Taplausar í tólf mánuði Rúmlega eitt ár er síðan kvennalandsliðið tapaði síðast leik. Þá óvænt gegn Slóveníu.
Taplausar í tólf mánuði Rúmlega eitt ár er síðan kvennalandsliðið tapaði síðast leik. Þá óvænt gegn Slóveníu. — Algarvephotopress/Carlos Brito
Í DAG flýgur íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu á vit síns stærsta ævintýris nokkru sinni en á laugardaginn kemur mætir það landsliði Frakka í hreinum úrslitaleik um hvort liðið hreppir beint sæti á Evrópumótinu í Finnlandi á næsta ári.

Í DAG flýgur íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu á vit síns stærsta ævintýris nokkru sinni en á laugardaginn kemur mætir það landsliði Frakka í hreinum úrslitaleik um hvort liðið hreppir beint sæti á Evrópumótinu í Finnlandi á næsta ári. Að sögn fyrirliðans, Katrínar Jónsdóttur, er engan bilbug að finna á íslensku stelpunum. Þær þekkja stíl franska liðsins vel og vita upp á hár við hverju skal búast um helgina. Hvernig sem á það sé litið verður leikurinn einn sá erfiðasti því bæði lið vilja komast á Evrópumótið.

Eftir Albert Örn Eyþórsson

albert@mbl.is

„Það liggur mætavel fyrir hvað við þurfum að gera á laugardaginn kemur og við teljum okkur vita upp á hár hvað þarf til að allt gangi þar upp,“ sagði kokhraust Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, sem fer af landi brott í dag og flýgur til Frakklands. Þar mætir Ísland landsliði Frakka á laugardag og nægir Íslandi jafntefli til að enda á toppnum í sínum riðli í undankeppni EM. Það tryggir að Ísland verður meðal þeirra þjóða sem þar taka þátt en slíkum árangri hefur íslenskt landslið aldrei áður komist nálægt að ná.

Einbeittur hópur

Íslenski hópurinn hefur eytt síðustu tveimur dögum að mestu saman við æfingar og undirbúning og segir Katrín að ekki fari milli mála að leikmenn allir séu einbeittir og kollurinn á réttum stað fyrir leikinn sem verður aldrei neitt annað en erfiður. „Þarna er um að ræða að mæta sjöunda besta kvennalandsliði heims á útivelli þar sem þær hafa góðan stuðning af pöllunum. Við erum ekki lengur óskrifað blað eins og kannski var málið í fyrri leiknum að um hreint vanmat þeirra hafi verið að ræða, en hafi svo verið þá græðum við ekki á slíku nú. Þær vita jafnvel og við hvað þær þurfa að gera. Við erum hins vegar einbeittar og draumurinn er að komast á EM og þarna býðst okkur stysta leiðin til þess.

Allir vinir í skóginum

Ekki er hægt að komast hjá því að forvitnast um móral leikmanna gagnvart hver öðrum með tilliti til þess að fimm leikmenn landsliðsins eru úr KR og fjórar úr Val en síðarnefnda liðið steinlá fyrir KR í bikarúrslitaleiknum sem fram fór um síðustu helgi. Ekki vildi Katrín kvitta upp á annað en allir væru vinir í skóginum. „Það eru engin vandamál þar og engin eftirmál af því enda var það hluti af leiktíðinni heima og nú er verkefnið allt annars eðlis og við höfum verið það lengi í þessu flestar að við vitum að ekkert fæst í Frakklandi eða annars staðar nema hópurinn sé samstiga og ein liðsheild. Ég get fullyrt að það er draumur hverrar og einnar okkar að spila á Evrópumótinu og það markmið sameinar okkur og annað skiptir ekki máli.“

Andstæðingurinn?

Ótti, hræðsla eða of mikil virðing fyrir franska landsliðinu er algjörlega út úr myndinni að sögn Katrínar. „Ekkert slíkt í hópnum. Við höfum mætt þeim áður og trúin á okkur er sterkari en svo að við séum að mæta ofjörlum okkar. Þvert á móti. Þetta er náttúrlega ekki sami hópur og við mættum í sigurleiknum fyrir ári en spil þeirra er svipað. Þær eru grimmar, hraðar og teknískar og öll mistök af okkar hálfu eru ávísun á refsingu um leið. En það er hægt að segja það sama um okkur. Við getum bitið vel frá okkur og það hyggjumst við gera í Frakklandi og koma heim með stig eða þrjú.“

Í hnotskurn
» Leikurinn fer fram á Henri Desgrange-leikvanginum í smábænum La Roche sur Yon skammt frá Nantes.
» Rúmlega hundrað manna stuðningsmannahópur fer héðan á leikinn en hann er ennfremur sýndur í beinni útsendingu á RÚV.