta árs var í fyrirtækjum í fjármálaþjónustu. En þá er aðeins hálf sagan sögð. Flestum ber saman um að a.m.k. umtalsverður hluti þessara hlutafjárkaupa komi frá eignarhaldsfélögum eða öðrum fyrirtækjum í öðrum löndum, sem eru að stærstum hluta í eigu Íslendinga. Spurður um þetta segir Tómas Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs Seðlabankans, ekki unnt að greina nákvæmlega hversu stór hluti þessarar auknu fjárfestingar í fjármálaþjónustunni er komin frá útlendingum.

Helstu takmarkanir og höft á fjárfestingum erlendra aðila snúast um yfirráð í sjávarútvegi. Einnig eru takmarkanir á eign þeirra í orkugeiranum og samanlagður eignarhluti útlendinga í íslensku fyrirtæki sem stundar flugrekstur má ekki vera meiri en 49% nema þeir séu búsettir í EES-löndum.

Í sjávarútveginum eru strangar takmarkanir á eign útlendinga. Í raun og veru þýða reglurnar að útlendingar eða erlend fyrirtæki gætu átt allt að 49,9% í fyrirtæki sem er aftur eigandi að fyrirtæki sem rekur útgerð. Hindranirnar standa í vegi fyrir því að erlendi fjárfestirinn gæti eignast ráðandi hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu með þessum óbeina hætti. Skv. heimildum eru mjög skiptar skoðanir í nefndinni um hvort opna eigi frekar á möguleika útlendinga til að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum. Afstaða útvegsmanna er skýr, engin ástæða er til að slaka neitt á þessum takmörkunum á erlendri fjárfestingu í sjávarútveginum, að sögn Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ, en útvegsmenn eiga sæti í nefndinni.

Um þetta er deilt í nefndinni og er eftir því sem næst verður komist enn alls óvíst hvort slakað verði á þessum hindrunum. Heimildir eru fyrir því að meirihluti sé hins vegar fyrir því að fella niður ákvæðin um takmarkanir á fjárfestingu í orkugeiranum. Því muni þó ekki fylgja stórfelldar breytingar. Með lögum Alþings sl. vor um að orkuauðlindir séu í opinberri eigu mega ríki og sveitarfélög ekki láta orkuauðlindirnar varanlega frá sér. Þar með sé búið að útiloka viðskipti og fjárfestingar einkaaðila í orkuauðlindum.

Stórtækir í stóriðju

EIGN útlendinga í stóriðju hér á landi var tæplega 187 milljarðar kr. um seinustu áramót og hafði vaxið úr tæpum 30 milljörðum á sex árum. Þó erlendir fjárfestar hafi ekki verið stórtækir í öðrum atvinnurekstri hér á landi eru þó dæmi um umtalsverðar fjárfestingar þeirra í íslenskum félögum. Nú síðast með kaupum fjármálaráðherra Katars á 5% hlut í Kaupþingi. Fyrr í sumar kom Ólafur Jóhann Ólafsson með bandaríska fjárfestingarfélagið Wolfensohn & Co. með um tvo milljarða króna í hlutafé inn í Geysi Green Energy. Þá er William Demant Invest A/S stærsti einstaki hluthafinn í stoðtækjafyrirtækinu Össuri, svo dæmi séu nefnd.