Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson
ÍSLENDINGALIÐIÐ Reading féll úr leik eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni við úrvalsdeildarlið Stoke í 3. umferð ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöld.

ÍSLENDINGALIÐIÐ Reading féll úr leik eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni við úrvalsdeildarlið Stoke í 3. umferð ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöld. Ívar Ingimarsson lék allan leikinn fyrir Reading og Brynjar Björn Gunnarsson fyrstu 95 mínúturnar en þetta var fyrsti leikur hans með aðalliðinu síðan í janúar.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu var 2:2 en í vítaspyrnukeppninni nýttu leikmenn Stoke fjórar spyrnur og Reading-menn þrjár. Hinn 19 ára gamli Gylfi Þór Sigurðsson hafði komið inn á sem varamaður fyrir Brynjar og hann gaf Reading von með því að skora úr fjórðu spyrnunni en Leroy Lita skaut yfir úr síðustu spyrnunni.

Jóhannes Karl Guðjónsson lék allan leikinn á miðjunni fyrir 1. deildarlið Burnley sem gerði sér lítið fyrir og lagði úrvalsdeildarlið Fulham að velli, 1:0. sindris@mbl.is