Theresia Fegurðardísin bíður örlaga sinna í einangrunarvist.
Theresia Fegurðardísin bíður örlaga sinna í einangrunarvist.
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur kolbun@mbl.is ÖRLAGASAGA sex kvenna á árum frönsku byltingarinnar er rakin í bókinni Liberty eftir Lucy Moore. Ævi þeirra kvenna sem við sögu koma var viðburðarík og ekki án áfalla.

Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

kolbun@mbl.is

ÖRLAGASAGA sex kvenna á árum frönsku byltingarinnar er rakin í bókinni Liberty eftir Lucy Moore. Ævi þeirra kvenna sem við sögu koma var viðburðarík og ekki án áfalla. Byltingin mótaði líf þeirra og sumar þeirra mótuðu byltinguna. Þær áttu það sameiginlegt að vera hugrakkar, ástríðufullar og sérstakar.

Heimur glæpa

Ein þeirra, Manon Roland, var dæmd fyrir að vera þátttakandi í samsæri gegn Robespierre. Á höggstokknum sagði hún hin frægu orð: „Frelsi, þvílíkir glæpir eru ekki framdir í nafni þínu!“ Eiginmaður hennar framdi sjálfsmorð þegar hann frétti af dauða hennar og skildi eftir sig skilaboðin: „Ég vil ekki lengur lifa í heimi sem er fullur af glæpum.“

Einna fyrirferðarmest í bókinni er hin rómaða fegurðardís Theresia de Fontenay sem stuðlaði að falli hins ofsóknaróða Robespierres. Hann hataði hana og lét fangelsa. Í tæpan mánuð var hún höfð í skelfilegri einangrunarvist og var ekki leyft að þvo sér eða skipta um föt. Þegar Robespierre var sagt frá því hversu hörmulegar aðstæður hennar væru sagði hann: „Látið hana horfa í spegil einu sinni á dag.“ Skömmu áður en taka átti hana af lífi gerði elskhugi hennar Tallien og félagar hans uppreisn gegn Robespierre og ógnarstjórn hans. Theresia öðlaðist frelsi og varð eftirlæti blaðamanna og almennings.

Théroigne de Méricourt er ein þeirra kvenna sem sagt er frá. Hún mætti fjandskap byltingarmanna sem hæddust að henni og töldu hana lítið erindi eiga í sinn hóp enda voru þeir margir beinlínis andsnúnir afskiptum kvenna af þjóðfélagsmálum. Hún missti að lokum vitið. Rithöfundurinn Germaine de Stael kemur einnig við sögu ásamt byltingarkonunni Pauline Léon og hinni dulúðugu Julliette Récamier.

Í biðsal dauðans

Lucy Moore segir sögu þessara kvenna um leið og hún rekur byltingarsöguna. Henni tekst einstaklega vel að laða fram andrúmsloft ótta og óöryggis á tímum þegar fæstir gátu verið öruggir um líf sitt. Þarna er að finna magnaðar lýsingar á fólki sem beið dauðans, sumir sýndu mikið hugrekki, aðrir voru skelfingu lostnir og sumir sturluðust. Nefna má stutta sögu af stúlku sem hafði séð á eftir allri fjölskyldu sinni á höggstokkinn. Hún var í losti, sat hreyfingarlaus í fangelsinu, neitaði að borða og þrýsti gælupáfagauk sínum að brjósti sér. Þegar vinveitt fólk reyndi að lokka hana til að borða með því að segja henni að páfagaukurinn hennar væri svangur svaraði hún: „Nei, nei. Hann vill ekki neitt. Páfagaukurinn minn er alveg eins og ég, hann vill ekki neitt.“

Það eru einmitt sögur eins og þessi sem eiga ekki síst þátt í að skapa áhrifamikla og minnisstæða bók.